Bændasamtökin og Starfsgreinasambandið undirrita nýjan kjarasamning

Í dag náðist samkomulag um nýjan samning um kaup og kjör starfsmanna sem vinna almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum var undirritaður í morgun. Gildir hann frá 1. maí sl. til loka nóvember 2010. Ýmis nýmæli eru í þessum samningi, svo sem að starfsmönnum eru nú tryggðar starfsldurshækkanir, auk þess sem ný ákvæði eru um aðbúnað og vinnuvernd. Þá fá landbúnaðarverkamenn aðgang að fræðslusjóðum atvinnulífsins.

 Aðalsteinn Baldursson formaður Starfsgreinasambands Íslands lýsir ánægju sinni með þennan samning. „Við höfum umbylt samningnum og fært hann nær veruleikanum. Við teljum að hann sé hagstæður báðum aðilum, bændum og þeim sem þeir ráða til starfa.“


Eiríkur Blöndal tekur í sama streng og segir til bóta að í samningnum er kveðið nánar en verið hefur á um það til hverra samningurinn nær, það er starfsmanna sem vinna við almenn landbúnaðarstörf á bændabýlum, ráðskvenna/matráða og þeirra sem starfa við ferðaþjónustu í smærri stíl.


Samningurinn kveður á um að byrjunarlaun skuli vera 152.711 kr. á mánuði fyrir yngri en 22 ára og að þau hækki í 160.030 kr. eftir sjö ára starf. Þá er kveðið á um að sé starfsmanni falin ábyrgð á búrekstri, svo sem við afleysingar í fríum bónda, skuli samið sértaklega um álag fyrir það.


Nánar verður gerð grein fyrir samningnum í Bændablaðinu sem kemur út 10. júní nk.


 


back to top