Aðalfundur HS 2009

Fundargerð


Aðalfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands haldinn 26. mars 2009 í Þingborg.


Dagskrá:
1. Fundarsetning, skipun starfsmanna fundarins
2. Skýrsla stjórnar, Sveinn Steinarsson
3. Reikningar, Helgi Eggertsson
4. Umræður og afgreiðsla skýrslu stjórnar og reikninga
5. Reikningar afgreiddir
6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2009, tillaga frá stjórn
7. Kosningar, kosið verður um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn í stjórn
8. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
9. Kosning, fulltrúa og varamanna á aðalfund BSSL (6) og aðalfund FH (11)
10. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, flytur erindi
11. Umræður og fyrirspurnir um erindið
12. Tillögur lagðar fram og kynntar
13. Umræður og afgreiðsla tillagna.
14. Önnur mál1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn kl. 20:00. Stakk upp á Hrafnkeli Karlssyni sem fundarstjóra og Höllu Eygló Sveinsdóttur sem fundarritara. Samþykkt.


2. Skýrsla stjórnar
Frá síðasta aðalfundi sem  fór fram hér í Þingborg fyrir um það bil ári síðan hefur mikið verið um að vera í hestamennskunni. Stórviðburðurinn Landsmót  var haldið á Hellu  s.l. sumar með frábærum hestakosti  og geysilegum fjölda gesta og ber það sennilega hæst á meðal margra góðra hestaviðburða á s.l. ári. Þrátt fyrir hálfgert gerningaveður suma landsmótsdagana munum við vafalaust láta góðan hestakost og vinafund sitja eftir í minningunni. 

Stjórn samtakanna  hefur fundað 10 sinnum frá síðasta aðalfundi og fjallað þar um þau ýmsu verkefni  sem að framundan hafa verið hverju sinni. Verkefni stjórnar á s.l. haustdögum var m.a. að skipuleggja vetrardagskrána sem sem hófst með folaldasýningu sem haldin var í Ölfushöllinni og tókst með ágætum. Sigurvegari sýningarinnar var merfolaldið Hvesta frá Þjóðólfshaga 1 undan Grun frá Oddhól og Gnótt frá Skollagróf en eigandi og ræktandi Hvestu er Jón Haukdal Styrmisson.
Haustfundurinn var haldinn hér í Þingborg  og fengum við Hreggvið Þorsteinsson endurskoðanda til þess að greina fundarmönnum frá kostum og göllum á mismunandi eignarhaldi á stóðhestum. Auk þess var Guðlaugur Antonsson með fróðleik  og samantektir eftir viðburðaríkt kynbótasumar.

Samtökin stóðu fyrir námskeiðum í hæfileika- og byggingadómum kynbótahrossa, í febrúar s.l. í Ölfushöllinni, í samstarfi við LbhÍ. Kennarar á námskeiðunum voru þeir Eyþór Einarsson og Jón Vilmundarsson. Góð mæting var á þessi námskeið en samtals mættu 39 aðilar á bæði námskeiðin. Í könnun sem var gerð á meðal nemenda um gæði námskeiðanna var umsögn flestra mjög jákvæð en að sjálfsögðu er alltaf eitthvað sem betur má fara og aðstandendur svona námskeiða geta lært af. Það er ábyggilegt að samstarf  við LbhÍ er mjög jákvætt  fyrir okkar félagsskap og eitthvað sem við þurfum að hlúa vel að og virkja í framtíðinni.

Árleg ungfolasýning  samtakanna er var haldinn í Ölfushöllinni  síðastliðið laugardagskvöld. Aðsókn ræktenda með unga og spennandi fola var prýðileg. Sú nýbreytni var á þessari sýningu að vera með kynbótadómara sem dæmdu folana eftir línulegu mati sem FEIF hefur verið að þróa. Dómarar voru Jón Vilmundarsson og Halla Eygló, gekk vel hjá þeim að dæma folana og  það er ábyggilega gagnlegt fyrir eigendur þeirra að fá  umsögn þessara reyndu dómara með sér heim. Dómarar röðuðu efstu fimm folunum í báðum flokkum en áhorfendur völdu einn fola í hvorum flokki.
Efstu folar hjá dómurum voru Dökkvi frá Bakkakoti í eldri flokknum og Álfasteinn frá Hvolsvelli í yngri flokknum. Áhorfendur völdu einnig Dökkva frá Bakkakoti í eldri flokk en Hrafn frá Bakkakoti í þeim yngri. Því miður var aðsókn áhorfenda á þessa sýningu alltof dræm og reyndar folaldasýninguna líka. Það þarf að leggjast yfir það hvernig sé hægt að laða að fleiri áhorfendur á þessar sýningar okkar. Sýningarnar þurfa að standa fjárhagslega undir sér, auk þess sem kynningargildi fyrir sýnendur minnkar með litlu áhorfi sem aftur veldur því að áhugi á þátttöku í sýningunum minnkar. Allar hugmyndir félagsmanna um þetta efni eru vel þegnar.

