Aðalfundur FKS 25. febrúar 2019

Aðalfundur Félags kúabænda á Suðurlandi var haldinn í Gunnarsholti 25. febrúar 2019 og hófst kl. 12 á hádegi. Formaður félagsins Rafn Bergsson í Hólmahjáleigu setti fundinn og tilnefndi Bóel Önnu á Móeiðarhvoli sem fundarstjóra og Gunnar Ríkharðsson frá BSSL sem fundarritara. Var það samþykkt samhljóða.

Skýrsla formanns – Rafn Bergsson
Fundarstjóri, gestir og ágætu félagar. Ég býð ykkur velkomin á þennan aðalfund Félags kúabænda á Suðurlandi. Starf félagsins var með hefðbundnu sniði síðasta árið. Stjórn hélt 2 formlega stjórnarfundi á árinu en þess á milli símtöl og tölvupóstsamskipti.
Félagsráðið fundaði 3 sinnum á liðnu ári. Fyrst 26. febrúar 2018 en á þeim fundi byrjuðum við á að kjósa Borghildi í Skarði sem gjaldkera og Reyni á Hurðarbaki sem ritara og varaformann félagsins og einnig voru kosnir 4 fulltrúar á aðalfund Búnaðarsambands Suðurlands. Eftir kosningar var unnið að tillögum til að leggja fyrir aðalfund Landsambands kúabænda og skilaði sú vinna 6 tillögum sem fóru frá okkur.
Næsti fundur var haldinn 22. nóvember 2018. Á þann fund fengum við Grétar Hrafn Harðarsson og Finnboga Magnússon frá Jötunn Vélum. Grétar Hrafn talaði um tækifæri til að auka hlut innlends fóðurs í mjólkurframleiðslu. Talaði hann meðal annars um möguleikann á að nota svo kallað reitiborð á múgsaxara í stað hefðbundinna þreskivéla en með því móti væri hægt að taka kornið fyrr og því minni hætta á uppskerutjóni af völdum fugla og rysjótts veðurfars þegar kemur fram á haustið. Finnbogi ræddi leiðir til að minnka plastnotkun við fóðuröflun. Hann kynnti ýmsar tæknilausnir í þessu samhengi og fjallaði einnig um möguleika á byggingu turna sem er verkefni sem Jötunn Vélar ásamt fleiri aðilum hafa verið að skoða.
Þriðji fundur félagsráðs var svo haldinn 31. janúar 2019. Á þann fund fengum við Ágúst Guðjónsson stjórnarformann Auðhumlu og fór hann yfir stöðuna í mjólkuriðnaðinum og þær hagræðingaraðgerðir sem ráðist hefur verið í að undanförnu.
Í apríl sendum við áskorun til stjórnenda SS um að hækka verð á kýrkjöti en á þeim tímapunkti voru þeir með talsvert lægri verð á kúm en samkeppnisaðilarnir. Svörin sem við fengum voru að ekki væri svigrúm til hækkana. Engu að síður tel ég að það sé ágætt að láta í okkur heyra.

Mjólkurframleiðslan á landinu gekk vel á síðasta ári og var innvigtun síðasta árs 152,4 milljónir lítra og þar af komu um 57 milljónir lítra eða rúm 37% af Suðurlandi. Að meðaltali lagði hver framleiðandi á okkar svæði inn rúma 270.000 lítra og meðalnytin á árskú var 6.200 lítrar. Mjólkurframleiðendur á okkar svæði voru 210 um síðustu áramót og hafði fækkað um 8 frá árinu áður.
En eftir met í framleiðslu á hverju ári 5 ár í röð virðist toppnum vera náð í bili a.m.k. og á seinni hluta síðasta árs fór að draga úr framleiðslu og það sem af er 2019 er framleiðslan um 6% minni en á síðasta ári. Það er athyglisvert að þessi samdráttur er álíka mikill milli landsvæða sem kemur mér svolítið á óvart í ljósi afleits tíðarfars hér sunnanlands síðasta vor og sumar sem leiddi af sér að víða eru heygæði lakari en undanfarin ár hér um slóðir.
Mismunur í sölu á mjólkurfitu og mjólkurpróteini heldur áfram að aukast og á síðasta ári var salan um 15 milljón lítrum meiri á fitugrunni en á próteingrunni. Þessi mismunur er orðin verulega íþyngjandi í rekstri mjólkuriðnaðarins.
Framleiðsla á nautgripakjöti jókst um 3,5% á síðasta ári og jókst salan jafnmikið. Því miður hefur verð til framleiðenda á nautakjöti lækkað á síðasta ári. Fyrir því eru gefnar ýmsar ástæður svo sem launahækkanir, þrýstingur vegna innflutnings ofl. Þessu til viðbótar nefna margir framleiðendur sem ala naut af íslenska kyninu að nýtt flokkunarmat á nautgripum komi illa við þá. Það er slæmt ef sláturleyfishafar hafa notað nýtt kjötmat til að lækka verð til bænda en ég held engu að síður að nýja matið eigi að geta nýst okkur til að gera betur í nautakjötframleiðslunni, en breytileiki í þyngd og holdfyllingu gripa er gríðarlegur.
Í einangrunarstöð fyrir holdagripi á Stóra Ármóti fæddust fyrstu kálfarnir af Aberdeen Angus kyni síðasta haust. Kálfarnir dafna vel og er vaxtarhraðinn mikill miðað við það sem við eigum að venjast í Íslenska kúakyninu. Stefnt er á að sæði úr nautunum verði í boði til bænda í haust. Þetta ætti ef vel tekst til að geta orðið gríðarlegt framfaraskref í kjötframleiðslunni. Óneitanlega eru talsverð vonbrigði að á sama tíma og verið er að leggja heilmikið í að efla innlenda nautakjöts framleiðslu skuli frystiskylda á innfluttu kjöti ver afnumin og er hætt við að það hafi mikil áhrif á markaðinn.

