Bændur skynja miklar breytingar á eignarhaldi bújarða

Mikill meirihluti bænda, eða 92%, telja það mikilvægt að landbúnaður sé stundaður á nágrannajörðum þeirra og 72% þeirra telja að breytingar á eignarhaldi jarða síðastliðin 10 ár hafi haft áhrif á búsetu í sveitum. Þetta kemur m.a. fram í rannsókn á samfélagslegum áhrifum vegna breytts eignarhalds bújarða sem Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst hefur unnið fyrir Bændasamtökin. Það er eindreginn áhugi bænda á því að land verði áfram tiltækt til landbúnaðar en almennt eru svarendur á móti samþjöppun í landbúnaði. Þó nokkur breytileiki er á viðhorfum bænda sem búa á sunnanverðu landinu eða fyrir norðan.

Ráðist var í rannsóknina að tilstuðlan Búnaðarþings 2006 en markmiðið var að kanna viðhorf jarðaábúenda til breytinga á eignarhaldi jarða undanfarin ár og hvaða áhrif þeir telji að sú þróun hafi haft á sveitir landsins. Gerð var póstkönnun og spurningalisti sendur út til ábúenda jarða. Endanlegt úrtak var 804 einstaklingar og svör bárust frá 468, sem er 58,2%  svarhlutfall. Að auki voru tekin viðtöl við 14 einstaklinga vítt og breitt um landið. Við úrvinnslu gagnanna var landinu skipt í tvö búsetusvæði, norður- og suðursvæði. Norðursvæðinu tilheyra Vestfirðir, Norðurland vesta og eystra, auk Austurlands. Innan suðursvæðisins eru Vesturland, höfuðborgarsvæðið, Reykjanes og Suðurland.


Helstu niðurstöður könnunarinnar eru þær að 70% bænda á suðurhluta landsins telja miklar eða mjög miklar breytingar hafi orðið á búsetu á svæðinu. Enginn munur var á viðhorfum íbúa á norðursvæði landsins til þess hvort breytingar hafi orðið á búsetu á þeirra svæði, 50% telja að mjög eða frekar miklar breytingar hafi átt sér stað á meðan helmingur aðspurðra telur þær litlar eða mjög litlar.


Vegna eftirspurnar þéttbýlisbúa eftir landi hefur jarðarverð hækkað mun meira á Suður- og Vesturlandi en í öðrum landshlutum. Áhrif frístundabúsetu eru því önnur og meiri á suðursvæðinu en norðursvæðinu.


72% bænda telja að breytingar á eignarhaldi jarða síðastliðin 10 ár hafi haft áhrif á búsetu í sveitum. Helstu breytingarnar eru félagslegar. Þar ber helst fólksfækkun í sveitum sem hefur þau áhrif að félagsleg staða þeirra veikist, jarðir fara í eyði og erfiðara er að sinna almennri þjónustu. Þetta hefur þau áhrif að erfiðara er með samhjálp, girðingamál, smalanir, göngur og fjallskil.


Ólík viðhorf eftir landshlutum
Breytingar á eignarhaldi virðast hafa jákvæðari áhrif á sunnanverðu landinu en norðanverðu. Eigendur jarða sem ekki stunda hefðbundinn landbúnað eru mun líklegri til þess að verja stærri hluta ársins á jörðum nær höfuðborgarsvæðinu, byggja þar upp og framkvæma. Þannig eru 47% svarenda mjög eða frekar sammála því að tvöföld búseta skapi störf í kringum þjónustu í sveitinni, 35% eru mjög eða frekar sammála því að fjölbreytni atvinnulífs hafi aukist. 31% eru sammála því að verslun hafi styrkst vegna tvöfaldrar búsetu og 28% telja að tekjumöguleikar þeirra sem fyrir eru hafi aukist með breyttu eignarhaldi á jörðum.


Bændur vilja búa
Afstaða bænda er skýr, þeir vilja halda áfram búskap og það skiptir þá miklu máli að sveitirnar séu í byggð. 92% svarenda telja mjög eða frekar mikilvægt að búseta sé á nágrannajörðum þeirra. Mikill meirihluti telur mikilvægt að landbúnaður sé stundaður á nágrannajörðum. Meirihluti svarenda telur neikvætt að einn aðili eigi margar jarðir. Einnig kom fram í könnuninni að bændur hafa áhyggjur af því ef aðgangur að landi fyrir landbúnað skerðist í framtíðinni. Mikill meirihluti svarenda var sammála því að ávallt eigi að tryggja land fyrir landbúnað.


Nánar verður fjallað um könnunina í Bændablaðinu í dag.


back to top