Það er af  stóðhesti samtakanna, honum Galsa, að frétta að hann kom suður í byrjun júní í fyrra og var í umsjá  Kristins og Marjolijn. Samanlagt voru 28 hryssur hjá hestinum en hann var í girðingu á Kvistum í  Landsveit. Áætlaðar tekjur sambandsins af seldum tollum undir Galsa eru um það bil 500 þús. fyrir utan vsk.
Galsi er í Syðri Hofdölum eins og síðastliðinn vetur og stefnt er að því að hann komi suður uppúr miðjum júní og verði í löngu gangmáli hér fyrir sunnan.

Á aðalfundi Félags hrossabænda s.l. haust komu fram hugmyndir um að breyta sýningarfyrirkomulagi kynbótahrossa, þ.e.a.s. færa hluta af sýningu kynbótahrossa af beinni braut inn á hringvöll. Á ráðstefnunni Ræktun 2008 voru kynntar hugmyndir um breytingu á vægi einkunna í hæfileikum kynbótahrossa auk þess sem breytingar yrðu á skilyrðum í einkunn fyrir tölt og stökk. Þessar hugmyndir voru svo meðal annars fundarefni á frekar fjölmennum fundi hér í Þingborg 11. mars með þeim Kristni Guðnasyni, formanni Félags hrossabænda og Guðlaugi Antonsyni, hrossaræktarráðunauti BÍ. Lífleg umræða var á þessum fundi og sitt sýndist hverjum eins og jafnan þegar breytingar standa fyrir dyrum. Töluverð umræða hefur farið fram í stjórn HS eftir að þessar hugmyndir komu fyrst fram. Stjórnin ákvað bíða með að kynna fyrir félagsmönnum sýna skoðun varðandi þessar breytingar framyfir fundinn með þeim Kristni og Guðlaugi. Tillögur stjórnar verða lagðar fyrir fundinn til umfjöllunar og afgreiðslu hér á eftir.

Dr. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma, ætlar að vera með erindi hér á eftir þar sem hún fjallar um þá heiftarlegu salmonellusýkingu sem varð í 44 hestastóði í landi Norðurgrafar við Esjurætur í desember á síðasta ári. Það er örugglega gott fyrir alla sem halda hross að heyra meira um þennan atburð og hvort búið sé að finna ástæðu sýkingarinnar og hvernig hinn almenni hestamaður geti  greint svona uppákomu á frumstigi.

Ég ætla rétt í lokin að minna félagsmenn á sýninguna okkar Ræktun 2009 sem verður föstudaginn 24. apríl og hvetja félagsmenn til þátttöku sem sýnendur og eða áhorfendur. Þetta er jú einn af okkar sýningargluggum.


3. Ársreikningur
Helgi Eggertsson fór yfir reikninga samtakanna í fjarveru gjaldkera, Berthu Kvaran.

Niðurstaða reikninga:
Gjöld:   4.082.841 kr
Tekjur:   7.355.076 kr
Hagnaður:  3.272.235 kr


Eignir:            25.082.429 kr
Skuldir:               370.277 kr


4. Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga
Engar umræður.


5. Reikningar afgreiddir
Samþykktir samhljóða.


6. Tekin ákvörðun um félagsgjald 2009, tillaga frá stjórn
Tillaga frá stjórn um að árgjald verði óbreytt 5.000 kr (+seðilgjald). Hrafnkell Karlsson las upp tillögu um félagsgjaldið og hún var samþykkt.


7. Kosningar, kosið verður um tvo menn í aðalstjórn og þrjá varamenn í stjórn
Úr stjórn eiga að ganga Helgi Eggertsson og Ólafur Einarsson. Helgi gefur ekki kost á sér áfram.

Tillaga kom um að kjósa Ólaf Einarsson og Halldór Guðjónsson í aðalstjórn. Samþykkt samhljóða.

Tillaga kom um að kjósa Bjarna Þorkelsson, Maríu Þórarinsdóttur og Birgi Leó Ólafsson sem varamenn. Samþykkt.


8. Kosning tveggja skoðunarmanna og tveggja til vara
Tillaga frá stjórn um að skoðunarmenn verði Guðmundur Gíslason og Sveinn Sigurmundsson og til vara Pétur Ottósson og Sigurbjartur Pálsson. Samþykkt.


9. Kosning fulltrúa og varamanna á aðalfund BSSL (6 ) og aðalfund FH (11).
Tillaga frá stjórn um að á aðalfund BSSL mæti Helgi Eggertsson, Sveinn Steinarsson,  Þuríður Einarsdóttir, Bjarni Þorkelsson, Bertha Kvaran og Hrafnkell Karlsson. Til vara verði, Helgi Kjartansson, Ásmundur Lárusson og Jón Jónsson. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.

Tillaga frá stjórn um fulltrúa á aðalfund FH, þar mæti  aðal- og varastjórn HS, Helgi Eggertsson, Hrafnkell Karlsson og Kári Arnórsson. Til vara, Jón Vilmundarson, Svanhildur Hall, Berglind Ágústsdóttir, Ragnar Lárusson  og Gunnar Dungal. Ekki komu fram fleiri tillögur og tillagan því borin undir atkvæði. Samþykkt.


