Bændur vilja leggja sitt af mörkum

„Þetta var fínn fundur – eins og þeir gerast bestir,“ sagði Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra og formaður VG, eftir um tveggja tíma fund um landbúnaðar- og atvinnumál á Breiðumýri í Reykjadal í morgun. Þar mættu 40-50 manns. Þetta var fyrsti fundur VG af þremur um landbúnaðar- og atvinnumál í dag.
Steingrímur sagði að mest hafi verið rætt um landbúnaðarmál, nýju búvörusamningana og stöðuna hjá bændum. Hann sagðist ekki hafa heyrt annað en að menn hafi talið skynsamlega ráðstöfun að gera búvörusamningana. „Bændur eru svo félagslega þroskaðir og ábyrgir að þeir eru skilningsríkir á þessar aðstæður og vilja leggja sitt af mörkum,“ sagði Steingrímur.

Talsvert var rætt um stöðu afurðastöðvanna, háan vaxtakostnað og erfiðleika sem hann veldur, áburðarkaupin í vor og fleira. Einnig var rætt um erfiða skuldastöðu margra bænda. Þá var rætt um könnun sem á að gera á högum bænda. Steingrímur sagði að búa eigi til gagnagrunn um stöðu bænda svipað og Seðlabankinn hefur unnið að varðandi heimilin.


„Það þarf að hafa betri gögn um þetta varðandi landbúnaðinn í heild. Þær upplýsingar sem fást úr búvörureikningum eru takmarkaðar og ekki alveg fullnægjandi til að meta stöðuna í heild,“ sagði Steingrímur. „Ég fór yfir það sem ég hef rætt við bankana um að styðja greina og við ætlum að reyna að koma Byggðastofnun aftur í gang,“ sagði Steingrímur.


Ætlunin er að landbúnaðarráðuneytið geri könnunina í samvinnu við Bændasamtökin og leiti samstarfs við banka og fjármálastofnanir. „Bændurnir eru svo sérstakir því þetta er atvinnurekstur um leið og þetta eru heimili fólks.“ sagði Steingrímur. „Ég held að það þurfi að greina þetta sérstaklega fyrir landbúnaðinn og þessi gögn þyrftu að liggja fyrir sem fyrst.“


Fyrsti fundurinn var í morgun að Breiðumýri í Reykjadal og hófst kl. 11. Annar fundurinn verður að Laugaborg í Eyjafjarðarsveit og hefst kl. 16.00. Þriðji og síðasti fundurinn verður að Rimum í Svarfaðardal og hefst hann kl. 20.00. Frummælendur eru Steingrímur J. Sigfússon, ráðherra og formaður VG og Þorsteinn Bergsson bóndi, en þeir eru í framboði í Norðausturkjördæmi. Einnig Arndís Soffía Sigurðardóttir ferðaþjónustubóndi og lögfræðingur sem er í framboði í Suðurkjördæmi.


back to top