Aðalfundur HS 2012

Fundargerð


Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 28. mars 2012 í félagsheimili Hestamannafélagsins Sleipnis, Hliðskjálf.

Dagskrá:


1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
2. Skýrsla stjórnar, formaður HS, Sveinn Steinarsson
3. Ársreikningur, María Þórarinsdóttir
4. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2012, tillaga frá stjórn
6. Kosningar, kosið verður um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn.
7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurl.
9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda.
10. Skipun starfshóps um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum.
Kaffihlé
11.  Markaðsmál í Ameríku, Guðmar Þór Pétursson
12.  Umræður
13.  Önnur mál


1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
Sveinn Steinarsson setti fundinn kl. 20:00. Stakk upp á Helga Eggertssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.


2. Skýrsla stjórnar, Sveinn Steinarsson
Ágætu fundarmenn, velkomnir á aðalfund HS. Frá  síðasta aðalfundi hefur stjórn HS komið saman  7 sinnum og verkefni stjórnar verið breytileg eins og gengur. Yfir hásumarið  fer frekar lítið fyrir okkur en  í byrjun september tökum við kipp.
Að mínu mati héldum við stórgóðan haustfund 19. október með góðum erindum. Guðlaugur Antonsson fór yfir árangur kynbótahrossa  og fjölda sýndra hrossa á árinu  auk ýmissa annarra gagnlegra upplýsinga.   Mette Mannseth  var með frábæran fyrirlestur um sem hún kallaði „ Undirbúningur ungra hrossa fyrir kynbótasýningu“.  Sögulegur fjöldi var á fundinum og greinilegt að  áhugavert fundarefni á hverjum tíma skilar okkur góðri fundarsókn. Okkur hefur lengi langað til að gera haustfundinn veigameiri enda góður tími á haustin til fundahalda. Erfiðara er að ná fólki saman þegar hross eru almennt kominn á hús og viðburðir meðal hestafólks  eru jafnvel margir í viku hverri. Hver veit nema það takist í haust að halda veglegan fund.
Í janúar s.l var árlegt fræðslukvöld þar sem Benedikt Líndal var með erindi sem hann  kallaði „Hvað er reiðmennska“. Í febrúar var haldið byggingadómanámskeið að Skeiðvöllum kennari þar var Þorvaldur Kristjánsson. Báðir þessir viðburðir tókust með ágætum. Á fundinum í kvöld verður Guðmar Þór Pétursson með framsögu þar sem hann segir okkur frá starfi sínum í Bandaríkjunum og verður það án efa fróðlegt og skemmtilegt.
Á síðasta aðalfundi var ákveðið að styrkja sumarexem rannsókn sem verið hefur í gangi undanfarin ár um 6 milljónir. Sigurbjörg Þorsteinsdóttir sem hefur umsjón með þessu verkefni segir það ganga hægt en mjakist þó. Á næsta haustfundi samtakanna mun Sigurbjörg kynna hvað hefur áunnist.
Það varð tilefni til sérstaks fundar hjá okkur í febrúar. Fagráð í hrossarækt ákvað á fundi sínum í desember að breyta sýningarformi kynbótahrossa á komandi landsmóti. Að mínu mati kom í ljós mikilvægi okkar samtaka þegar koma þarf sjónarmiðum og skoðunum hins almenna hrossaræktenda að á hverjum tíma. Það er ekki síður mikilvægt fyrir þá sem eru í forystusveit hrossaræktarstarfsins að geta leitað til grasrótarinnar eftir áliti þegar breytingar eru í vændum. Því verðum við að vera virk, fagleg og tilbúin til samstarfs og samvinnu þegar til okkar er leitað. Stjórn HS ákvað að setja á laggirnar 9 manna starfshóp til að skoða aðkomu kynbótahrossa á landsmótum.  Eins og segir í starfslýsingu hópsins þá er honum uppálagt að horfa til komandi landsmóts og hvernig til tekst. Horfa til síðustu landsmóta og koma með tillögur sem miða að því að gera þátt kynbótahrossa sem áhugaverðastan og glæsilegastan fyrir hesteigendur, knapa, áhorfendur og hrossin sjálf. Þessi starfshópur verður formlega kynntur síðar á fundinum.
Þeir viðburðir sem framundan eru hjá HS eru ungfolasýning þann 7. apríl og Ræktun 2012 þann 28. apríl en eins og fyrr þá hvet ég ykkur til þátttöku í þessum viðburðum til að kynna  og auglýsa  ykkar  ræktunarstarf.