Nú er nýlokið kosningu á meðal mjólkurframleiðenda um hvort halda skuli í kvótakerfi til framleiðslustýringar í mjólkurframleiðslu. Niðurstaðan var afgerandi og vildu um 90% þeirra sem greiddu atkvæði halda í kvótakerfið. Það var ánægjulegt hve kjörsókn var góð eða 88%. Í ljósi niðurstöðunnar er því skýrt eftir hvaða línu samninganefnd bænda þarf að vinna við endurskoðun búvörusamninga sem er að hefjast. Í þeirri endurskoðun þarf að leggja áherslu á að gera greinina sem best í stakk búna til að takast á við þær áskoranir sem framundan eru og að sama skapi að við getum sem best nýtt þau tækifæri sem framtíðin ber í skauti sér.
Það sem mér heyrist mjólkurframleiðendur velta mest fyrir sér er hvernig tilfærslu greiðslumarks milli framleiðenda verður háttað í framtíðinni. Og sýnist fólki sitthvað í þeim efnum. Að mínu mati þarf að hafa einhverja stjórn á verði greiðslumarks svo það hækki ekki upp úr öllu valdi. Eins þarf að tryggja að framleiðendur hafi sem jafnasta möguleika á að kaupa greiðslumark.

Umhverfismálin eru mikið í umræðunni þessi misserin. Þarna tel ég að geti verið talsverð tækifæri fyrir okkur bændur. Í fyrsta lagi er jákvætt ímyndarlega fyrir okkur að leggja okkar af mörkum og sem umráðamenn yfir stórum landsvæðum er margt sem við getum gert. Í öðru lagi munu stjórnvöld leggja talsverða fjármuni í þennan málaflokk í framtíðinni þannig að með því að fara í einhverjar aðgerðir t.d. skógrækt ofl. á sinni jörð gætu bændur styrkt þann rekstur sem fyrir er. Einnig er hugsanlegt að hægt verði að fá stjórnvöld til að styðja við framkvæmdir á búunum sem stuðla að umhverfisvænni búskaparháttum. Í það minnsta eigum við að vera vakandi yfir tækifærum þarna og nýta þau til að efla landbúnaðinn.

Félagsaðild að Landsambandi kúabænda á okkar svæði hefur lagast á milli ára þannig að af 210 mjólkurframleiðendum um síðustu áramót voru 115 í LK eða um 55%. Í fyrra var þáttakan um 43% þannig að þetta er í áttina en að sjálfsögðu ekki ásættanlegt. Staðan er best í Árnessýslu eða um 70%, tæp 60% í Vestur-Skaftafellssýslu og Rangárvallasýsla rekur lestina með tæplega 40% þátttöku. Ég hef ekki svörin við því hvers vegna þátttakan er ekki betri en raun ber vitni en sjálfsagt eru ástæðurnar ýmsar. En ég er hins vegar hugsi yfir því hvernig við bændur ætlum að haga hagsmunagæslunni í framtíðinni því ég held að þörfin fyrir öfluga hagsmunagæslu eigi bara eftir að aukast í framtíðinni.

