Aðalfundur FKS 28. janúar 2015

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn í Árhúsum, Hellu 28. janúar 2015

Valdimar Guðjónsson, formaður, setti fundinn kl. 12.00. Hann hóf fundinn á að tilnefna Jórunni Svavarsdóttur sem fundarstjóra og Jónu Þórunni Ragnarsdóttur sem fundarritara.
Fundarstjóri kynnti dagskránna og bauð formann velkominn í pontu að nýju til að flytja skýrslu sína.

Skýrsla formanns
Góðir félagar og gestir. Ég býð ykkur velkomin hér til aðalfundar Félags kúabænda á Suðurlandi 2015.
Í upphafi fundar vil ég minnast Þóris Jónssonar frá Selalæk en hann lést þann 5. janúar sl. Þórir var formaður félagsins um 4 ára skeið uns hann lét af formennsku vegna veikinda sinna. Hann var mikill bóndi í bestu merkingu og réttsýnn í félagsmálum fyrir sunnlenska bændur. Þeim gaf hann krafta sína og dýrmætan tíma á síðustu árum. Slíkt gerði hann fús. Það er happ okkar. Ég vil biðja ykkur að heiðra minningu hans með því að rísa úr sætum.
Hér sunnanlands voraði vel og snemma, en í fyrsta sinn í langan tíma bar aðeins á kali í túnum, aðallega í Flóanum og hluta Rangárvallasýslu. Það rýrði uppskeru í fyrsta slætti, en síðan sá stöðug úrkoma og þokkaleg hlýindi um uppskeruna eftir það. Segja má í stystu máli að rignt hafi mestallan júlí og siðan í september nánast samfellt. Hey eru misjöfn að gæðum vegna þessa. Kornuppskera var einnig nokkuð misjöfn á svæðinu aðallega vegna úrkomu og sólarleysis. Einnig skiptir jarðvegsgerðin máli í tíðarfari sem þessu.
Starf félagsins
Félagsráð kom saman til funda alls 4 sinnum á síðasta ári. Einnig var fjöldi símafunda hjá stjórn auk samskipta í gegnum tölvupóst líkt og gerist í dag. Við héldum opinn fræðslufund þann 17. nóvember sl í sal MS á Selfossi. Fengum við þar starfsmenn frá RML til að flytja fróðleik. Hafa allir þessir fundir verið mjög vel sóttir af bændum sem er hvetjandi fyrir okkur sem erum í forsvari.
Kosning og talning atkvæða í Félagsráð og á aðalfund LK er nokkuð tímafrek hér hjá okkur á þessum fundi. Á síðasta aðalfundi var samþykkt tillaga um að kanna möguleika á rafrænni kosningu. Eftir að hafa kynnt mér málið virðist tæknileg framkvæmd þess ekki alveg nógu þroskuð ennþá. Það er enn of dýrt fyrir félag sem þetta að kaupa þessa þjónustu þó slíkt sé mögulegt. Hver veit hver framtíðin verður og vafalaust gætu hugmyndaríkir forritarar búið til „appi“ snjallsímana. Þeir sem hafa svoleiðis græju í vasanum síðan kosið í gegnum símann inn á læstu svæði og úrslit ljós um hæl. Við hinir örfáu, með gömlu símana síðan kosið á gamla mátann, eða í tölvum á staðnum. Enn erum við þó ekki komin svo langt.
Framleiðslan: Mjólk og nautakjöt
Það er ekki ofsögum sagt að við sem stundum mjólkurframleiðslu og nautaeldi höfum aldrei lifað tíma sem þessa. Enn eykst salan og greiðslumark þessa árs er 140 milljón lítrar. Meira en nokkru sinni. Greitt er fullt afurðastöðvaverð fyrir umframmjólk. Bændur hafa svarað kallinu um aukna mjólk ótrúlega vel má fullyrða. Það er rætt um í tengslum við kjarasamninga að til að bæta kjörin þurfi aukna framleiðni á Íslandi. Við sem erum í mjólkurframleiðslunni ljúgum engu þegar við segjumst hafa staðið við okkar í þeim efnum. Einfalt dæmi. Það ekkert stórt né einstakt. Ég bý í hverfi þriggja samliggjandi bæja í þéttbýlu hverfi. Þar eru framleiddir í dag um milljón lítrar af mjólk, en fyrir 25 – 30 árum voru þeir um 270 þús ca. Ekki höfum við því miður fengið þetta allt í vasann kúabændur. Vildi að svo væri. En hagræðing hefur átt sér stað alla leið í maga. Neytendur hafa í dag ódýra vöru sem stenst í verði allan samanburð við nágrannalöndin.Staðan nákvæmlega í dag er hinsvegar snúin. Verðlagsnefnd búvöru hefur ekki starfað frá miðju síðasta ári svo ég viti. MS er því í klemmu og nálgast tvö árin siðan nokkur hækkun varanna hefur átt sér stað. Hagræðing í vinnslunni hefur einhver endamörk á svona litlum markaði.
Það eru óvissutímar framundan í mörgum skilningi. Má nefna þar búvörusamning sem tikkar út, tollamál og fleira. En við sem höfum reynslu af þessu öllu vitum að það er ekkert nýtt.
Hjá okkur bændum bjargar lág verðbólga, heldur lægra kjarnfóðurverð og lágt olíuverð stöðunni í augnablikinu. En hvort olíuverð verður áfram lægra á jarðvinnslu og uppskerutíma þessa árs getur engin spáð um. Það skiptir máli. En ekki gengur til lengdar að meirihluti verðlagsnefndar sé nánast á flótta frá tilvist hennar. Allt út af hræðslu við fjölmiðlaumfjöllun.
Innflutningur nautakjöts á síðasta ári var kringum 1000 tonn. Heyrt hef ég misjafnar sögur frá neytendum um gæði þessa innflutta kjöts. Eins hafa upprunamerkingar verið mjög á reiki í sumum tilfellum. Allt er þetta okkar framleiðslu í hag. En álagning verslunarinnar er í sumum kjöttegundum tvöföld á við íslensku vöruna. Þarf því enginn að vera hissa á hve kaupmenn sækja á um enn meiri innflutning. Á tímabili þegar komu aðeins biðlistar eftir slátrun nú í vetur hafði maður áhyggjur að sama væri að gerast og svínakjötinu, þe. að magn innflutts kjöts í búðum væri farið að ryðja því íslenska út. Sennilega er ekki svo í stórum mæli ennþá, en athygli vekur að verðhækkanir frá sláturleyfishöfum til bænda hafa litlar verið síðan innflutningur jókst í magni.
Við höfum haft opinn póstlista til miðlunar á nautgripum nú á annað ár. Hefur það virkað nokkuð vel og margir boðið gripi.
Ég vil að lokum þakka öllum fyrir samstarfið á síðasta ári, sérstaklega þeim sem hætta nú í Félagsráðinu eftir margra ára störf fyrir félagið. Takk fyrir.