10. Sigríður Björnsdóttir, dýralæknir hrossasjúkdóma
Sigríður fræddi menn um helstu smitsjúkdóma í hrossum og varnir gegn þeim. Hún lagði mikla áherslu á að Íslendingar stæðu fast á því að algjört bann verði við innfluttningi á hrossum en umræða um þau mál kom fram á síðasta aðalfundi HS en þar hvatti Kári Stefánsson menn til að skoða það að leyfa innflutning hrossa til landsins. Hún taldi það algjört glapræði. Innflutningur á notuðum reiðtygjum væri algjörlega bannaður en sagði að menn hefðu ekki treyst sér til að banna innflutning á notuðum reiðfatnaði. Hins vegar þyrfti að brýna það fyrir ferðamönnum að skilyrðislaust þyrfti hann að vera þveginn í þvottavél (reiðbuxur, úlpur og annað sem þolir þvott) eða þveginn vel í höndum, sótthreinsaður með Virkoni og geymdur í 5 daga áður en komið væri með hann til landsins. Á það síðarnefnda einkum við um reiðskó og -stígvél. Bannað er að flytja til landsins notaða reiðhanska. Hún benti á að hundar gætu verið smitaðir af hestainflúensu og þess vegna yrði að gæta fyllstu varúðar við innflutning á þeim. Farið er fram á sérstakar sýnatökur úr hundunum meðan þeir dvelja í einangrunarstöð.

Hún sagði að viðbragðsáætlanir væru til ef eftirfarandi kæmi upp; óþekktir alvarlegir sjúkdómar, hestainflúensa og kverkeitlabólga. Varðandi fóðureitranir sem oft væru hópsýkingar væri minni hætta á smiti milli dýra en mikilvægt engu að síður að missa ekki smitefnið út í umhverfið.  Helstu sýkingar sem hross geta fengið úr fóðri eru salmonella, hræeitrun og hvanneyriveiki. Jafnvel má telja miltisbrand í þessum flokki en sá sjúkdómur er sem betur fer afar sjaldgjæfur. Fyrstu einkenni salmonellusmits væru hiti, lystarleysi og niðurgangur en þó ber að hafa í huga að stundurm verður ekki vart við niðurgang fyrr en eftir nokkra daga. Varðandi salmonellusýkinguna sem kom upp í desember s.l. í landi Norðurgrafar undir Esjurótum væri uppsprettan enn ókunn. Þar sem strax var talið að um fóðureitrun væri að ræða var ekki talin hætta á faraldri. Formleg viðbragðsáætlun tók því ekki gildi. Alls veiktust 38 hross af 44, þar af drápust 27. Sex hross veiktust ekki og 11 læknuðust. Þetta var mjög skæð ífarandi týpa, Salmonella typhimurium, en hún er í mörgum tilfellum ólæknandi því hún fer í innri líffæri. Hrossin voru því mjög veik og fyrstu viðbrögð eigenda voru að vonum að koma þeim í húsaskjól. Eigendur fluttu hrossin í hesthúsahverfið í Mosfellsbæ og sættu mikilli gagnrýni fyrir það. Þrátt fyrir að hross hefðu verið fyrir í einhverjum húsanna veiktust þau ekki og engin önnur hross í hverfinu. Yfirdýralæknisembættinu er tilkynnt um veikindin daginn eftir að hrossin voru hýst.

Ábyrgð Matvælastofnunar er að hindra útbreiðslu sem var gert með því að loka húsum sem hýstu veik hross og viðhafa miklar hreinlætiskröfur. Hrossin fóru í sóttkví að Víðinesi þegar þau voru orðin hress og eru reglulega tekin sýni úr þeim, 5 hross eru enn að greinast með salmonellu. Sótthreinsun á tækjum og húsum var framkvæmd samkvæmt kröfum Matvælastofnunar og öll hræ voru urðuð á viðurkenndum urðunarstað í Álfsnesi.    Matvælastofnun ber  að veita upplýsingar til hesteigenda og almennings  og hefði sú upplýsingaveita mátt vera öflugri þrátt fyrir ágætis fréttaflutning ljósvakamiðla. Eins og áður hefur verið getið um er uppspretta sýkingarinnar enn ókunn. Rannsókn á orsökum og uppruna sýkingarinnar er í gangi og sameindafræðilegum greiningum er ekki lokið. Til stendur að rannsaka salmonellusýkingar í villtum fuglum á svæðinu. Tjarnir á svæðinu reyndust mjög mengaðar af salmonellu en ekkert fannst í heyi eða síld sem hrossunum var gefin. Örfáir hrafnar voru á svæðinu en ekki annar fugl. Hugsanlegt að frískur smitberi hafi verið í hópnum en það þykir þó með ólíkindum þar sem ekkert nýtt hross kom í hópinn frá því í september. Búið er að semja við landeiganda um að óheimilt verði að nýta landið sem hrossin voru á næstu 2,5 árin. Hinu megin við Esjuna drápust 2 folöld síðast liðið sumar og sömuleiðis kom veikin upp á fuglabúi þar í grendinni, án þess reyndar að talið væri að samhengi væri þar á milli. Það er verið að skoða hvort sami salmonellustofninn hafi komið við sögu í þessum tilfellum og greindist í   hrossunum í Norðurgröf. 