Á síðasta búnaðarþingi var skipaður starfshópur til að skoða félagskerfið og koma með tillögur að breyttu skipulagi og hvernig hægt sé að tryggja fjármögnun þess. Það verður spennandi að sjá hvað kemur út úr þeirri vinnu en sama hvað leið verður farin þá er frumskilyrði að fá sem allra flesta til að taka þátt.
Mig langar að nota tækifærið og þakka Búnaðarsambandi Suðurlands fyrir veitta þjónustu og aðstoð á árinu. Starfsfólk þar hefur reynst okkur mjög vel og meðal annars hafa þau séð um að rita fundargerðir á félagsráðsfundum. Og hér eru Sveinn og Gunnar að hjálpa okkur með þennan fund.
Að lokum þakka ég meðstjórnendum mínum samstarfið á árinu
Takk fyrir

Reikningar félagsins – Borghildur Kristinsdóttir gjaldkeri
Borghildur Kristinsdóttir gjaldkeri fór yfir reikninga félagsins fyrir árið 2018. Hagnaður af rekstri félagsins var 313.187 kr. en árið áður var hann 31.155 kr. Helsta skýring á bættri afkomu milli ára er sú að á árinu 2018 kom inn í bókhaldið styrkur frá LK bæði fyrir árið 2017 og árið 2018.
Reikningar bornir upp og samþykktir samhljóða.

Umræður um skýrslu stjórnar og reikninga félagsins
Fundarstjóri gaf orðið laust varðandi skýrslu formanns og reikninga félagsins en enginn tók til máls.

Tillaga frá stjórn um árgjald FKS og stjórnarlaun – Borghildur Kristinsdóttir
Aðalfundur FKS haldinn í Gunnarsholti 25. febrúar 2019 samþykkir að árgjald til félagsins verði miðað við útgefið lágmarksverð á mjólk í afurðastöð til bænda með greiðslumark og jafngildi 80 lítra mjólkur á hvert bú. Laun formanns verði árlega miðað við jafngildi 2.500 lítra mjólkur og laun ritara og gjaldkera verði árlega miðuð við 1.250 lítra mjólkur. Greitt verði fyrir akstur félagsráðsmanna og stjórnarmanna samkvæmt ríkistaxta pr kílómeter.
Sveinn á Reykjum tók til máls og velti fyrir sér hvort þörf væri á að hafa FKS starfandi vegna breytts umhverfis og lítillar þátttöku kúabænda á Suðurlandi í LK.
Sigurður í Steinsholti velti fyrir sér hvort rétt væri að breyta innheimtuaðferð á árgjaldi FKS á meðan í gangi er endurskoðun á skipulagi félagskerfis bænda.
Höskuldur á Stóra Ármóti taldi rétt að FKS héldi bara sínu striki varðandi breytingar á innheimtu þ.e. að rukka ákveðið gjald fyrir hvert bú í staðinn fyrir að rukka hvern félagsmann eins og verið hefur.
Tillaga stjórnar borin upp og samþykkt með 19 atkvæðum gegn einu.

Kosningar
Fram fór skrifleg kosning til formanns félagsins og hlaut Rafn Bergsson Hólmahjáleigu 35 atkvæði, Borghildur Kristinsdóttir í Skarði 1 atkvæði og einn seðill var auður.
Fundarstjóri bar upp tillögu stjórnar að skoðunarmenn reikninga verði Jón Vilmundarson Skeiðháholti og Grétar Sigurjónsson Smjördölum og varamenn Arnfríður Jóhannsdóttir á Herjólfsstöðum og Inga Birna Baldursdóttir Seli. Samþykkt samhljóða.

Þá fór fram kosning í félagsráð FKS og hlutu eftirtaldir kosningu:
Borghildur Kristinsdóttir 34 atkvæði
Reynir Þór Jónsson 31
Elín Heiða Valsdóttir 28
Anne B. Hansen 25
Jóhann Jensson 25
Magnús Örn Sigurjónson 25
Jón Vilmundarson 21
Arnfríður Jóhannssóttir 20
Haraldur Einarsson 20
Sigríður Jónsdóttir 20 – 1. varamaður
Arnór Hans Þrándarson 19 – 2. varamaður
Gísli Hauksson 16 – 3. varamaður

Kosning fulltrúa á aðalfund LK en bara þeir sem eru félagar í LK hafa atkvæðisrétt og eru kjörgengir.
Kosin voru:
Borghildur Kristinsdóttir Skarði
Rafn Bergsson Hólmahjáleigu
Reynir Þór Jónsson Hurðarbaki
Samúel Eyjólfsson Bryðjuholti
Elín Heiða Valsdóttir Úthlíð
Jóhann Nikulásson Stóru-Hildisey

Varamenn í röð:
Jón Vilmundarson Skeiðháholti
Arnór Hans Þrándarson Þrándarholti
Magnús Örn Sigurjónsson Pétursey
Anne Hansen Smjördölum
Sigurður Loftsson Steinsholti
Ásmundur Lárusson Norðurgarði

Kosning 4 fulltrúa á aðalfund BSSL
Samþykkt að vísa þessu til félagsráðs.