Kosningar
Formannskosning
Að lokinni skýrslu formanns kom fundarstjóri í pontu að nýju og kynnti kosningar til formanns. Formaður var kjörinn í leynilegri kosningu. Niðurstöður voru eftirfarandi:
Valdimar Guðjónsson: 56 atkvæði.
Aðrir fengu færri atkvæði. Valdimar Guðjónsson, Gaulverjabæ, telst því réttkjörinn formaður FKS.
Félagsráðskosningar
Kosið var um helming félagsráðs. Kjörnefnd hafði útbúið kjörseðil með 12 tillögum og var honum dreift til félagsmanna, en allir félagsmenn eru í kjöri. Félagsmenn voru hvattir til að bjóða sig fram. 9 efstu menn verða aðalmenn en 3 næstu verða varamenn.
Niðurstaða kosninga í félagsráð:
Ásmundur Lárusson, Norðurgarði; 57 atkv. (1)
Arnfríður S. Jóhannesdóttir, Herjólfsstöðum; 54 atkv. (2)
Reynir Þór Jónsson, Hurðarbaki; 53 atkv. (3)
Borghildur Kristinsdóttir, Skarði; 51 atkv. (4)
Sigríður Jónsdóttir, Fossi; 49 atkv. (5)
Ingi Már Björnsson, Suður-Fossi; 46 atkv. (6)
Berglind Bjarnadóttir, Hrútafelli; 45 atkv. (7)
Jón Vilmundarson, Skeiðháholti; 44 atkv. (8)
Karel Geir Sverrisson, Seli; 42 atkv. (9)
Georg Kjartansson, Ólafsvöllum, (1. varamaður)
Einar Magnússon, Oddgeirshólum, (2. varamaður)
Guðni Ragnarsson, Guðnastöðum, (3. varamaður)
Auðir og ógildir seðlar; 4.
Kosning á aðalfund BSSL og skoðunarmenn FKS
Leitað til fundarins um að beina kosning á aðalfund BSSL til félagsráðs. Samþykkt samhljóða. Eins vantar 2 skoðunarmenn reikninga og 2 til vara. María, Geirakoti og Einar, Urriðafossi, kjörin að nýju með lófataki. Varamenn eru Daníel, Akbraut og Rútur, Skíðbakka en Rútur gefur ekki kost á sér áfram. Óskað eftir tilnefningu fyrir nýjan skoðunarmann. Stungið upp á Ásgeiri í Stóru-Mörk, samþykkt með lófataki.
Skv. lögum félagsins þarf að ákveða upphæð árgjalds. „Aðalfundur FKS haldinn á Árhúsum Hellu 28. janúar 2015 samþykkur að árgjald verði miðað við útgefið lágmarksverð til bænda með greiðslumark í afurðastöð. Jafngildi 50 lítra mjólkur. Laun formanns verði árlega miðuð við janfgildi 2.500 lítra mjólkur. Laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við lágmarksverð 1.250 lítra mjólkur. Greitt fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta per kílómeter.“ Samþykkt samhljóða.
Kosning 9 fulltrúa á aðalfund LK og 9 til vara
Kosning fer þannig fram að allir félagsmenn eru í kjöri, 12 efstu menn að atkvæðum hljóta síðan kjör sem aðalmenn en 12 næstu varamenn.
Valdimar Guðjónsson, 64 atkv.
Samúel Unnsteinn Eyjólfsson, 53 atkv.
Ásmundur Lárusson, 45 atkv.
Pétur B. Guðmundsson, 45 atkv.
Jórunn Svavarsdóttir, 45 atkv.
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, 44 atkv.
Elín Heiða Valsdóttir, 44 atkv.
Bóel Anna Þórisdóttir, 39 atkv.
Jóhann Nikulásson, 34 atkv.
Varamenn:
1. varamaður: Borghildur Kristinsdóttir, 29 atkv.
2: varamaður: Sigríður Jónsdóttir, 18 atkv.
3. varamaður: Sævar Einarsson, 18 atkv.
4. varamaður: Ólafur Helgason, 13 atkv.
5. varamaður: Ragnar Finnur Sigurðsson, 11 atkv.
6. varamaður:Jón Viðar Finnsson, 11 atkv.
7. varamaður: Reynir Þór Jónsson, 9 atkv.
8. varamaður: Ómar Helgason, 8 atkv.
9. varamaður: Ágúst Sæmundsson, 7 atkv.