Ábyrgð eiganda er að útvega læknishjálp og annast um skepnurnar. Almennt eiga hesteigendur að hafa í huga að laða ekki villtan fugl að hrossahögum með því að gefa síld og brauð. Nauðsynlegt er að tryggja aðgang að fersku, rennandi vatni. Sigríður fór yfir hvar önnur salmonellutilfelli hafa komið upp og hvað hafi mátt læra af þeim.

Sigríður minntist á aðra smitsjúkdóma eins og stífkrampa, sveppasýkingu, augnvírus og Herpes týpur 2 og 3. Stífkrampi væri tengdur hænsnfuglum og því væri ekki æskilegt að breyta hænsnahúsum í hesthús. Hesteigendur ættu að láta endurtaka bólusetningar á sér á 10 ára fresti því það væri stórvarasamt að fá stífkrampa. Á sveppasýkingar mætti bera Virkon en þær væru hvimleiðar. Herpes týpa 2 veldur hósta hjá hrossum og gengur yfir á nokkrum dögum. Herpes týpa 3 er í raun kynsjúkdómur og má sjá á skaufa á hestum og kynfærum hryssna. Veldur í raun ekki ófrjósemi en stóðhestar vegri sér við að fylja ef þeir eru aumir í skaufanum.

Að lokum, íslenski hesturinn er ein af okkar verðmætustu erfðaauðlindum og standa þarf vörð um heilbrigði og velferð hans. Hrossaræktin og hestamennskan þurfa að þróast á forsendum hestsins og þá mun okkur vel farnast.


11. Umræður um erindið
Helgi Eggertsson spurði hvort það hefði strax verið ljóst eftir krufningu á fyrsta hrossi að um salmonellusmit væri að ræða. Sigríður sagði að svo hefði verið.

Ólafur Ólafsson spurði hvort dýr verði veikari heldur en menn af salmonellusmiti. Sigríður sagði að svo væri ekki endilega en það væri umtalsverður munur á þeirri læknishjálp sem hægt væri að veita og smitmagnið skipti líka máli. Hins vegar væru dýr misnæm fyrir smiti. Fuglar og svín væru með góða mótstöðu gegn salmonellu og gætu því verið frískir smitberar. Hross eru sennilega tiltölulega næm fyrir salmonellu.

Helgi Eggertsson spurði hversu lengi salmonellan gæti lifa. Sigríður sagði að hún lifði í kulda en fjölgaði sér ekki í náttúrunni. Þegar það hlýnar aukast efnaskiptin í þeim og ef þær finna ekki hýsil ganga þær líklega til grunna á einu ári.

Helgi Eggertsson spurði hvort sama gilti um vatn og jarðveg. Sigríður taldi að smit lifði lengur í vatni og þar sem væri raki.

Bergur Pálsson sagðist heilshugar taka undir varnir gegn innflutningi á lifandi dýrum og spurði hvers vegna innflutningur á hundum væri enn leyfður. Hann sagði að salmonella væri enn til staðar í Landeyjunum og þar væri villtur fugl skaðvaldurinn. Hann sagðist vera mjög hissa á því að fugl skuli ekki hafa verið skotinn strax við Esjurætur. Það þyrfti að brýna hesteigendur á því að hafa rennandi vatn hjá hrossunum, drullupollar væru stórhættulegir. Það væri mikilvægt að draga úr æti fyrir villtan fugl og reyna að halda vargfugli niðri með því að drepa hann. Hræ ætti skilyrðislaust að grafa strax.
Sigríður sagði að mikið hefði verið gert í úrbótum varðandi sorpurðun, þannig ástand í fuglum ætti að vera betra nú en áður.

Bjarni Þorkelsson sagði borðleggjandi að smitberinn væri fugl.

Sigríður ítrekaði að í Norðurgröf þar sem hrossin voru hefði ekki borið mikið á fugli enda ekki sá árstími, en fuglinn væri samt líklegasti smitberinn.

Hrafnkell Karlsson spurði að því hvort ekki væri varasamt fyrir hrossabændur að nota búfjáráburð frá alifugla- og svínabúum.

Sigríður sagði að mikið eftirlit væri með slíkum búum og ef ekki hefði greinst salmonella ætti að vera í lagi að nota hann. Það versta við slíkan áburð væri að hann virtist laða að sér villtan fugl.

Kristinn Guðnason spurði hvað hefði fram til þessa varið okkur fyrir smitsjúkdómum eins og hestainflúensunni.

Sigríður sagði það klárlega vera bann við innflutningi á lifandi hrossum.   Hestainflúensan smitaðist yfirleitt á milli hrossa en það hefði að vísu greinst hestainflúensa í hundum. Við ættum að vera nokkuð örugg fyrir hestainflúensunni á meðan ekki eru flutt lifandi dýr til landsins og við viðhöfum þær smitvarnir sem getið var um í upphafi fyrirlestarins.


12. Tillögur lagðar fram og kynntar
Sveinn byrjaði á því að upplýsa fundarmenn um það að tillögurnar fjórar sem bornar verða upp á fundinum hér á eftir hefðu verið sendar inn á fagráðsfund í morgun, til að fagráð hefði tækifæri til að fjalla um þær. Óvíst væri að fagráð fundaði aftur fyrr en í haust. Það hefði verið skýrt tekið fram að þær gætu breyst á aðalfundi samtakanna nú í kvöld. Endanlegar tillögur yrðu sendar fagráði að loknum aðalfundi.