Erindi Margrétar Gísladóttur framkvæmdastjóra LK
Margrét kom víða við í erindi sínu. Innvigtun mjólkur á árinu 2018 var 152,4 milljón lítrar og var það aukning um 0,9% frá árinu áður. Sala mjólkurvara á fitugrunni var 144,8 milljón lítrar og var söluaukning um 0,5%. Sala á próteingrunni var hins vegar 129,5 milljón lítrar og var um 2,2% samdráttur þar í sölu. Framleiðendum fækkað um 13 á árinu og eru nú 559. Greiðslumark þessa árs er 145 milljón lítrar.
Atkvæðagreiðsla um framtíð kvótakerfis í mjólkurframleiðslu stóð yfir frá 11.–18. febrúar 2019.
10,14% sögðu: Já, ég vil afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
89,41% sögðu: Nei, ég vil ekki afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu
0,41% völdu að taka ekki afstöðu.
Niðurstaða atkvæðagreiðslunnar var því mjög afgerandi og því þarf nú að fara að huga að endurskoðun búvörusamninga. M.a. þarf að huga að verðlagningu mjólkurafurða,skiptingu á stuðningsgreiðslum, tollamálum og samkeppnisstöðu.
Stjórnvöld eru búin að eyrnamerkja fjóra milljarða til kolefnisbindingar verkefna á næstu 5 árum og þurfa bændur að vera vel vakandi fyrir þátttöku í slíkum verkefnum þar sem þau henta.
Innflutningur á nautakjöti hefur aukist mikið en samt hefur smásöluverð hækkað umfram verðlagsvísitölu en verð til bænda hefur lækkað. Gott samstarf hefur verið milli búgreinafélaga og Bændasamtakanna varðandi hagsmunagæslu fyrir bændur og verkaskiptingu þar að lútandi.
Þá ræddi Margrét einnig um fyrirhugað afnám á frystiskyldu á innfluttu kjöti, sýklalyfjaónæmi og upprunamerkingar. Þá kom einnig fram í hennar máli að árshátíð og aðalfundur LK er fyrirhugaður 22-23 mars á Hótel Sögu.

Umræður um erindi Margrétar:
Höskuldur á Stóra Ármóti vildi að bændur reyndu allt sem þeir gætu til að skila feitari mjólk inn til samlags til sporna á móti viðvarandi efnahalla í sölu mjólkurafurða.
Jóhann í Stóru-Hildisey vildi fá nánari skýringar á því hvernig spara mætti mjólkurfitu með breytingum á samsetningu kálfaduftsins og breyttum framleiðsluferlum og spurði hvort það ætti þá að flytja inn fitu til íblöndunar í duftið. Margrét og Þórunn í Bryðjuholti útskýrði hugmyndir um að nýta kannski jurtafitu í kálfaduftið og hugsanlega mætti staðla nýmjólk á 3,9 % fitu og spara þannig mjólkurfitu.
Þorsteinn Logi í Egilsstaðakoti velti fyrir sér hvort auka ætti kröfur varðandi stuðning við nautakjötsframleiðslu þ.e. lækka aldursmörk og auka kröfur um þunga gripa við slátrun.
Sigurður í Steinsholti ræddi breytingar á nautakjötsframleiðslu og áhrif af innflutningi á fersku kjöti. Brynjólfur í Kolsholtshelli ræddi um áhrif afnáms frystiskyldu á innfluttu kjöti.
Reynir á Hurðarbaki spurði Margréti um afdrif tillögu frá FKS til stjórnar LK varðandi stuðning við nautakjötsframleiðslu.
Margrét sagði ýmislegt til skoðunar er snertir nautakjötsframleiðslu og stuðning við hana en á markaðinn vantar gæðameira nautakjöt. Margrét sagði frá því að til stæði að ráða starfsmann í nautakjötsverkefni – fjármagn þarf þó að tryggja. Varðandi nýfallinn dóm um ólögmæti kröfu um frystingu á kjöti sagði Margrét að við værum ekki að uppfylla þann samning sem EFTA gerði við EES og dómurinn segði það.
Jóhann í Stóru-Hildisey spurði um virka afkomuvöktun á stöðu kúabænda en Margrét svaraði því til að verið væri að þrýsta á Hagstofuna að flýta niðurstöðum varðandi rekstrarafkomu kúabænda.