Reikningar
Elín Bjarnveig Sveinsdóttir, gjaldkeri, kynnti reikninga félagsins 2014. Hún nefndi það að helmings lækkun væri á styrk frá Landssambandi kúabænda frá fyrra ári. Tap ársins var því 130 þúsund krónur. Eitthvað er um ógreidd félagsgjöld. Fjárhagsstaða félagsins var hinsvegar góð um áramót.
Fundarstjóri gaf orðið laust ef fundarmenn hefðu spurningar varðandi reikningana. Engar spurningar varðandi þá, því var gengið til atkvæða um reikningana. Þeir voru samþykktir samhljóða.
Kynslóðaskipti – Runólfur Sigursveinsson, RML
Runólfur Sigursveinsson, RML, fjallaði um kynslóðaskipti og ólíkar leiðir þegar kemur að þeim málum. Til dæmis er hægt að hefja búskap sem leiguliði til einhverra ára. Þannig fær fyrri bóndi afleysingu og nýr bóndi reynslutíma varðandi starfsvið. Hins vegar sé óöryggi varðandi eignarhald til langframa, einnig ef margir einstaklingar eru í seinni kynslóð. Ákvarðanataka varðandi stærri mál geta dregist eða verið erfið (t.d. umfram eðlilegt viðhald véla og tækja). Kaupleiga er annað form yfirtöku; leigutaki vinnur sig inn í rekstur og eignarhald. Með þeirri leið þarf að hugsa vel um skattamál beggja aðila. Krefst yfirlegu í upphafi svo báðir aðilar verði ekki fyrir óvæntum uppákomum varðandi skattaþætti. Bein kaup og sala; bein skipti. Rekstur þarf að standa undir áhvílandi lánum eða nýjum lánum. Þegar kynslóðaskipti verða milli óskyldra aðila er meira um að eignir séu teknar upp í. Ýmsar leiðir færar, en það þarf að undirbúa málin mjög vel. Kynslóðaskipti þurfa að mótast af því hvað eldri kynslóð vill; gera það í tíma (tekur jafnvel 1-2-3 ár í undirbúningi). Verra að takast á við þetta þegar eldri kynslóð nálgast lífeyristökualdur, sérstaklega varðandi skerðingaþætti lífeyris. Ólík rekstrarform eru mismunandi og þeim fjölgar frekar sem stofna fyrirtæki um reksturinn, en hingað til hefur einstaklingsrekstur verið ráðandi. Þá þarf að skoða vel skattlagningu þegar rekstrarform er valið. Fjárbinding í kúabúskap er mikil en veltan hæg. Það þarf því að skoða fjármögnun greinarinnar frá grunni. Í Danmörku búa bændur við allt annað umhverfi í fjármögnum. Þar eru dæmi um fasteignalán á 2% vöxtum. Einnig séu lán á land og framleiðslu með allt öðrum og skaplegri hætti en hér á landi. Ef hægt væri að lækka fjármagnskostnað (vaxtakostnað) um 30-40% myndi greinin þola 8-10 kr lækkun á mjólkurverði.

Þá fjallaði Runólfur um „Búsetu í sveit“, sem er verkefni hjá RML vegna ættliðaskipta. Með því er hægt að afla sér fróðleiks um hvernig megi koma sér á stað í búskap, varðandi kaup á almennum markaði, ættliðaskipti, sem og að þróa upp starfsemi í dreifbýli. Nú þegar sé búið að hanna og gefa út bæklinga og vegvísa um nautgriparækt, sauðfjárrækt og ættliðaskipti.

Fundarstjóri opnaði fyrir spurningar og umræður.
Hrafnhildur, Litla-Ármóti: Hefur verið haldið í eftirfylgni til þeirra sem hafa fengið ráðgjöf varðandi kynslóðaskipti?
Runólfur: Aðeins hefur það verið gert, en mætti vera meira um það til að fá punkta frá fólki eftir að kynslóðaskiptum er lokið. Þarf að ræða vel innan fjölskyldu svo kynslóðaskipti fari fram í sátt. Hvernig ætlar eldri kynslóð að útfæra gagnvart öðrum börnum?
Sævar, Stíflu ræddi það að það þurfi að greiða tekjuskatt af bilinu sem myndast milli bókfærðs verðs og söluverðs egina. Hann velti því fyrir sér hvort upphafverð jarðar kæmi til frádráttar?
Runólfur sagðist ekki geta svarað því til loka, en að það kæmi ekki til frádráttar. Dæmin séu hins vegar jafn margbreytileg og þau eru mörg. Sum dæmi ganga illa saman í núgildandi skattalöggjöf, kynslóðaskipti séu jafnvel ekki möguleg. Það þurfi að skoða einstök mál betur, en þau geta sum hver orðið mjög erfið. Tók dæmi um einstakling sem vildi komast inn í búrekstur, þó svo eldri kynslóð væri ekki komin að lokum búskapar, þá þarf að passa að missa ekki frá sér áhugasama einstaklinga sem vilja taka við.
Elín, Egilsstaðakoti: Hvernig er kaupleiga varðandi skattamálum? Koma skattar þá yfir lengra tímabil? Hvernig er með veð ef staðið er í framkvæmdum?
Runólfur: Eignarhaldið er hjá þeim sem eru að fara úr búskapnum, varðandi veð. Varðandi skattamálin þá er grunnhugsun sú að það eru meiri möguleikar að dreifa skattbyrgði. Spurning hvernig það kemur við yngri kynslóðina.