3. Ársreikningur
María Þórarinsdóttir fór yfir reikninga samtakanna.
Niðurstaða reikninga:
Gjöld:      9.017.358 kr.
Tekjur:      4.289.101 kr.
Tap:      4.728.037 kr.


Eignir:  22.361.097 kr.
Skuldir: 16.775 kr.


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Reikningar afgreiddir og samþykktir samhljóða.


5. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2012, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði hækkað um 500 kr, úr 5.000 kr í 5.500 kr. auk seðilgjalds. Fundarstjóri Helgi Eggertsson las upp tillögu um félagsgjaldið og hún var samþykkt.


6. Kosningar, kosið verður um tvo menn í stjórn og þrjá varamenn í stjórn.
Úr stjórn á að ganga Ólafur Einarsson og Sigríkur Jónsson. Ólafur gefur ekki kost á sér áfram en Sigríkur gefur kost á sér. Ólafur Þórisson sem verið hefur í varastjórn er tilbúinn til að gefa kost á sér í stjórn. Tillaga kom um að kjósa Sigrík Jónsson og Ólaf Þórisson í aðalstjórn. Samþykkt með lófaklappi. Tillaga kom um að kjósa Katrínu Ólínu Sigurðardóttur, Þórdísi Erlu Gunnarsdóttur og Eystein Leifsson sem varamenn. Samþykkt með lófaklappi.


7. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


8. Kosning  um aðal- og varafulltrúa á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands (5)
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sigríkur Jónsson, Þuríður Einarsdóttir, Sveinn Steinarsson og Bjarni Þorkelsson. Til vara verði, Ólafur Þórisson, Ólafur Einarsson og Hrafnkell Karlsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


9. Kosning aðal- og varamanna á aðalfund Félags hrossabænda (11)
Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti  aðal- og varastjórn HS, Helgi Eggertsson, Bjarni Þorkelsson og Anton Níelsson. Til vara, Gunnar Arnarson, Viðar Steinarsson, Svanhildur Hall og Gunnar Dungal. Ekki komu fram fleiri tillögur. Tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


10. Skipun starfshóps um aðkomu kynbótahrossa að landsmótum
Tilgangur starfshópsins er að horfa á þátt kynbótahrossa á landsmótum og hvernig gera megi hlutverk þeirra sem glæsilegasta með tillit til þess sem af þeim er krafist. Starfshópnum er uppálagt að horfa til komandi landsmóts og hvernig til tekst, horfa til síðustu landsmóta og auk annarra möguleika sem miða að því að gera þátt kynbótahrossa sem áhugaverðastan og glæsilegastan fyrir hesteigendur, knapa, áhorfendur og hrossin sjálf.
Starfshópur velur sér formann og ritara. Formaður sér um að boða til fundar og sjá til þess að hópurinn skili af sér og geri grein fyrir tillögum sínum á fundi með stjórn í byrjun október 2012. Mikilvægt er að hópurinn komi saman fyrir landsmót og leggi línur varðandi vinnutilhögun hópsins.
Starfshópinn skipa: Pétur Halldórsson, Berglind Ágústsdóttir, Anton Páll Níelsson, Hulda Gústafsdóttir, Þórdís Erla Gunnarsdóttir, Guðmundur Björgvinsson, Olil Amble, Ólafur Hafsteinn Einarsson og Hugrún Jóhannsdóttir.