Sveinn kynnti að því búnu tillögur stjórnar:

Á aðalfundi Félags hrossabænda og á ráðstefnunni Ræktun 2008 s.l. haust voru kynntar hugsanlegar breytingar á sýningarformi við hæfileikadóma kynbótahrossa, þ.e.a.s. færa sýningarnar að hluta af beinni braut inn á hringvöll. Einnig voru kynntar breytingar á vægi einkunna í hæfileikadómi þ.e. að lækka vægi viljaeinkunnar en hækka vægi fets og skeiðs. Þá er líka lagt til að einkunnir fyrir hægt tölt og hægt stökk hafi mun meiri áhrif á einkunnir fyrir tölt og stökk.

Formaður fagráðs og Félags hrossabænda Kristinn Guðnason og Guðlaugur Antonsson hrossaræktarráðunautur BÍ hafa nú lokið fundarherferð sinni um landið þar sem þessar breytingar voru meðal annars kynntar. Á fjölmennum fundi sem haldinn var í Þingborg 11. mars var ljóst að menn hefðu ýmsar skoðanir á þessum breytingum sem voru til kynningar.

Að færa kynbótasýninguna að mestu leyti inn á hringvöll er grundvallarbreyting frá núverandi fyrirkomulagi. Til greina mætti koma að gefa mönnum kost á nota hringvöllinn líka ef þeir kjósa það. Gæti það verið ágæt leið til þess að komast að því hvort þetta bætir einhverju við varðandi mat á hæfileikum hestsins.

Það að breyta vægi einkunna kynbótahrossa þarf að gerast að vel athuguðu máli. Taka má undir hugmyndir fagráðs um að hækka vægi fets og skeiðs en þar af leiðir að það þarf að taka vægi af einhverri annarri einkunn í staðinn. Í boðuðum breytingum er rætt um að lækka vægi vilja/geðslags einkunnar sem kannski er sú einkunn sem hefur verið hvað umdeildust gegnum tíðina.

Hér á þessum aðalfundi ætlar stjórn samtakanna að leggja fram tillögur til umræðu og afgreiðslu um fyrirhugaðar breytingar.


Sveinn las upp tillögurnar:


Tillaga 1 til fagráðs um útfærslu kynbótasýninga
„Aðalfundur Hrossaræktarsambands Suðurlands 26. mars 2009 leggur til varðandi fyrirhugaðar breytingar á sýningarfyrirkomulagi kynbótahrossa að áfram verði notast við beina braut sem verður gerð eins hestvæn og hún getur orðið. Lækkaður verður stuðningur meðfram brautinni og hann verði í líkingu við það sem gerist almennt við keppnisbrautir.
Hvað breidd brautarinnar varðar skal hún höfð breiðari en tíðkast hefur uppá síðkastið  t.d. á síðastliðnu Landsmóti, til endanna verði  vel afmarkaðir staðir þar sem snúa skal við. Þetta ætti að gera það að verkum að sú vegalengd sem riðin er verður mun styttri og stuðlar að mun hestvænni sýningu með styttri reið.
Það að menn geti af frjálsum vilja sýnt hluta af sinni sýningu inn á hringvelli getur verið skemmtileg viðbót, sem þó ætti ekki að gera að kvöð.“


Greinargerð:
Ef það yrði gert að kvöð að sýna stóran hluta sýningar kynbótahrossa inn á hringvelli gæti það leitt það af sé eftirfarandi:
• Að hrossin kæmu seinna til kynbótadóms.
• Það gæti stuðlað að frekara forvali  sem gerir það að verkum að færri hross koma til kynbótadóms sem myndi  rýra grunn kynbótamatsins.
• Hrossin þyrfti ef til vill að temja og þjálfa meira með tilheyrandi  auknum kostnaði en hann er nú ærinn fyrir.
• Sú aðstaða sem þjálfun hrossa á hringvelli útheimtir er alls ekki til staðar á öllum tamningastöðum þ.e. hringvöllur og æði kostnaðarsamt að búa hann til.
• Mikil umræða hefur farið fram að undanförnu um áverka hrossa í kynbótasýningum. Ekki er líklegt áverkum fækki við að kynbótasýningar færist að miklu leyti inn á hringvelli.

Núverandi fyrirkomulag kynbótasýninga skapa sýningunum sérstöðu meðal annarra hestaviðburða, þar sem nær allir aðrir viðburðir fara fram á hringvöllum.  Það að heimila frjálsara sýningarform með hringvallarreið í bland getur verið  áhugavert án þess að setja því miklar skorður.

Tillaga 2 til fagráðs um fyrirhugaðar breytingar á vægi einstakra hæfileikaeinkunna kynbótahrossa.