Starfsemi Búnaðarstofu – Jón Baldur Lorange framkvæmdastjóri.
Jón Baldur fór yfir helstu verkefni sem koma inn á borð Búnaðarstofu. Búnaðarstofa sinnir stjórnsýslu í landbúnaði sem snýr að framkvæmd stuðningsgreiðslna, eftirliti og hagtölusöfnun. Framtíðarsýn stjórnenda stofunnar er að Búnaðarstofa njóti jákvæðrar ímyndar og trausts fyrir skilvirka, opna og rafræna stjórnsýslu og tryggi þar með velferð og verðmætasköpun. Á Búnaðarstofu starfa núna sex manns.
Jón Baldur rakti þær breytingar sem orðið hafa varðandi stjórnsýslu tengdri landbúnaði alveg frá setningu Afurðasölulaganna árið 1934 en um árabil sá Framleiðsluráð Landbúnaðarins um nánast allt sem sneri að þessum málaflokk. Á árinu 1999 var Framleiðsluráð lagt niður og verkefni færð til BÍ og á árinu 2015 var sett á laggirnar sjálfstæð rekstrareining innan BÍ sem sá um þessi verkefni. Á árinu 2016 fluttust verkefnin frá Bændasamtökunum til MAST og á árinu 2019 er fyrirhugað að þessi verkefni flytjist til enn og aftur og nú frá MAST og inn í Atvinnuvegaráðuneytið. Eru það því ákveðin tímamót þegar ábyrgð og framkvæmd búvörusamninga færist alfarið inn í stjórnarráðið.
Búnaðarstofa sér um allar greiðslur sem koma frá hinu opinbera til landbúnaðarins og má þar nefna beingreiðslur, landgreiðslur, ræktunarstyrki, nýliðunarstyrki, fjárfestingarstuðning, svæðisbundinn stuðning, gripagreiðslur, gæðastýringagreiðslur, styrki vegna kúasæðinga og kynbóta og vatnsveitustyrki svo það helsta sé nefnt. Alls eru verkefnaflokkar nærri 30 og námu greiðslur á árinu 2018 um 12,6 milljörðum.

Umræður um erindi Jóns Baldurs.
Höskuldur á Stóra Ármóti þakkaði Jóni gott erindi og spurði hvað mætti spara mikið varðandi úttektir og eftirlit af allir styrkir væru greiddir út á framleiðslu ?
Jökull á Ósabakka velti fyrir sér ávinningi af því að dreifa stuðningi við nautgriparæktina eins og gert er núna.
Jón Baldur sagði kerfið orðið býsna flókið en er í raun væri það bara pólitísk spurning hvernig menn vildu deila út þessum fjármunum.

Viðurkenningar frá Búnaðarsambandi Suðurlands – Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri
Huppustyttan – sem veitt er afurðahæsta kúabúi á Suðurlandi m.t.t. verðefna í mjólkinni – var veitt Garðari og Guðrúnu í Hólma í Landeyjum fyrir árið 2018 en þar mjólkuðu kýrnar að meðaltali 8.192 kg mjólkur og 624 kg af verðefnum. Í öðru sæti var Reykjahlíð á Skeiðum og í því þriðja Hrepphólar í Hrunamannahreppi.
Afurðahæsta kýr á Suðurlandi árið 2018 var Randafluga 1035 í Birtingaholti 4 en hún mjólkaði 13.497 kg mjólkur á árinu og tók Fjóla Kjartansdóttir við viðurkenningu fyrir hana.
Þyngsta ungneytið var holdablendingur frá Nýjabæ í Vestur-Eyjafjöllum, en fall hans vóg 468,1 kg við slátrun. Hann flokkaðist í UN R3+ og tók Jón Örn bóndi í Nýjabæ á móti viðurkenningu fyrir þennan árangur.

Önnur mál
Brynjólfur í Kolsholtshelli, Reynir á Hurðarbaki, Höskuldur á Stóra Ármóti og Rafn í Hólmahjáleigu ræddu allir um framtíð greiðslumarksviðskipta nú að aflokinni kosningu á meðal kúabænda og afgerandi niðurstöðu hennar um að halda í kvótakerfi í mjólkurframleiðslu .

Fleira ekki gert og fundi slitið um kl. 16.


back to top