Aðalfundur HS 2013
Fundargerð
Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 20. febrúar 2013 í félagsheimili Hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf
Dagskrá:
1.Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
2.Skýrsla stjórnar, formaður HS, Sveinn Steinarsson
3.Ársreikningur, María Þórarinsdóttir
4.Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
5.Ákvörðun um félagsgjald 2013, tillaga frá stjórn
6.Kosningar, kosið um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn.
7.Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
8.Kosning um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurl.
9.Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda.
Kaffihlé
10.Ræðumaður kvöldsins, Heimir Gunnarsson
11.Umræður
12.Önnur mál
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
Birgir Leó Ólafsson setti fundinn kl. 20:30 en vegna veikinda gat Sveinn Steinarsson ekki mætt á fundinn. Birgir stakk upp á Ólafi Þórissyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.
2. Skýrsla stjórnar, Birgir Leó Ólafsson
Sæl öll og velkomin.
Frá síðasta aðalfundi hefur stjórnin komið saman sjö sinnum og fundarefnið verið breytilegt.
Við héldum allgóðan haustfund þar sem Guðlaugur Antonsson og Sigurbjörg Þorsteinsdóttir frá Keldum voru í aðalhlutverkum. Guðlaugur var með erindi sem hann kallaði „Hrossarækt og hestamennska –staða og framtíðarsýn“ og Sigurbjörg var með erindi sem hún kallaði „Sumarexem, ónæmismeðferð og meðhöndlun“.
Fræðslukvöld var 5. febrúar sl. að Syðri-Gegnishólum og voru fyrirlesarar þau Olil og Bergur en þau kölluðu viðburðinn „Vinnustund í reiðhöllinni á Syðri-Gegnishólum“. Þau Olil og Bergur sýndu og sögðu frá því hvernig þau vinna með trippin sín og hvernig þau byggja þau markvist upp, einkum þau trippi sem stefnt er með í kynbótadóm að vori. Þetta var fróðleg og skemmtileg kvöldstund og kunnum við þeim Olil og Bergi bestu þakkir fyrir samstarfið. Þau lögðu það til að sú greiðsla sem þeim væri ætluð fyrir þeirra framlag sem og aðgangseyrir færu óskipt í það mikilvæga rannsóknastarf sem unnið á Keldum í afnæmingu á sumarexeminu. Verða því lagðar 78.500 kr. inn á reikning hjá Tilraunastöð HÍ að Keldum.
Það er stefnt á annað fræðslukvöld með svipuðu sniði þann 3.mars í Rangárhöllinni og verður fyrirlesari og sýnandi Einar Öder Magnússon.
Á síðasta aðalfundi var skipaður starfshópur sem átti að fjalla um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum. Starfshópurinn vann vel það verk sem honum var falið og skilaði af sér skýrslu á haustfundi HS. Stjórnin er þeirrar skoðunar að það fyrirkomulag að skipa starfshópa til að fjalla um afmörkuð málefni sé góð leið til að vinna faglega og virkja félagsmenn til góðra verka. Samkvæmt lögum félagsins getur stjórn skipað starfsnefndir í einstaka málaflokkum og /eða gert tillögu til aðalfundar um slíkt sé það talið henta. Mjög líklegt er að stjórn skipi í starfsnefnd með vorinu sem taki fyrir markaðsmál en mörgum finnst kominn tími til markvissra vinnubragða á því sviði. Þessi hópur myndi skila af sér á haustdögum rétt eins og síðasti starfshópur.
Framundan eru hefðbundnir viðburðir; ungfolasýningin og Ræktun 2013 og verða þeir með sama sniði og undanfarin ár. Félagsmenn eru hvattir til þátttöku í þessum viðburðum þar sem þeir eru mjög góð leið til að koma árangri sínum á framfæri.
Félagsmönnum er bent á að fundargerðir okkar eru inni á heimasíðunni www.bssl.is þær eru ítarlega og góðar, þökk sé Höllu Eygló. Eitt erindi frá síðasta aðalfundi ætla ég að benda ykkur á sem ekki voruð á þeim fundi. Það er frásögn Guðmars Þórs Péturssonar af því starfi sem hann og hans fólk hefur lagt á sig undanfarin ár á sviði markaðsmála í USA.