11. Markaðsmál í Ameríku / Guðmar Þór Pétursson
Guðmar sagði frá því hvers vegna málin hefðu þróast þannig að hann hefði verið meira og minna búsettur í Bandaríkjunum undanfarin 15 ár. Faðir hans hefði aðeins verið að selja hross og þá hefði fljótt komið í ljós að það var ekki nóg að selja hross heldur þurfti að fylgja því eftir með fræðslu. Þegar hann byrjaði þekkti enginn íslenska hestinn en í dag hefur mikið áunnist. Hesturinn hefur fengið kynningu á stórum sýningum og í sjónvarpi. Kynningarbásar á stórum sýningum eru gríðarlega öflugt markaðstæki. Þannig íslenski hesturinn er orðin vel þekktur í hestaheiminum vestan hafs í daga. Í fyrstu voru miklir fordómar í gangi. Hesturinn gæti ekki þolað hitann þar ytra og svona lítill hestur gæti ekki borið fullorðna. Guðmar sagði að þeir hefðu fljótt áttað sig á að það væri lykilatriði að leyfa fólki að koma á bak hestunum. Hann og Hákon bróðir hans hefðu oft dvalið stóran hluta úr árinu þar ytra en alltaf orðið að koma heim á milli, því þeir hefðu ekki haft dvalarleyfi nema í nokkra mánuði í senn. Að lokum sótti Guðmar um græna kortið en það tók 2-3 ár að fá það. Hann fór síðan í Hólaskóla árið 2001 og fékk reiðkennararéttindi. Þar hefði hann áttað sig á því að fræðsla og reiðkennsla væri grundvallaratriði við markaðssetningu á íslenska hestinum.
 Í dag sagðist Guðmar vera með hestamiðstöð í Kentucky og væri þar með um 40 hross. Hann seldi nokkur hross á ári en fyrst og fremst væri hann með reiðkennslu vítt og breytt um Ameríku og að kynna hestinn á þeim sýningum sem væru í boði s.s. Equine affaire. Hann væri búinn að setja upp atvinnusýningahóp sem kannaði sig The Knights of Iceland, í honum væru 5 knapar. Þar hefði langþráður draumur ræst. Þessum hópi hefði verið boðin þátttaka í Apassionata sýningunni sem væri mikill heiður fyrir íslenska hestinn. Þessi sýningarhópur væri nú í fyrsta skipti í Norður-Ameríku. Sýningin yrði á ferðinni í 18 mánuði og yrði sett upp í 66 borgum.
 Guðmar sagði að fræðslu og reiðkennslu þyrfti að auka til muna. Aðeins tveir bandarískir knapar hefðu stundað nám á Hólum í Hjaltadal því tungumálið væri erfitt. Hann væri þeirrar skoðunar að kennsla á Hólum þyrfti að fara fram á ensku. Það væri lykilatriði að fá menntaða reiðkennara sem væru enskumælandi til Ameríku. Nemar sem færu að Hólum myndu sjá um að breiða út boðskapinn þegar þeir kæmu til baka heim. Íslendingar væru hikandi við að setjast að um lengri tíma vestan hafs enda yrðu þeir þá að sækja um græna kortið sem tæki sinn tíma.
 Þjónusta við hestamenn með íslenska hesta hefur aukist gríðarlega. Ástund er að selja mikið af reiðtygjum til Ameríku, framboð á reiðkennslu er meira og í boði eru hestaferðir til Íslands. Markaðurinn í N-Ameríku er gríðarstór og nóg pláss fyrir alla. Í dag eru um 12 lögleg mót. Pétur sagðist halda eitt mót á ári með 3 dómurum og þar mættu um 70 hross.
 Helstu vandamálin við markaðssetning í N-Ameríku eru vegalengdir og það vantar fleira fagfólk sem kann á íslenska hestinn. Samkeppnin við önnur hestakyn er mikil, það er því mikilvægt að góð hross fari út og þau séu vel tamin. Sýningar hérlendis ganga út á hátt spennustig, þannig að of mörg hross eru eyðilögð, sérstaklega ung hross. Hesturinn þarf að vera sáttur og í jafnvægi. Spurning hvort það sé ekki eitthvað sem Íslendingar þurfi að skoða hjá sér. Er verið að rækta spennt hross eða er þetta tamningaatriði? Það er dýrt að flytja hross til Ameríku, þess vegna eru gæðakröfurnar miklar. Kanada er land sem ekki hefur verið sinnt nóg. Þar er efnahagur mikið betri en í Bandaríkjunum og auðveldara að komast þangað. Held að í framtíðinni muni sala aukast og markaður fyrir fræðslu og reiðkennslu er mikill. Grundvallaratriði að auka aðgang að þekkingu. Munum að markaðssetning gengur út á þolinmæði og þrautseigju. Góðir hlutir gerast hægt.


