Áfram stefnt að Landsmóti á sama tíma

Landsmót hestamanna verður haldið á áður ákveðnum tíma á Vindheimamelum í Skagafirði þrátt fyrir hóstapestina sem herjað hefur á hross að undanförnu. Hagsmunaaðilar innan hestamennskunnar voru boðaðir á fund í sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í dag til að fá heildarsýn yfir stöðu mála vegna hóstapestarinnar.

Sigurbjartur Pálsson stjórnarmaður í Landsmóti ehf. segir að sami hópur muni hittast eftir tíu daga til að taka stöðuna þá. „Við fengum ákveðnar upplýsingar um hvernig pestin hefur verið að þróast og þær upplýsingar gefa tilefni til að vera bjartsýnni en verið hefur. Það er von til þess að veikin sé komin yfir hámarkið. Það er hins vegar ljóst að það munu ekki öll hross sem líklega hefðu komið til landsmóts verði fær til þess.“


Sigurbjartur segir að þrátt fyrir að funda eigi eftir tíu daga þýði það ekki að verið sé að fresta ákvörðun um Landsmótshald. „Landsmót verður haldið, það er ekkert sem bendir til annars.“


back to top