Leiðir til fjármögnunar, framkvæmda og ættliðaskipta – Haukur Ómarsson og Magnús Gunnarsson, Landsbanka
Landbúnaður er eins og annar fyrirtækjarekstur, það séu allskonar rekstrarform. Undanfarið hefur Landsbankinn boðið rekstrarfjármögnun til 12 mánaða og fjárfestingalán til allt að 30 ára, kvótakaupalán til allt að 15 ára, íbúðalán til heimilis til 40 ára (eðlilegt sé að bændur fái lán til þess, einhversstaðar þurfa þeir að búa), eins fái bændur bíla- og tækjafjármögnun. Kjörin skipta miklu máli, þyrftu að vera lægri, en umhverfið er þannig undanfarið að vextir eru háir. Nú sé samkeppni á lánamörkuðum, óverðtryggðir vextir lækka eftir því sem stýrivextir lækka. Bændur hafa notið bestu kjara á markaðnum hverju sinni, en engin tvö mál eins, en sambærileg mál eiga að njóta sambærilegra kjara. Nú er horft á rekstur og greiðslugetu búa til að standa undir lánum. Það sé bændum enginn greiði gerður með því að lána lán sem enginn getur borgað til baka. Það verði einnig að vera algert neyðarúrræði að taka veð í eignum viðkomandi bús. Hins vegar er ekki farið fram yfir 6-7 sinnum EBIDTA bús þegar lán eru veitt. Skuldsetning sem er meira en 7 sinnum EBIDTA getur leitt af sér fjárhagsvandræði. Sumir geta ráðið við meiri skuldsetningu, jafnvel tímabundið, en það kemur niður á viðhaldi og nauðsynlegri fjárfestingu. Þannig geti búið lent undir í samkeppni o.fl. Bændur og lánastofnanir verða að hafa trú á núverandi staða sé tímabundin og eitthvað betra sé í vændum. Hvað veðsetningu varðar þá er ekki lánað umfram 70% af heildar verðmæti jarðar. Til að fá lán þarf að leggja fram ýmis göng; skattframtal 3-5 ára, búrekstraráætlun 2-5 ára (hægt að RML eða sambærilega aðila til að útbúa slíkt), gögn um heildarskuldir búsins, ástand bygginga, jarðnæði og fleira. Bændur þurfa að standa fyrir nauðsynlegum endurbótum, það sé ekki hægt að halda áfram rekstri ef ekki er komið á móts við framfarir og t.d. nýjar reglugerðir. Varðandi nýbyggingar séu öll tækifæri í því skoðuð. Margir bændur hyggja á fjárfestingar; jafnvel mjög miklar, og þá sé mikilvægt að skoða hverju fjárfestingin mun skila. Slík fjárfesting þurfi að skila miklum framlegðarauka til að standa undir vöxtum. Eins sé hægt að skjóta nýjum stoðum undir rekstur, t.d. með ferðaþjónustu eða öðrum aukabúgreinum. Haukur ræddi um nýliðun og nefndi það að verð á jörðum hefur verið hátt og helsta vandamálið hefur verið verðmunur á markaðsverðmæti og rekstrarvirðis. Þessi munur hafi jafnvel verið 20-30% í gegnum tíðina. Ef rekstrarvirði jarðar er t.d. 70 millj. en hægt að selja hana til annars á 100 millj. þá verður vandi á höndum, sér í lagi ef á að selja jörðina til rekstrar á hærra verðinu. Þá verður nýi bóndinn þræll bankans til margra ára. Bankinn horfir til rekstrarvirðis jarðarinnar, því reksturinn þarf að standa undir fjárfestingunni. Það verða að koma inn aðrar tryggingar. Niðurstaðan er sú að þeir sem kaupa verða að vera með umtalsvert eigið fé eða fá lán hjá seljanda. Nú séu hins vegar blikur á lofti og óvissa með framtíðina. Hvernig verður verð á umframmjólk á, er nýr búvörusamningur á næsta leyti, hvernig verður með beingreiðslur, miklar breytingar á verslun með kvóta (lítil viðskipti, mikil lækkun á verði) og svo framvegis. Einnig sé krafa frá opinberum aðilum um hagræðingu.
Valdimar, Gaulverjabæ spurði út í lengd lána, hver er þolinmæðin? Búskapur er ævi-verkefni.
Haukur svaraði því að það væri lánað út á jarðir til 30 ára, íbúðalán til 40 ára. Kaup á kvóta miðað við 15 ár, en varðandi ættliðaskipti er reynt að vera sveigjanlegri. Velkomið að taka yfir lán frá eldri kynslóð. Eins hægt að taka yfir skuldir við ættliðaskipti, ekki þarf endilega að taka lán við yfirtöku. Sama varðandi lánstíma, ef keypt er bú er ekki útilokað að hafa 30 ára lán á allan pakkann.
Spurning úr sal: Hækka vextir við ættliðaskipti?
Haukur: Nei, þau eiga ekki að breytast. Geta verið ákvæði í sumum lánum þar sem ekki er hægt að halda sömu vöxtum áfram.
Einar, Egilsstaðakoti: Er þá ekki lántökukostnaður ef næsta kynslóð tekur við eldri lánum?
Haukur: Jú, það sé lántökukostnaður ef lánið er lengt, en ekki endilega ef bara er verið að taka yfir lán. Hann ræddi það að verðbólga hefur verið lág, lánin standa í stað eða jafnvel lækka milli mánaða. Lántökukostnaður sé einnig að lækka.
Samúel, Bryðjuholti: Hvað hafið þið þurft að afskrifa mikið af mjólkurframleiðslunni síðustu 6 ár?
Haukur: Ekki mjög hátt hlutfall; minnstar afskriftir hjá bankanum innan landbúnaðar og sjávarútvegi. Endurútreikningur kom síðar og núllaði út afskriftir. Það sé ömurlegt að þurfa að ganga að einstaka hjörðum eða veðum, en því miður hefur það endað þannig í nokkrum tilvikum.
Samúel, Bryðjuholti: Ef vextir eru svipaðir milli atvinnugreina og afskriftir litar, mætti þá ekki lækka vexti til bænda?
Haukur: Bændur njóta mjög góðra kjara almennt, og eru lántökukostnaður og vextir að lækka.
Ágúst, Bjólu: Hver eru ykkar bestu kjör á góðan rekstur?
Haukur: K1 – óverðtryggðir vextir um 7,45%.
Ágúst, Bjólu: Sagði að 5,30% verðtryggt lán séu ekki góð kjör og nefndi að hótelrekstur fengi betri kjör sem dæmi.
Runólfur Sigursveinsson velti fyrir sér hvernig Lánasjóður landbúnaðarins stæði, nú væri hann kominn undir Landsbankann. Þarf hafi verið hæsta vaxtastig 5,1% vextir á lánum. Er breytingar að vænta á því lánasafni, verði þeir vextir sérstaklega lækkaðir?
Svar: Lánasjóðurinn er orðinn hluti af lánapakka, og vaxtaþakið hefur reynst vel. Sennilega hægt að fá betri kjör en þetta einhversstaðar, en breytileg kjör milli stofnanna.
Karl, Bjargi: Er sitthvor lánstími á fjós og innanhús-muni?
Svar: Það sé eitt lán, út á fullbúið fjós. Sumir vilja aðgreina einstakar vélar sérstaklega, t.d. sé ekki áhugavert að afskrifa mjaltaþjón til 30 ára. Eins sé óheppilegt fyrirkomulag að fá lán á tveimur stöðum, t.d. fjós hjá einum fjárfesti og róbót hjá öðrum. Ef maður lendir í vandræðum á einum stað getur maður lent í vondum máli, t.d. ef það vantar allt í einu róbótinn.
Jóhann, St-Hildisey: Er eðlilegt að afkoma sé þannig að rekstur geti borgað af fjárfestingum? Þyrfti að vera lánapakki þar sem land er tekið út fyrir sviga og lánað til annars tíma, land hverfur ekki. Eins mætti hugsa sér „dönsku“ leiðina. Danskir lífeyrisjóðir fjárfesta í jörðum og leigja út í 10 ár og bóndinn fær svo kauprétt eftir þann tíma. Slíkt fyrirkomulag þarf ekki að vera slæmt.
Haukur: Tæki ganga úr sér og úreldast á ákveðnum tíma, lánið þyrfti að vera komið niður í 0 um svipað leyti. Jarðahlutinn; jörðin úreldist ekki og því mætti hugsa sér að búa til lán sem eru næstum endalaus.
Guðný Halla, Búlandi: Spurning um arðsemi: fullt af jörðum í dag sem hafa lítinn kvóta, en hvernig lítið þið á það, er betra að þessi bændur gefist upp eða er betra að halda byggð við?
Haukur: Horfa til þess að halda blómlegri byggð við, styðja alla sem vilja vera í landbúnaði. Eina sem gert er kröfur um er greiðslugeta. Ekki sé gerð krafa til arðsemi.
Páll, Núpstúni velti fyrir sér kvótamarkaðnum, hvort hann sé notaður til þess að koma í veg fyrir að menn geti keypt upp jarðir og sameinað?
Haukur sagðist ekki þekkja markaðinn vel, en sá sem vill hætta getur ekki hætt heldur þarf kvótinn að fara á markað. Það sé ekki markmið að fækka búum og stækka.
Jórunn, Drumboddsstöðum: Kvótaverð hefur lækkað mikið en það kvótinn hefur oft verið notaður til að meta veð. Hvernig metið þið veð núna?
Haukur: Nú er horft á aðra þætti, en áður var verið að lána út á veð í kvóta. Ekkert mál að lána 100% fyrir kvóta ef eignastaða og rekstur er mjög góður. Miðað við beingreiðslur og kvótaverð stenst þetta hins vegar engan veginn. Nú er hins vegar stutt eftir af búvörulagasamningi. Verðmæti jarða hefur ekki endilega lækkað því sem nemur kvótaverði.
Gunnlaugur, Miðfelli: Gerið þið verðmat á jörðum? Hús sem byggð eru í dag endast mun lengur en þau sem voru byggð hér áður fyrr.
Haukur: Allur gangur í því hvort þeir skoði jarðir, jafnvel mat frá 3ja aðila, mat á sambærilegri eign.