Mánudaginn 25. febrúar næst komandi mæta Guðlaugur Antonsson og Kristinn Guðnason á fund hér í Hliðskjálf þar sem farið verður yfir það helsta sem er á döfunni á næstu mánuðum.
Við fáum góðan gest til okkar á aðalfundinn en það er Heimir Gunnarsson reiðkennari og tamningamaður. Heimir mun segja okkur frá sínum hugleiðingum um hestamennsku og hrossarækt í nútíð og framtíð. Takk fyrir.
3. Ársreikningur
María Þórarinsdóttir fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld: | 5.153.733 kr. |
Tekjur: | 4.562.406 kr. |
Tap: | 591.327 kr. |
Eignir: | 21.791.444 kr. |
Skuldir: | 38.449 kr. |
María sagði að heimilt væri að nota vaxtatekjur af bankainneign en það hefði ekki verið gert.
4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Reikningar afgreiddir og samþykktir samhljóða. Birgir Leó Ólafsson spurði Pál Stefánsson hvort hann vissi eitthvað um djúpfrystitækin, hvort þau væru í lagi og hvort hugsanlega mætti bjóða Nautastöðinni þau til kaups. Páll svaraði því til að þau væru í geymslu á Stuðlum og í fínu lagi. Reikningar afgreiddir og samþykktir samhljóða.
5. Ákvörðun um félagsgjald 2013, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði óbreytt 5.500 kr. auk seðilgjalds. Fundarstjóri Ólafur Þórisson las upp tillögu um félagsgjaldið og hún var samþykkt.
6. Kosningar, kosið um tvo menn í stjórn og þrjá varamenn í stjórn.
Úr stjórn eiga að ganga María Þórarinsdóttir og Birgir Leó Ólafsson. María gefur kost á sér áfram og Birgir Leó gefur kost á sér í varastjórn. Tillaga kom um Maríu og Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur í aðalstjórn. Samþykkt með lófaklappi. Tillaga kom um að kjósa Katrínu Ólínu Sigurðardóttur, Birgir Leó Ólafsson og Eystein Leifsson sem varamenn. Samþykkt með lófaklappi.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði áfram Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.
8. Kosning um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands(5)
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sigríkur Jónsson, Þuríður Einarsdóttir, Sveinn Steinarsson og Bjarni Þorkelsson. Til vara verði, Ólafur Þórisson, Ólafur Einarsson og Hrafnkell Karlsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.
9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda (11).
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti aðal- og varastjórn HS, Helgi Eggertsson, Bjarni Þorkelsson og Anton Páll Níelsson. Til vara, Svanhildur Hall, Gunnar Arnarson, Viðar Steinarsson og Halldór Guðjónsson. Ekki komu fram fleiri tillögur. Tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.
10. Ræðumaður kvöldsins / Heimir Gunnarsson
Heimir byrjaði á því að kynna sig. Hann væri fæddur og uppalinn á Akureyri, hefði menntað sig á Hólum í Hjaltadal og tekið hestafræðina á Hvanneyri. Hann hefði misst af góðærinu á Íslandi því þá hefði hann verið erlendis. Hann væri búinn að vinna víða erlendis t.d. í Þýskalandi, Kanada og Svíþjóð. Hann hefði verið sjö ár í Svíþjóð áður en hann kom til Íslands, til að fara í nám við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri. Hann sagðist hafa ákveðið að vera neikvæður í kvöld því hann hefði misst af góðærinu á Íslandi.
Er hrossarækt arðbær? Framleiðslukostnaður er hár, dýr úrvinnsla (tamning, þjálfun). Óörugg úrvinnsla ef vinnan er aðkeypt og salan ótrygg. Í dag er framboð meira en eftirspurn. Söluvirði skilar sér oft ekki nógu vel til framleiðandans (ræktandans). Milliliðir hirða mikið.Þá vék hann að stóðhestahaldi. Honum fyndist mikið óskipulag á bókunum undir hestana og upplýsingar til hryssueiganda óskýrar. Það væri t.d. ekki hægt að fá upplýsingar um hve margar hryssur yrðu hjá hestinum. Greiðslufyrirkomulag væri óöruggt. Undirritaðir samningar væru ekki til staðar en þeir væru nauðsynlegir bæði fyrir stóðhestseigandann og hryssueigandann. Mjög eðlilegt að báðir aðilar viti hvar ábyrgðin liggur.