„Aðalfundur Hrossræktarsamtaka Suðurlands 26. mars 2009 leggur til við fagráð að í þeim vægisbreytingum sem kynntar hafa verið, verði vægi á feti ekki hærra en 3% en það er nú 1.5%. Við þá hækkun ætti fetið að fá næga athygli og ástundun og þar með gefa  betri upplýsingar um þá gangtegund hestsins.
Vægi skeiðs sem verið hefur 9% verði 10%. Tryggir það hag alhliðahestsins að nokkru leyti gagnvart þeim breytingum sem kynntar hafa verið.
Vægi vilja og geðslagseinkunnar sem verið hefur 12.5% lækki og verði 10%. „


Greinargerð:
Viljaeinkunn hesta kemur víða fram í öðrum einkunnum í  hæfileikadómnum m.a. fyrir gangtegundirnar auk þess í einkunn fyrir fegurð í reið. Í fyrirhuguðum breytingum er einnig lagt til að auka áhrif einkunnar fyrir hægt tölt og hægt stökk við dóma á tölti og stökki. Breytingin sem kynnt hefur verið er töluverð, en til þessa hefur verið fullnægjandi  að fá 8.5 fyrir hægt tölt til þess að fá hæstu einkunn fyrir tölt og einungis þurfti að sýna hægt stökk til þess að fá hæstu einkunn fyrir stökk. Við þurfum að gæta okkar að ganga ekki of langt í þessum breytingum þó sjálfsagt sé að auka kröfur til hægs tölts og stökks. Það væri mjög gagnlegt að fá umsögn á dómablöðin sem lýstu gæðum hægs tölts og stökks.


Stjórn HS leggur fyrir fundinn tvær tillögur varðandi þær breytingar sem kynntar hafa verið til að auka áhrif hægs tölts og stökks á einkunnir fyrir tölt og stökk.


Tillaga 3, varðandi þröskulda á hægu tölti:
Ef einungis er sýnt hægt tölt er hámarkseinkunn 8,5 (óbreytt)    sama og fagráð
Ef ekki er sýnt  hægt tölt er hámarkseinkunn 7,5 (er nú 8,0)       sama og fagráð
Til að ná 8,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 7,5               sama og fagráð
Til að ná 8,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,0               sama og fagráð
Til að ná 9,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5               sama og fagráð
Til að ná 9,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5                   fagráð 9,0 fyrir hægt tölt
Til að fá 10,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 9,0              sama og fagráð


Tillaga 4, varðandi þröskulda á hægu stökki:
Ef einungis er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 fyrir stökk (óbreytt)   
Ef ekki er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 (er nú 8.5)          sama og fagráð.
Til að ná 8,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 7,5.         fagráð 8,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 8,0.          fagráð 8,5 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst  8,5.         fagráð 9,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 10,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 9,0       sama og fagráð


Sveinn lét þess getið að þetta væru heilmiklar breytingar og því sjálfsagt að skoða málin vel áður en eitthvað yrði ákveðið í þessum efnum. Einkum væru breytingar miklar varðandi þröskuldana á hægu stökki en þar hefði áður aðeins þurft að sýna hægt stökk til að hægt væri að fá hæstu einkunnir fyrir stökk.


13. Umræður og afgreiðsla tillagna
Hrafnkell gaf orðið laust um tillögurnar.

Gunnar Arnarson þakkaði greinagóða skýrslu formanns og gott erindi Sigríðar. Mikilvægt væri að leita allra leiða til að forðast að smitsjúkdómar bærust til landsins. Hann sagðist halda að lítið væri um að menn kæmu með notuð reiðtygi til landsins en hann hefði hins vegar áhyggjur af öllu því ferðafólki sem kæmi til landsins. Matvælastofnun þyrfti að vera vel á verði og miðla upplýsingum til ferðamanna og annarra með stanslausum auglýsingum. Innflutningur lífdýra væri fráleitur en þar þyrftu menn að vera vel á verði. Sagðist sammála tillögum stjórnar, það væri greinilega búið að skoða þau mál vel. Það þyrfti litlu að breyta til að það hefði mikil áhrif. Þakkaði stjórninni fyrir vitrænar lausnir og sagðist vona að fagráð tæki tillit til þeirra.

Guðlaugur Antonsson tók undir þakkir til stjórnar fyrir góðar tillögur en sagðist ekki sjá að í þeim væru miklar breytingar frá því sem fagráð hefði lagt til. Varðandi sýningarfyrirkomulagið þá yrði það prófað í vor á samræmingarnámskeiði kynbótadómara til að kanna flæðið í sýningunum. Ekki væri hægt að hafa þetta alveg frjálst því þá værum við komin með umhverfisþátt sem erfitt væri að taka tillit til. Þannig að fagráð gæti ekki tekið undir tillögu 1 frá stjórn að hafa þetta alveg frjálst. Varðandi það að breikka brautir og afmarka þær betur yrði strax farið í þau mál. Varðandi tillögu 2 myndu þær breytingar koma hátt dæmdum klárhrossum verst. Mjög margir alhliðahestar eru með gott fet. Fagráð er að tala um að hækka vægi á feti í 4% og lækka vægi á vilja og geðslagi í 9%, reyndar rétt að taka það fram að ekki eru allir í fagráðinu sammála þeim breytingum. Á aðalfundi FEIF vildu menn hækka vægi á skeiði í 10%, feti í 4% og lækka vægi á vilja og geðsla í 9%. Í tillögu 3 er fagráð tilbúið til að fallast á tillögu stjórnar varðandi hægt tölt: „ Til að ná 9,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5“. Fagráð hafði áður lagt til að til að fá 9,5 fyrir tölt þyrfti hægt tölt að vera upp á 9,0.  Varðandi tillögu 4 er fagráð tilbúið að fallast á eftirfarandi „Til að ná 9,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst  8,5. Varðandi hina þröskuldina á hægu stökki finnst fagráði ekki vera hægt að fallast á, það séu ekki miklar kröfur að hestur þurfi að ná 7,5 fyrir hægt stökk til að geta fengið 8,5 fyrir stökk eins og stjórn HS leggur til.