Staða nokkurra verkefna hjá LK – Sigurður Loftsson og Baldur Helgi Benjamínsson
Sigurður byrjaði á því að fara yfir innviktun og sölu á mjólkurvörum á liðnu ári. Innviktun ársins 2014 var 133,5 milljón lítrar, sem er 8,5% aukning frá fyrra ári. Sala á fitugrunni var 129 milljón lítrar, en 121 milljón lítrar á próteingrunni. Hógværar spár um sölu og krafa um birgðastöðu kallaði á 140 millj. lítra greiðslumark árið 2015. Það er því 12% aukning á greiðslumarki milli ára. Eins hefði greiðslumark liðins árs átt að vera stærra, en það var ekki hægt að sjá það fyrir.

Nýr mjólkursamningur:
Starfshópur um starfsumhverfi mjólkurframleiðslu hefur hist aðeins í haust en ekki starfað nógu mikið. Vantar grunn-upplýsingar. Skýrsla starfshóps um tollamál er komin út en hún hefur ekki fengið mikla umfjöllun. Nú sé beðið eftir endanlegum skilum á skýrslu frá Hagfræðistofnun HÍ sem fjallar um starfsumhverfi mjólkurframleiðslu. Drögum var skilað til ráðuneytis rétt fyrir jól, en hún þótti ekki nægilega vel unnin. Í henni voru rangfærslur og var því send tilbaka vegna athugasemda. Ekki er vitað hvenær hún kemur endanlega. Starfshópur um starfsumhverfi mjólkurframleiðslu getur ekki unnið að neinu viti fyrr en þessi skýrsla kemur. Kúabændur þurfa að taka afgerandi stefnu hvernig þeir vilja hafa nýjan búvörusamning. Hvernig verður gengið frá tollaumgjörð til að tryggja stöðu á markaði svo innlend framleiðsla verði ekki keyrð niður á óheftum innflutningi? Aðkoma framleiðenda að markaði. Verður að vera sátt í samfélaginu. Fyrirkomulag verðlagningar, á að vera eitt verð eða tvö verð á mjólk? Hvernig viljum við hafa stuðningskerfið? Er eðlilegt að greitt sé sama verð fyrir alla mjólk í landinu? Ef því er svarað játandi ætti ekki að þurfa kvótakerfi. Það hlýtur að spara fjárfestingar í t.d. greiðslumarki. Hins vegar sé vont að taka upp sama kerfi og er í sauðfjárræktinni, þar sem er verið að versla með lífeyrisgreiðslur. Best væri að taka upp blöndu af leið í garðyrkju, og áfram óframleiðslutengdan stuðning. Þetta þarf að ræða vel og finna góðar leiðir sem sátt ríkir um. Mál hafa dregist of lengi, það verður að ganga frá samningi á yfirstandandi ári. Hins vegar er ekki raunhæft að samningur komist í gegnum vorþing, en gæti verið afgreiddur fyrir næstu jól.
Verðlagsmál
Ekki stórra tíðinda að vænta. Síðasta verðbreyting var 1. október 2013. Verðlagsgrundvöllur kúabús 1. mars 2014 sýndi hökkunarþörf á mjólk upp á 40 aura, en síðan hafa nær öll aðföng lækkað í verði. Stuðningsgreiðslur pr. líter hafa farið lækkandi, fer úr 52 kr árið 2014 í 47 kr árið 2015. Þessi lækkun á stuðningi kemur misjafnlega niður á aðilum, þeir sem ekki ná kvóta bera skertari hlut frá borði en þeir sem geta aukið framleiðsluna. Það þarf að leiðrétta verð á feitum mjólkurafurðum, mikil sala á feitum vörum, en flutt út prótein (verð á próteini á heimsmarkaði fer fallandi, svo það kemur neikvætt niður á rekstri mjólkuriðnaðarins). Hins vegar er ekki hægt að leiðrétta verðin vegna þess að verðlagsnefnd er ekki að störfum og hefur ekki verið um langa hríð. Vantar fulltrúa BSRB og ASÍ, en unnið að lausn málsins í ráðuneytinu.
Búnaðargjald
Búnaðargjaldið er drifkraftur í félagskerfinu og stoðkerfi landbúnaðarins. Það stóð til að gera breytingar á búnaðargjaldi, því búnaðargjaldið er sennilega ólöglegt og því ætlaði ráðherra að gera breytingar frá síðustu áramótun, en sennilega er yfirstandandi ár það síðasta sem búnaðargjald er innheimt. Búnaðargjaldsgreiðsla meðal kúabús er 375 þús. kr/ári. Það er verið að móta tillögur um framtíðarfjármögnun félagskerfis og þessar tillögur liggja fyrir á aðalfundi LK. Kallar á algera uppstokkun þess kerfis sem er í dag, hvað erum við tilbúin að greiða til að halda þessu félagskerfi gangandi?
Baldur Helgi Benjamínsson tók við keflinu af Sigurði.
Kjötmál
Mikill samdráttur í nautakjötsframleiðslu, að mestu vegna samdráttar á slátrun á kúm. Heildar framleiðsla er 3.500 tonn; þar af er aukning í úrvalsflokki ungnauta en á sama tíma 20% samdráttur í slátrun á kúm. Ásetningur kálfa eykst um 10%. Íslenskur markaður étur mikið af innfluttu nautakjöti, ca. 1.050 tonn flutt inn af beinlausu kjöti – sem er fimmföldun frá árinu áður. Þessi innflutningur er um 1.700 tonn af skrokkum, s.s. þriðjungi af markaði er sinnt með innfluttu kjöti. Sáralítill munur er á stærð markaða í kindakjöti og nautakjöti. Sala á kindakjöti var 6.200 tonn 2014 (60% nýting í bæði kindakjöti og nautakjöti), eða 3.900 tonn af kjöti (á móti 3.200 tonnum af beinlausu nautakjöti). Þessir markaðir eru að verða álíka stórir. Ferðamönnum fjölgar, og nautakjöt rennur frekur ofan í þá vegna þess að þeir þekkja það svo vel frá sínu heimalandi (frekar en lambakjöt).
Endurnýjun á erfðaefni holdanautastofna
Nú er tilbúið frumvarp um innflutning á erfðaefni í holdanautastofna, í því er gert ráð fyrir að ferill verði svipaður og í svínum. Nú sé verið að vinna að mótun reglna um innflutning holdanautasæðis. Hópurinn samanstendur af fulltrúum Mast, Keldna og LK. Smitvarnir verða mjög í hávegum hafðar, og því hafi verið fengin skýrsla frá norska dýralæknaháskólanum um smithættur. Eins vann MAST skýrslu um 16 þekktustu sjúkdómana. Norska skýrslan er ítarlegri, megin niðurstaðan er að engar eða hverfandi líkur er á því að innflutningi djúpfrysts sæðis frá einangrunarstöð fylgi smitsjúkdómur. Baldur Helgi talaði um að það væri uppi grunur um kúariðu í Noregi eftir tilfelli í Þrændalögum. Hins vegar er þetta ekki hefðbundin kúariða sem kom upp heldur „spontant“-afbriðgði sem stundur kemur óforvarandis upp í nautgripum – eins konar heilabilun (á sérstaklega við um gamla nautgripi). Líkurnar á þessu afbrigði eru mjög litlar, en talið er að 1 af hverju milljón heilasýnum sé sýkt. Þetta riðusmit hefur ekki áhrif á áhættumatið því þetta afbrigði riðu er ekki smitandi. Baldur vonar að innflutningur á erfðaefni verði að veruleika í vor.