Varðandi aðkeyptar tamningar lagði hann ríka áherslu á að heiðarleiki þyrfti að ríkja milli kaupanda og seljanda. Markmiðið með tamningunni þyrfti líka að liggja fyrir, hvað á að mennta hestinn í, hvað hlutverk er hestinum ætlað. Hvað má áætla langan tíma í að ná að uppfylla markmiðin. Ættu Félag hrossabænda og Félag tamningamanna að útbúa slíkan samning sem hægt væri að nálgast á netinu? Hvenær á að greiða fyrir tamninguna? Í byrjun eða lok mánaðar. Undirritaðir samningar væru nauðsynlegir, því báðir aðilar þurfa að hafa eitthvað í höndunum.
Verðlagning hrossa. Hvar liggur kostnaðurinn, ætt, uppeldi, tamning, dýralækniskostnaður, járningar o.fl. Fyrir hvað vill kaupandinn borga, útlit, gangtegundir, geðslag, menntun og í einhverjum tilfellum ætt. Söluferlið, hvað koma margir milliliðir að sölunni, hver borgar þeim? Hvað er eðlileg þóknun fyrir sölu?
Í markaðsstarfsemi fellst að komast að því hver þörfin er fyrir ákveðna vöru eða þjónustu og hvernig hún er uppfyllt. Það þarf að bjóða vöru eða þjónutu sem uppfyllir þessa þörf. Fá neytandann til að kaupa vöruna, ekki bara einu sinni heldur aftur og aftur.
Hvað skiptir máli við rekstur og hver eru lykilatrið velgengni? Heppni, skipulag, fjármagn, sambönd, fagleg hæfni, þörfin fyrir það sem verið er að bjóða. Hrossum fjölgar mikið á árunum 1970 til 1998 en þá fer þeim að fækka (hugsanlega áhrif frá hestapestinni). FEIF er stofnað árið 1969 og íþróttakeppni kemur fram. Hugsanlega hefur þetta tvennt orðið til þess að auka áhuga. Hrossum fjölgar síðan mikið á árunum 2002 til 2011 eða um 6.000, hefur eftirspurn aukist að sama skapi? Til þess að auka eftirspurn hér innanlands þurfum við nýliðun. Það er nauðsynlegt að draga úr framleiðslu til að koma á jafnvægi milli framboðs og eftirspurnar. Til að auka nýliðun þurfum við að búa til þörf með því t.d. að vera með uppákomur sem höfða til allra gerða hestamanna. Þörf fyrir matskerfi til að meta reiðhross er brýn. Kerfið þarf að segja til um eiginleika reiðhestsins og menntunarstig hans. Sumir vilja t.d. alls ekki hest taminn á Íslandi af því þeir hafa lent í því að kaupa illa taminn hest þaðan. Þurfum að gera meira af því að markaðssetja Íslandshestamennskuna ekki íslenska hestinn! Ekki nóg að monta sig af 5 gangtegundum. Eigum að taka upp víðavangskeppni, þrautabrautir eða eitthvað slíkt sem allir geta haft gaman. Verðum að skapa þörfina og vanda tamningu.
Ræktendur annarra hestakynja upplifa einnig lægð í hrossasölu, markaðir eru staðnaðir þar eins og hér á Íslandi. Brýnt að við nýtum tímann núna í vöruþróun og markaðsgreiningu. Hvernig viljum við sjá framtíðin. Ekki spurning að í íslenska hestinum fá menn margt, stökk yfir hindranir, brokk fyrir dressúr og gangtegundir.
Erum við á réttri leið með það dómkerfi sem við höfum í dag á kynbótahrossum? Nauðsynlegt að horfa til framtíðar.