12. Umræður
Inga María Jónínudóttir þakkaði gott erindi og sagðist sérstaklega vilja þakka Guðmari fyrir allt sem hann hefði lagt á sig til að kynna íslenska hestinn vestan hafs.
Guðmar sagðist alltaf hafa haft áhuga á markaðsmálum þannig það hefði hentað vel fyrir sig að fara út á þessa braut.
Kristinn Guðnason þakkaði fyrir gott erindi, sagði að það væri gaman að heyra að sýningar og kynningarbásar á þeim skiptu miklu máli í markaðssetningu. Félag hrossabænda hefði oft verið gagnrýnt fyrir að vera eyða fjármunum í slíkt. Það væri skrítið með Íslendinga að þeir hefðu ákaflega lítinn áhuga á markaðsmálum eins og sjá mætti á mætingu á þennan fund. Er það vegna þess að við erum ekki að framleiða réttu hrossin, er geðslagið ekki í lagi. Eru fimmgangshross vinsælli í Ameríku?
Guðmar sagðist ekki halda að það væri meiri áhugi á fimmgangshestum, það væri hins vegar oft auðveldara að kenna lítið vönum knöpum að láta þá tölta. Geðslag íslenska hestsins er ekki beint vandamál en spennustigið er oft of hátt. 
Kristinn Guðnason þakkaði góðar ábendingar varðandi Hólaskóla. Það væri örugglega rétt að skilvirkast yrði að Ameríkanar markaðssettu hestinn í sínu heimalandi en æskilegt væri að þeir væru menntaðir á Íslandi.
Anton Páll Níelsson þakkaði gott erindi. Margar spurningar vakna eftir að hlusta á svona erindi. Athyglisverðar ábendingar hvað varðar spennustigið. Íslendingar einblína of mikið á orkuna en gleyma mýktinni. Er sumarexem í Ameríku? Fyrir þetta erindi hélt ég að við hefðum ekkert þarna að gera því þetta væri svo stór hestaheimur.  Gott að heyra að markaðurinn er stór.
Guðmar sagði að við værum með einstakan hest. Það er sumarexem í Ameríku en það er ekki sama vandamálið og í Evrópu. Hestarnir hafa miklu meira pláss, eru ekki hafðir í litlum hólfum og þá verður ekki sama magn af flugu. Helst vandamál hjá þeim sem geta ekki sett hestana inn. Það þarf að halda þeim inni við sólarupprás og sólarlag en þá er flugan verst.
Jón Vilmundarson þakkaði fyrir frábært erindi. Hann hefði fyrst farið út að dæma árið 1999 og það hefði mikið breyst síðan. Alveg sammála að það þarf að flytja út fólk með þekkingu.
Bjarni Þorkelsson þakkaði Guðmari fyrir frábært erindi og gott starf í Ameríku. Hann hefði nú eiginlega ekkert vitað um starf hans þarna úti. Hér heima eru margir þeirrar skoðunar að þetta sé óvinnandi vígi. Slæmt að ekki sé nóg af hrossum sem henta á þennan markað. Af hverju er þetta orðið svona hjá okkur. Menn tala niður hross með 7,90 og komast á landsmót! Þetta séu hross sem enginn nenni að horfa á og er þá ekkert tillit tekið til aldurs. Dómarar eru bara hluti af þessu dæmi, hvernig er með brekkuna, eru það vel tamin hross sem allt gera sem menn hrífast af? Nei, það eru spenntu hrossin sem varla láta að stjórn. Þetta er ekki rétt þróun. Guðmar sagðist sammála Bjarna að þessi spennureið væri ekki rétta leiðin. Hann sagðist verða að viðurkenna að stundum í hita leiksins gerði hann hluti sem hann langaði ekki til að gera, t.d. leggja á skeið til að reyna að freista þess að fá smá einkunn fyrir það, þó hann vissi vel að það væri vitleysa. Það eru til vel taminn hross sem eiga að hrífa.
Birgir Leó spurði hvort land væri dýrt í Ameríku og hvort útlendingar mættu kaupa land.
Guðmar sagði að land væri dýrt en það færi þó eftir staðsetningu. Varðandi landkaup yrðu menn að hafa græna kortið. Hann sagðist leigja land.
Páll Imsland spurði hvort það þyrfti ekki að koma upp deild frá Hólaskóla í Ameríku. Hvað þyrfti marga kennara til að starta slíku.
Guðmar sagðist halda að rétt væri að byrja smátt með t.d. 2 kennara og fá svo gestakennara að öðru hverju. Hann þakkaði að lokum kærlega fyrir boðið og sagði að þetta hefði verið mjög gaman þó svo mæting hafi ekki verið mikil.
Helgi Eggertsson og Sveinn Steinarsson þökkuðu Guðmari fyrir gott erindi. Sveinn sagðist vera einn af þeim sem hefði lítið vitað um Ameríkumarkað þannig þetta erindi hefði verið ákaflega fróðlegt fyrir sig.