Halla Eygló Sveinsdóttir sagðist hafa skoðað það hve mörg 4 og 5 vetra hross hefðu verið að fá 9,0 eða hærra fyrir stökk s.l. sumar. Fimm vetra hrossin hefðu verið 13, þar af 11 þeirra með 5 fyrir skeið, 1 með 6 og 1 með 7,5 fyrir skeið. Fjögurra vetra hrossin hefðu verið 3, þar af eitt með skeiðeinkunn upp á 5,5. Trúlega væri því erfitt fyrir alhliða hross að fá háa einkunn fyrir hægt stökk. Hvers vegna vill fagráð leggja þetta mikla áherslu á hægt stökk. Er víst að það erfist svo mjög? Megum ekki gleyma því að um helmingur þeirra hrossa sem koma í kynbótadóm eru 4 og 5 vetra og því tæpast hægt að gera kröfu um að þau séu komin með fullt jafnvægi á hægu gangtegundunum. Ekki er raunhæft að gera sömu kröfur um gæði hægu gangtegundanna og hjá þrautþjálfuðum gæðingum í íþrótta- og gæðingakeppni.

Bjarni Þorkelsson sagði að það hefði verið bókað í fagráði í dag að ekki yrði lögð eins mikil áhersla á þrítakta stökk í dómum á hægu stökki.

Sveinn Steinarsson sagði að Guðlaugur gerði lítið úr því að þessar vægisbreytingar sem væru boðaðar hefðu mikil áhrif. Hann sagðist ekki vera á sama máli, því til stuðnings benti hann á að á LM 2009 hefðu 19 hryssur og 16 stóðhestar lækkað í einkunn fyrir tölt ef boðaðar breytingar hefðu verið í gildi. Varðandi stökkið hefðu 13 stóðhestar og 9 hryssur lækkað fyrir stökk. Hann benti á að hvort ekki hefði verið einfaldari leið að markmiðinu að gefa umsögn um hægt tölt og stökk. Það gæfi allavega ræktendum heilmiklar upplýsingar.

Guðlaugur Antonsson sagði það alveg klárt að einkunn fyrir fet muni hækka um leið og vægi á því verði hækkað.

Óli Pétur Gunnarsson spurði hvort það væri tímabært að leggja fram tillögu 1 varðandi sýningarfyrirkomulagið því það ætti eftir að prófa það.

Bjarni Þorkelsson og Helgi Eggertsson svöruðu því til að það væri ekkert að því að leggja hana fyrir fundinn.

Kristinn Guðnason spurði fundarmenn að því hvort ekki væri verið að búa til óþarfa skekkju ef engin höft væru í sambandi við sýningarfyrirkomulagið á hringvelli. Fagráð hefði í hyggju að gera prófun á þessu fyrirkomulagi á samráðsfundi kynbótadómara og síðan væri hugmynd að vera með litla sýningu (25 hross) á Gaddstaðaflötum til að prófa þetta. Verðum að hafa einhver mörk en auðvitað kemur þetta fyrirkomulag til með að henta misjafnlega hverri hestgerð.

Ólafur Ólafsson spurði hvort meiningin væri að það þyrfti að sýna allar gangtegundir á hringunum eða hvort það væri frjálst.

Kristinn Guðnason sagði að þess þyrfti ekki.

Hrafnkell Karlsson sagði að gera þyrfti ráð fyrir breytingum þegar búið væri að prófa þetta fyrirkomulag. Að því búnu bar hann tillögurnar upp:


Tillaga 1 til fagráðs um útfærslu kynbótasýninga
„Aðalfundur Hrossaræktarsambands Suðurlands 26. mars 2009 leggur til varðandi fyrirhugaðar breytingar á sýningarfyrirkomulagi kynbótahrossa að áfram verði notast við beina braut sem verður gerð eins hestvæn og hún getur orðið. Lækkaður verður stuðningur meðfram brautinni og hann verði í líkingu við það sem gerist almennt við keppnisbrautir.
Hvað breidd brautarinnar varðar skal hún höfð breiðari en tíðkast hefur uppá síðkastið  t.d. á síðastliðnu Landsmóti, til endanna verði  vel afmarkaðir staðir þar sem snúa skal við. Þetta ætti að gera það að verkum að sú vegalengd sem riðin er verður mun styttri og stuðlar að mun hestvænni sýningu með styttri reið.
Það að menn geti af frjálsum vilja sýnt hluta af sinni sýningu inn á hringvelli getur verið skemmtileg viðbót, sem þó ætti ekki að gera að kvöð.“
Samþykkt samhljóða.