11. Umræður
Ólafur Þórisson þakkaði Heimi fyrir gott erindi. Heilmiklar umræður urðu um erindið og voru menn nokkuð sammála um að ræktendur væru margir hverjir ekki að sinna nógu vel markaðsstarfi. Það væri margt sem menn gætu gert sjálfir. Ingimar Baldvinsson taldi að það þyrfti að koma upp svipuðu kerfi og verið væri með í bílasölu en þar væru allar bílasölur tengdar, þannig það væri hægt að sjá hvað væri til sölu. Sagðist hann hafa nefnt þetta við Jón Baldur hvort ekki mætti koma slíku inn í WorldFeng. Heimir benti á að okkur hætti til að reyna að markaðsetja það sem okkur þætti flott t.d. mikinn hraða sem kannski væri ekki það sem kaupendur hefðu mestan áhuga á. Hann hefði sjálfur tekið þátt í reiðhallarsýningum erlendis sem hefði verið mikill hraði í og áhorfendur hefðu klappað mikið en hann væri ekki viss um að mörgum hefði langað til að fara á bak og prófa hestana. Hann taldi einnig að ef það ætti að vera grundvöllur fyrir sölukerfi eins og Ingimar væri að tala um þyrfti að vera til matskerfi sem hrossin færu í gegnum. Haraldur Þórarinsson frá LH sagðist vera þeirrar skoðunar að við hefðum verið á villigötum í langan tíma. Enginn hefði greint markaðinn, ekki væru til neinar tölur um hverjir væru að nota hestinn. Hvert erum við að rækta hestinn, ekkert gert í núverandi dómkerfi kynbótahrossa til að skoða geðslag, sjónhræðslu o.fl. Sagðist sammála Heimi um að það vantaði kerfi til að kvarða hestinn. Það er komin af stað vinna hjá LH og Landbúnaðarháskólanum á Hvanneyri að útbúa slíkan kvarða fyrir hross. Margir hræddir við svona kerfi því það geti orði til þess að þeir missi af sölu.
12. Önnur mál
Páll Imsland benti á að Íslendingar hefðu enga stefnu í stofnvernd á íslenska hestinum. Stofnin glími við minnkandi erfðabreidd, smitsjúkdóma og ákveðnir litir væru í hættu. Þjóðverjar væru búnir að taka af okkur forystu í stofnvernd en sem upprunaland ættu Íslendingar að hafa forystu í þessum málum. Til er stofnverndarsjóður. Viljum við koma okkur upp stofnvernd. Okkur vantar stóðhesta með ljósa liti sem eru góðir. Nauðsynlegt að skoða markvisst fola með sérstaka liti áður en þeir eru geltir í von um að finna einhverja góða. Höfum ekki enn vindóttan hest sem slær í gegn. Þurfum að gæta að því að missa ekki ákveðin gen út úr stofninum. Kannski þarf að stofna Stofnverndarfélag. Það er stofnvernd að koma í veg fyrir smitsjúkdóma. Hrossaræktarsamtök Suðurlands ættu að standa fyrir umræðum um stofnvernd, skoraði á stjórn HS að koma þessari umræðu af stað.
Hrafnkell Karlsson þakkaði Páli fyrir að koma þessum málum um stofnvernd á hreyfingu. Hrossastofninn er ekki bara okkar heldur einnig komandi kynslóða. Hann skoraði á Pál að hripa niður tillögu til fagráðs um stofnvernd og með henni þurfi að fylgja greinargerð sem Páll og stjórn HS ættu að semja og láta fylgja með tillögunni.
Eftirfarandi tillaga borin undir atkvæði og samþykkt samhljóða:
„Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands, haldinn í Hliðskjálf á Selfossi miðvikudaginn 20. febrúar 2013, skorar á fagráð í hrossarækt að taka til umræðu og úrvinnslu stofnvernd íslenska hestsins.
Nauðsyn er að stofnvernd íslenska hestsins verði markviss og víðtæk og miði m.a. að því að verja hann fyrir innflutningi sjúkdóma, óafturkræfum áhrifum af ræktun og dómum og að koma í veg fyrir minnkun erfðabreiddar eða erfðafjölbreytileika“. Samþykkt að stjórn HS og Páll Imsland semdum greinargerð með þessari tillögu áður en hún yrði send inn til fagráðs.
Ólafur Þórisson þakkaði að lokum fundarmönnum og starfsmönnum fundarins fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 23:30.
/Halla Eygló Sveinsdóttir