Bændasamtökin senda frá sér yfirlýsingu vegna umræðu um sauðfjárrækt

Í ljósi umræðu um greinaskrif Þórólfs Matthíassonar háskólaprófessors við HÍ og umfjöllunar í fjölmiðlum um málefni sem tengjast sauðfjárrækt og sauðfjárbændum hafa Bændasamtökin sent frá sér eftirfarandi yfirlýsingu:
„Í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, fimmtudaginn25. ágúst, var flutt frétt byggð á greinarskrifum Þórólfs Matthíassonar, deildarforseta hagfræðideildar Háskóla Íslands, sem birtist í Fréttablaðinu í morgun. Auk þess tók fréttamaður Rúv viðtal við deildarforsetann. Í viðtalinu var m.a. rætt um fyrirkomulag opinbers stuðnings við íslenska sauðfjárrækt. Enn fremur var fjallað um það í fréttinni að sauðfjárbændur hefðu gengið á fund háskólarektors til þess að ræða um framgöngu deildarforseta hagfræðideildar undanfarnar vikur í neikvæðri umfjöllun hans um framleiðslu og verðlagningu sauðfjárafurða.

Rétt er að taka fram að Bændasamtök Íslands hafa ekki fundað með háskólarektor um þetta mál. Það hafa Landssamtök sauðfjárbænda aftur á móti gert og samkvæmt upplýsingum þeirra var aldrei krafist áminningar eða uppsagnar Þórólfs Matthíassonar eins og skilja mátti af orðum hans. Það er annað hvort hugarburður Þórólfs eða þá að hann hefur fengið rangar upplýsingar frá yfirmönnum sínum.


Vakin er athygli á að deildarforseta hagfræðideildar hefur margoft verið svarað af bændum bæði í greinum og viðtölum við fjölmiðla. Málflutningur hans hefur verið fullur af rangfærslum, grófum mistúlkunum og leiðréttingar hafa ekki verið teknar til greina af hans hálfu.


Í Fréttablaðinu í dag telur hann sér sæma að atyrða sauðfjárbændur með þeim hætti að þeir þiggi milljarða króna í opinber framlög án nokkurra skilyrða. Miðað við allar þær athugasemdir sem settar hafa verið fram í svargreinum vegna ranghermis deildarforsetans, sem væntanlega fer með faglegt fyrirsvar hagfræðideildar, má vera ljóst að ekki þýðir að halda uppi málefnalegum samræðum á þeim nótum sem hann notar í umfjöllun um sauðfjárbúskap.


Því er orðum Þórólfs enn og aftur mótmælt og vísað í fyrri rökstuðning bænda sem komið hefur fram í fjölmiðlum.


Enn fremur óska Bændasamtök Íslands eftir að koma því á framfæri við deildarforsetann, af fenginni reynslu, að umræða um veigamikil hagsmunamál heillar atvinnugreinar þurfi að fara fram á ábyrgum forsendum.“


/Bændasamtök Íslands


back to top