13. Önnur mál
Kristinn Guðnason þakka HS fyrir stuðninginn við exem-verkefnið. Gengur hægar en við vildum en vonandi er stutt í að hægt verði að lækna veik hross. Byrjað er að bólusetja hross í Sviss en það hefur tafist því erfitt er að fá hross í rannsóknina. Vorum að samþykkja starfshóp sem skoða á aðkomu kynbótahrossa á landsmót. Það væri fróðlegt ef þessi hópur skoðaði einnig kynbótasýningar almennt. Erum við að réttri leið með þær? Erum við að ýta undir og verðlauna fyrir spennureið? Það sem ég er hræddastur um er að freki, óþjáli hesturinn sé að fá sömu einkunn og þægur, góður hestur. Menn segja mig „hringvallasjúkan“ en staðreyndin er sú að við erum sífellt að þrengja brautir til að auðveldara sé að hemja hestana, er það rétt? Þurfum að hafa sýningarformið þannig að við fáum sem mestar upplýsingar um hrossið. Kynbótadómar eru ekki nógu góð leiðbeining fyrir ræktendur. Viljugu og þjálu hrossin þurfa að skera sig úr frá hinum.
Anton Páll Níelsson var jákvæður út í nýskipaðan starfshóp og sagðist halda að það myndi allt liggja undir þegar til kæmi. Nauðsynlegt að velta þessum málum fyrir sér á alla kanta. Varðandi fósturvísaflutninga og sæðingar þurfa hestamenn að taka afstöðu. Viljum við þetta ekki, á að setja reglur eða hafa þetta frjálst. Ótal spurningum þarf að svara. Verðum að horfa til framtíðar. Það er þekkt að svona inngrip getur verið hættulegt og fest í stofni erfðagalla sem allir vilja vera lausir við. Er ekki hægt með rafrænni könnun að komast að því hvað hestamenn vilja í þessu máli. Að lokum, hver er minn ávinningur að því að vera félagsmaður í HS. Þakkaði góðan fund.
Inga María sagði að spennureið á ungum hrossum yrði ekki tekin til baka. Hún væri orðin þeirrar skoðunar að það ætti að hætta dómum á 4ja vetra hrossum. Varðandi sæðingar og fósturvísaflutninga væri hún á móti slíku.
Kristinn Guðnason sagði að það hefði verið rætt um fósturvísaflutninga og sæðingar í fagráði og nú væri verið að endurskoða reglugerðina varðandi þessi mál. Þessi starfsemi er ekki leyfisskyld samkvæmt núverandi reglugerð. Að vera félagsmaður í samtökum eins og HS er  mikilvægt í félagslegu tilliti. Verða það ekki félagar í FH sem ákveða hvort sæðingar verði leyfðar eða ekki. Ávinningurinn er að geta haft áhrif á málefni búgreinarinnar.
Páll Imsland sagði að fósturvísaflutningar og sæðingar ykju hættu á  skyldleikarækt.
Kristinn Guðnason sagði að Elsa Albertsdóttir og Þorvaldur Kristjánsson væru að vinna í verkefni um hvar íslensk hrossarækt væri stödd varðandi skyldleikarækt.
Sveinn Steinarsson sagðist sammála því að það væri mikið álag á ungu hrossin á kynbótasýningunum og það væri eitt af því sem starfshópurinn gæti skoðað. Hvers vegna að vera félagmaður í HS? Þetta er félag sem reynir að vera með uppákomur sem höfða til félagsmanna og beitir sér fyrir hagsmunamálum búgreinarinnar. Hver ætti að sinna þessu hlutverki ef við gerum það ekki sjálf.
Bjarni Þorkelsson þakkaði Sveini fyrir góð svör varðandi félagaðild að HS. Það er hluti af starfi og lífi að taka þátt í félagsmálum. Þetta er okkar tæki til að hafa áhrif og stjórn HS hefur staðið sig mjög vel. Starfshópurinn er mjög góð hugmynd, það hefur alltof lengi legið í láginni að menn láti til sín taka og taki frumkvæði í sínum málum. Sæðingar þurfa að vera leyfisskyldar og það þarf að kanna hug hestamanna til þeirra en það er nokkuð sem HS getur gert. Varðandi það að hætta dómum á 4ja vetra hrossum sagðist Bjarni ekki vera viss um að það væri rétta leiðin, vissulega væri álagið mikið. Það þyrfti að sýna þau öðruvísi og leggja niður yfirlitssýningar, það myndi létta álagið mikið.
Jón Vilmundarson sagði að varðandi sýningar á 4ja vetra hrossum yrði að treysta á dómgreind knapa og eigenda. Það væri þeirra að ákveða hvort þau væru tilbúin til sýningar eða ekki.
Varðandi sæðingar hefðu Hrossaræktarsamtök Suðurlands haft frumkvæði í þeim efnum og aflað mikillar þekkingar með þeim. Sammála því að það þarf að setja reglur um sæðingar og fósturvísaflutninga.
Áfram nokkur umræða um sæðingar og fósturvísaflutninga og greinilegt að menn hafa skiptar skoðanir á þeim málum.
Helgi Eggertsson þakkaði að lokum fundarmönnum og starfsmönnum fundarins fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 23:40.


/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top