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf:
Nautgriparæktarmiðstöð Íslands ehf. var stofnuð 18. desember 2014 og er því fyrirtæki ætlað að kaupa Nautastöðina á Hestu af BÍ. BÍ eigi áfram hlut í stöðinni. Þessi kaup þarf að samþykkja á aðalfundi LK og á Búnaðarþingi. Þannig verði LK meirihlutaeigandi í félaginu. Það er mat LK að nautgriparæktin eigi að bera faglega og fjárhagslega ábyrgð á ræktunarstarfinu. Núna undanfarið hafi ekki verið sama húsbóndavald yfir nautastöðinni og kynbótastarfinu eins og var þegar landsráðunautar réðu ræktunarstarfinu. Eins vonast hann til að þessi eigendaskipti verið til þess að glæða áhuga og metnað manna við ræktunarstarfið.
Reglugerð um velferð nautgripa
Baldur sagði frá nýrri reglugerð um velferð nautgripa. Hún hafi verið lengi í smíðum. Eins hafi verið gerðar miklar athugasemdir en ekki tekið tillit til þeirra allra. Hann telur ekki mikla breytingu að ný fjós skuli vera lausagöngufjós. Eins sé það skilningur nefndamanna að básafjós með mjaltabás þar sem kýr eru bundnar með streng verða ekki úrelt 2024 vegna þess að þær fá daglega hreyfingu.
Elín, Egilsstaðakoti: En fer það ekki eftir því hver túlkar lögin, hvort básafjós með mjaltabás séu lögleg? Túlkar MAST þetta eins?
Baldur: Hópurinn túlkar þetta svona. Hópurinn samanstóð af Torfa Jóhannessyni, Guðný Helga Björnsdóttir varaformaður LK og einhverjum fleiri. Ekki hefur verið gert kostnaðarmat á að úrelda öll þessi fjós, en hins vegar sé þetta afgerandi yfirlýsing, „verður að endurnýja þetta“. Það kallar því á 18-20 milljarða fjárfestingu á næstu árum (sem telst lítið í samanburði við fjárfestingu í greiðslumarki). Aðlögunartími stuttra bása er of stuttur, en svona aðgerð er mikil aðgerð. Mun lengri aðlögunartími varðandi burðarstíur, sem getur verið mun einfaldari aðgerð. Eins séu í reglugerðinni útivistarákvæði sem ekki allir eru sammála.
Ragnar Finnur: Hvernig er útivistin skilgreind?
Baldur: Það verður að vera gróið land, gerði með möl dugar ekki. Túlkunaratriði eru snúin. Varðandi útigang; „skýli sem tekur mið af þörfum viðkomandi gripa“. Það verður þá að skilgreina það, svo ekki verði farið að deila og hártoga.
Kjartan, Hjallanesi: Ræddi um ríkisstuðning í formi beingreiðslna út á mjólk. Nú hafi orðið mikil aukning á kvóta. Hann sjái til dæmis fram á að hans framleiðsluaðstaða sé á tampi hvað varðar að framleiða upp í kvóta. Það sé erfitt að taka á móti þessari aukningu. Tekjur munu skerðast um 6-800 þúsund vegna þess að hann nær ekki kvóta, fer til þeirra sem framleiða mjólkina, en mjög bratt að ætla að miða skerðinguna við 100% framleiðslu. Óskiljanleg rök fyrir 140 millj. Framleiðslustuðningur sé veittur fyrir innlendan markað, til að niðurgreiða mjólkurvörur til neytanda, íslenskra neytenda en ekki erlendra (því sem er flutt út). Það séu rök með og á móti, en stendur upp úr að það sé mjög bratt að miða skerðingu við 100% framleiðslu. Margir lenda í ýmsum áföllum og þá eru menn í vondum málum. Það hættir að vera hagkvæmt að framleiða þessa síðustu lítra, við getum ekki framleitt mjólk hvað sem það kostar.
Jökull, Ósabakka lagði tillögu fyrir fundinn um umsýslu beingreiðslna og gæðastýringargreiðslna. Þá kvaðst hann alveg á móti því að LK eigi sæðingastarfsemina og sakaði Sigurð Loftsson um annarlegar hvatir varðand kaup á Nautastöðinni.
Guðmundur, Hraungerði: Skiptir máli hver framleiðsluskyldan er, miðað við hvernig þetta virkar í sauðfjárræktinni. Þar sé ákveðið ásetningshlutfall en ekki gerðar kröfur um framleiðslu.
Sigurður Loftsson: Það er skilningur á því að ákveðnir bændur geti ekki aukið framleiðsluna í takt við markaðinn. Markaðurinn tók þessa ákvörðun, ekki við. Við verðum að bregðast við. Þegar greiðslumark sé ákvarðað sé tekið mið af þeim efnaþætti sem selst meira af. Það hafi verið rætt við ráðamenn hvort hægt sé að bregðast við með auknum fjármunum til greinarinnar, en ráðherra vill verja þær greiðslur sem koma til greinarinnar, að þær verði ekki skertar, en ekki kemur meira. Söluaukningu verðum við að takast á við sjálf. Vandi í þessari stöðu þegar við getum ekki gert neinar ráðstafanir varðandi verðlagning til að jafna sölu og innkomu frá því sem selt er. Verðin eru lögbundin, þarf að leysa úr því fyrst.
Kjartan, Hjallanesi: Er það staðreynd að innanlandssala fitu hafi aukist um 7 millj. milli ára? Hver er staða birgða í landinu núna?
Sigurður: Engar birgðir til af fitu í landinu um áramótin. Salan heldur áfram í janúar. Á að flytja inn smjör frá Írlandi? Mjólkurframleiðendur standa hreinlega ekki undir því sem þeim er ætlað að framleiða vegna mikillar eftirspurnar. Þeir geta fengið góðan samning ef þeir standa í lappirnar og láta mjólkurframleiðsluna ekki fara á sama veg og nautakjötsframleiðslan.
Guðný Halla, Búlandi: Sagði að það vanti lífræna mjólk og að það sé búið að leyfa innflutning á frosinni, lífrænni mjólk. Ef einhverjum dytti í hug að flytja inn frosna mjólk, smjör eða annað, þá standa íslenskir mjólkurframleiðendur mjög illa.
Sigurður sagði að hingað til hefði ekki verið innflutningur á frosinni, lífrænni, ógerilsneyddri mjólk þó svo að heimildir hafi verið opnar síðan síðastliðið vor. Hann var sammála Jökli með að flytja ekki greiðslumarksgreiðslu til MAST, en vildi fá skýringu á því að LK kaupi stærstan hluta í Nautastöð og hvaða „annarlegar hvatir“ það eru sem liggja að baki? Hann sagði það mun sterkara fyrir greinina sjálfa að halda á þessum málum og að það væri til bóta fyrir ræktunarstarfið í landinu. Það yrði þá tekin ákvörðum um innflutning kúakyns af eigendum stöðvarinnar, sem eru kúabændur.
Guðmundur, Hraungerði velti fyrir sér framleiðsluskyldunni. Stuðningsgreiðslur verða að vera til niðurgreiðslna þeirra sem framleiða, t.d. útfærslur á C-greiðslum. Þannig sé stýring til framleiðslu í öllum mánuðum.