Tillaga 2 til fagráðs um fyrirhugaðar breytingar á vægi einstakra hæfileikaeinkunna kynbótahrossa.
„Aðalfundur Hrossræktarsamtaka Suðurlands 26. mars 2009 leggur til við fagráð að í þeim vægisbreytingum sem kynntar hafa verið, verði vægi á feti ekki hærra en 3% en það er nú 1.5%. Við þá hækkun ætti fetið að fá næga athygli og ástundun og þar með gefa  betri upplýsingar um þá gangtegund hestsins.
Vægi skeiðs sem verið hefur 9% verði 10%. Tryggir það hag alhliðahestsins að nokkru leiti gagnvart þeim breytingum sem kynntar hafa verið.
Vægi vilja og geðslagseinkunnar sem verið hefur 12.5% lækki og verði 10%. „
 Samþykkt samhljóða.


Tillaga 3, varðandi þröskulda á hægu tölti:
Ef einungis er sýnt hægt tölt er hámarkseinkunn 8,5 (óbreytt)    sama og fagráð
Ef ekki er sýnt  hægt tölt er hámarkseinkunn 7,5 (er nú 8,0)       sama og fagráð
Til að ná 8,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 7,5               sama og fagráð
Til að ná 8,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,0               sama og fagráð
Til að ná 9,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5               sama og fagráð
Til að ná 9,5 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 8,5                   fagráð 9,0 fyrir hægt tölt
Til að fá 10,0 fyrir tölt þarf hægt tölt að vera minnst 9,0              sama og fagráð
 Samþykkt samhljóða.


Tillaga 4, varðandi þröskulda á hægu stökki:
Ef einungis er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 fyrir stökk (óbreytt)   
Ef ekki er sýnt hægt stökk er hámarkseinkunn 8,0 (er nú 8.5)           sama og fagráð.
Til að ná 8,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 7,5.          fagráð 8,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 8,0.          fagráð 8,5 fyrir hægt stökk
Til að ná 9,5 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst  8,5.         fagráð 9,0 fyrir hægt stökk
Til að ná 10,0 fyrir stökk þarf hægt stökk að vera minnst 9,0   sama og fagráð
 Samþykkt samhljóða


14. Önnur mál
Helgi Eggertsson sagðist vera búinn að sitja í stjórn HS í tæp 20 ár. Hann þakkaði stjórnarmönnum, formönnum og félagsmönnum öllum fyrir samstarfið á liðnum árum.

Sveinn Steinarsson bauð nýja aðal- og varamenn velkomna. Þakkaði Helga sérstaklega fyrir vel unnin störf og að hafa leitt sig áfram þetta fyrsta ár sem formaður.

Kristinn Guðnason þakkaði Helga fyrir vel unnin störf á liðnum árum. Hann vildi einnig koma því á framfæri að nú væri breytt staða varðandi förgun hrossa. Ekki væru neinir biðlistar hjá SS lengur og verðið hefði  hækkað í 90 kr/kg.

Guðlaugur Antonsson fór yfir þau mál sem voru rædd í fagráði í morgun. Stóðhestar  hafa verið eistnaskoðaðir á kynbótasýningum á undan förnum árum. Þeir sem hafa fengið athugsemdir hafa verið merktir með rauðu T í Worldfengnum. Síðast liðið ár komu þrír eineistingar til dóms og höfðu hvorki eigendur né knapar haft hugmynd um það. Þannig  þessar skoðanir hefðu sannað sig. Vegna ábendinga frá mælingamönnum hefur fagráð ákveðið að þá stóðhesta sem mælingarmenn treysta sér ekki til að skoða verði framvegis að koma með vottorð frá dýralækni um að eistu og eistnalyppur séu í lagi. Þarna hefur verið smá gat í kerfinu því þessir örfáu hestar hafa hingað til sloppið í gegn óskoðaðir en með þessari breytingu er búið að girða fyrir það.
Áverkar sem hross hljóta á kynbótasýningum verða framvegis skráðir í WF. Reynt verður að minnka hávaða við kynbótabrautir, þær verða breikkaðar og grindverk lækkuð. Dómar á skeiði verða skerptir og horft til þess að niðurhægingar séu skikkanlegar. Einhver brögð hafa verið á því að hestar sem hafa fengið áverkaskráningu 2 hafa mætt á yfirlitssýningu það er náttúrulega alveg fráleitt og verður framvegis ekki leyft.
Frostmerki fara út sem einstaklingsmerking og framvegis verða það bara örmerki sem gilda sem einstaklingsmerkingar. Búsmerkin geta ræktendur enn notað en menn þurfa að tryggja að þau séu skráð í markaskrá. Annars hafa menn enga tryggingu fyrir því að það séu ekki fleiri að nota sama merkið.

Hrafnkell Karlsson sagði að hestamenn þyrftu svo sannarlega að vera vel á verði varðandi smitsjúkdóma. Þakkaði stjórninni fyrir vel undirbúnar tillögur og sagðist vona að fagráð tæki tillit til þess sem fram kæmi í þeim. Að lokum þakkaði hann Helga fyrir vel unnin störf og sagði það sína reynslu að það væru allir vel settir að eiga Helga að vini.
Hrafnkell Karlsson þakkaði fundarmönnum fyrir góðan fund og sagði fundi slitið kl. 23:30.


/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top