Viðurkenningar
Sveinn Sigurmundsson kynnti verðlaunaafhendingar. Huppustyttuna fyrir afurðahæsta kúabúið á Suðurlandi, með tilliti til mjólkurfitu og próteins, hlaut félagsbúið Ytri-Skógum. Kýrnar á Ytri-Skógum mjólkuðu að jafnaði 7.832 kg/árskú og 555 kg MFP.
Afurðahæsta kýrin á Suðurlandi var Stytta 336 frá Kotlaugum. Hún mjólkaði 12.700 kg mjólkur. Stytta var undan Öðlingi 03002 og var fædd árið 2005. Hæsta dagsnyt Styttu árið 2014 var 48 kg.
Þyngsta ungnautið var frá Skammadal og var 411,7 kg og fór í UNI*A.

Önnur mál
Tillögur frá félagsráði
Félagsráð FKS lagði fram tvær tillögur fyrir fundinn til samþykktar.
Tilraunastarfið
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn að Árhúsum, Hellu þann 28. janúar 2015 beinir því til stjórnar LBHÍ að ráðinn verði aftur tilraunastjóri að Stóra – Ármóti svo innlend tilraunastarfsemi í nautgriparækt leggist ekki af.
Einnig skorar fundurinn á LBHÍ að fóðurtilraun sem framkvæma átti á Stóra – Ármóti, komist í framkvæmd hið fyrsta eins og til stóð.
Vegna aukinnar sölu á fituríkari mjólkurafurðum er mjög mikilvægt að kanna áhrif fóðrunar á efnasamsetningu mjólkur við íslenskar aðstæður. T.d. samspil íslensks og innflutts fóðurs. Vægi fitu í verði innlagðrar grundvallarmjólkur hefur aukist og því stórt fjárhagslegt atriði fyrir bændur að hækka fitu í mjólk frá búunum.
Bjarni, Túni: Sagðist sitja í háskólaráði Landbúnaðarháskóla Íslands. Hann ræddi það að háskólar eru sjálfstæðar stofnanir, sem ráða sér að mestu leyti sjálfar, nema að þær þurfa rekstrarfé frá hinu opinbera. Undanfarin ár hafi verið lögð rík áhersla á akademískt starf en mikið hafi dregið úr áherslum á grunnmenntun. Þanni hafi nautgriparæktin til dæmis setið á hakanum. Þannig séu tvær fylkingar innan skólans og að þeir sem fylgja hinu akademíska starfi virðast ekki þurfa að spyrja aðra hvernig eigi að stjórna stofnunni. Hann hvatti kúabændur til að krefja skólann um almennilega kennslu og rannsóknir, því það þurfi að koma frá atvinnuveginum hvað eigi kenna og rannsaka. Hann fagnar því ályktuninni. Hann hafi einnig viljað koma með innlegg á fundinn að hugsa um menntunarmálin því skólinn hefur lítinn áhuga á að mennta bændur. Það sé meðal annars vegna þess að lítið áreiti komi frá atvinnugreininni hvaða þjónustu skólinn á að veita. Það verður því að taka til umhugsunar. Menntun er kjarabaráttutæki. Eftir því sem menntun kúabænda eykst, eykst færni þeirra einnig.
Sveinn Sigurmundsson: Sagði frá þeirri tilraun sem átti að vera í gangi á Stóra-Ármóti um þetta leyti, en hún átti að fjalla um áhrif fóðrunar á verðefni, einkum fitu. Henni var hins vegar frestað með mjög skömmum fyrirvara. Hann hefur því boðað stjórn LbhÍ til fundar með FKS, LK, BSSL og MS til að ræða þessi mál við þá. Hann talaði um að það þyrfti jákvætt áreiti frá búgreininni svo rannsóknarstarf leggist ekki af. Svörin frá LbhÍ hafi verið á þá leið að „Þetta bara frestaðist“, en hins vegar hefði tilraun ekki frestast ef þeir hefðu haft áhuga á að gera tilraunina.

Tillaga borin undir atkvæði; samþykkt samhljóða.
Aðbúnaðarreglugerð, breyting á básum
Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi haldinn að Árhúsum Hellu 28. janúar 2015 mótmælir þeim knöppu tímamörkum sem sett eru við breytingar á aðbúnaði í fjósum í reglugerð 1065/2014.
Greinargerð:
Samkvæmt nýrri aðbúnaðarreglugerð verða bændur sem dæmi að breyta básum í eldri fjósum fyrir 1. október 2016. Það eru mjög knöpp tímamörk fyrir breytingar á stærð bása. Engin kostnaðargreining hefur enn farið fram. Þetta getur víða verið snúið verk í eldri byggingum. Lítið sem ekkert tillit hefur verið tekið til athugasemda sem borist hafa frá LK og sætir það furðu.
Valdimar, Gaulverjabæ: Reglugerðin fjallar um velferð nautgripa, kúabændur setjum sig ekki upp á móti góðri velferð. En þetta sé sá hluti reglugerðar sem sé mjög knappur, þ.e. gefin tímamörk til breytinga á básum. Ekki verið að mótmæla þessu í heild.
Guðbjörn, Eyði-Sandvík: MAST eru þverir en setja fram áætlun um að breyta hlutunum, og taki þá ekki gildi fyrr en 2025.
Jóhann, St-Hildisey: Leggur til að taka út „sem ekkert“ því aðeins var tekið tillit til athugasemda.
Elín, Egilsstaðakoti: Vill frekar breyta greinargerðinni og að stjórn komi inn athugasemdum þar.
Fundarstjóri: Bæta við á eftir greinargerð „Lágmark væri að gera 4-5 ára aðgerðaáætlun fyrir 1. okt. 2016“.
Samþykkt samhljóða.
Þá var tekin fyrir tillaga Jökuls á Ósabakka: „Aðalfundur FKS haldinn 28. janúar 2015 í Árhúsum, Hellu samþykkir að skora á landbúnaðarráðherra að hætta við þau áform að umsýsla beingreiðslna og gæðastýringargreiðslna séu flutt frá Bændasamtökum Íslands í Bændahöllinni yfir til Matvælastofnunar.
Greinargerð: Framkvæmd þessa fyrirkomulags sem verið hefur á þessum greiðslum í gegnum árin, hefur að því er best er vitað verið skilvirk og heiðarleg, og alveg örugglega mjög hagkvæmt fyrirkomulag. Hvers vegna að breyta því sem gott er?“
Samúel, Bryðjuholti: BÍ fá mikla peninga til að ráðstafa, inn í því er beingreiðlsur en almenningur hefur hingað til haldið að það væru bein framlög til BÍ. Kannski er betra að ríkið sjálft deili út sínum peningum í gegnun MAST, heldur en að félag bænda sé að sýsla með þessa peninga.
Baldur Helgi Benjamínsson: Umsýsluverkefni komin til Búnaðarstofu.
Jórunn, Drumboddsstöðum: Átti þetta ekki að vera tímabundið til eins árs? Millilending áður en þetta fer til MAST.
Guðmundur, Hraungerði: Var þetta ekki krafa frá einhverri eftirlitsstofnun?
Daníel, Akbraut: MAST er eftirlitsaðili, hvernig geta þeir deilt út peningum til þeirra sem þeir gera úttektir hjá?
Baldur Helgi: Búnaðarstofa er sjálfstæð eining til að sjá um stjórnsýsluverkefni. Vilji ráðuneytis er að þetta verði hluti af MAST eftir næstu áramót. Þetta eigi ekki að vera hluti af eftirlitsstofnunnni heldur sjálfstæð eining.
Pétur, Hvammi: Vill að tillögunni verði vísað til stjórnar því þetta sé miklu stærra mál heldur en verið að velta upp í ályktuninni. Útborgun þessara greiðslna á ekkert erindi inn í MAST. Miklu frekar að fjalla betur um þetta í stjórn.
Tillaga Péturs samþykkt, vísað til stjórnar.
Daníel, Akbraut: Finnst nýja aðbúnaðarreglugerðin mjög misvísandi. Til dæmis megi ekki eftir nokkur ár binda gripi á bás, en samt segi í reglugerðinni að það megi binda kvígur sem eiga minna en 3 mánuði í burð. Hvar á að binda þær, ef ekki er leyfilegt að binda gripi á bás, á að binda þær við einhverja stoð í lausagöngufjósi? Skrítið orðalag í allri reglugerðinni.
Jökull, Ósabakka: Sáttur með niðurstöðu sinnar tillögu. Hann las upp vísu um málefni mjólkurframleiðslunnar:

Mann ég nefni, og upp mig herði
sem níðir allt úr skorðum.
Í slagtogi með glæpamerði,
fjandans Finni forðum.
Á aðalfundi gerið skil,
sem ei má lengur bíða
á fulltrúana skora vil
með vinsemd en með kvíða.
Álitshnekki glímir við
MS gengur götu písla
bregðast við því verðið þið
burt með Þórólf Gísla.

Fleira ekki rætt. Fundi slitið 16.45.
Jóna Þórunn Ragnarsdóttir ritaði fundargerð.


back to top