5. fundur 2006

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 20. júní 2006 á skrifstofu sambandsins og hófst hann kl, 11 f.h. Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Ragnar Lárusson, Guðni Einarsson, Guðmundur Stefánsson og Egill Sigurðsson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.


Þá var gengið til dagskrár.
1. Staðsetning nýrrar nautauppeldisstöðvar og framtíð lóðar núverandi stöðvar í Þorleifskoti.
Mættir voru til fundarins Haraldur Benediktsson formaður og Sigurgeir Þorgeirsson framkvstj. Bændasamtaka Íslands. Haraldur skýrði  frá undirbúningi að uppbyggingu nýrrar nauta- og nautauppeldisstöðvar, sem ráðgert er að byggð verði að Hesti í Borgarfirði. Farið var yfir gildandi lóðarleigusamning í Þorleifskoti. Sigurgeir ræddi hugsanlega hagkvæmni af því að byggja sameiginlega yfir nautastöð og nautauppeldisstöð. Egill gagnrýndi ákvörðunina um flutning nautauppeldisstöðvarinnar og taldi hana tekna á hæpnum forsendum. Menn voru sammála um að þar sem fyrirhugað er að flytja uppeldisstöðina frá Þorleifskoti, þá þyrfti að finna lausn á viðskilnaðinum þar með tilliti til staðsetningar sauðfjársæðingastöðvarinnar á sömu lóð. Ákveðið var að Þorfinnur og Egill vinni að lausn málsins að hálfu Búnaðarsambandsins.

2. Staðan í riðumálum í Biskupstungum.
Á fundinn kom Runólfur Sigursveinsson, sem aðstoðað hefur bændur í Biskupstungum í þessum málum í framhaldi af samþykkt aðalfundar. Fór hann yfir erfiða stöðu í þessum málum og þung samskipti yfirvalda og þeirra bænda sem lent hafa í riðuniðurskurði. Hefur bændum verið gefið í skyn að þeir fái ekki að taka fé í haust þrátt fyrir heimild í samningum, vegna þess að hreinsun er ekki lokið á öðrum bæjum og reyndar niðurskurði ekki heldur.

3. Úrsögn Sambands garðyrkjubænda.

Kynnt var bréf þar sem Samband garðyrkjubænda segir sig úr Búnaðarsambandi Suðurlands. Ræddar voru þær skyldur sem Búnaðarsambandið hefur við garðyrkjubændur og ákveðið að ræða við sunnlenska garðyrkjubændur um stöðu mála.

4. Einstaklingsmerkingar búfjár.
Rædd var sú mikla vinna og kostnaður sem merkingarskyldan hefur haft í för með sér hjá Búnaðarsamböndunum og ræddi Sigurgeir þann möguleika að fá af sérstökum fjármunum í sauðfjársamningi til þess að standa straum af þessum kostnaði.


Haraldur, Sigurgeir og Runólfur viku af fundi.


5.  Kúaskoðun og kúasýning í Ölfushöll 26.ágúst.
Sveinn skýrði frá undirbúningi kúasýningarinnar. Egill gagnrýndi framkvæmd kúaskoðunar, t.d. spenaskoðun og ágiskun á mældar tölur og ennfremur seina úrvinnslu gagna úr henni. Nokkur umræða spannst um þetta.

6. Hrossasýningar.
Sveinn skýrði frá kynbótasýningum vorsins. Um eitt þúsund hross voru skráð til sýningar. Mikil vinna er samfara sýningunum.

7. Stóra-Ármót.
Sveinn og Þorfinnur skýrðu frá fundi í Stóra-Ármótsnefnd, þar sem fulltrúar Landbúnaðarháskólans eiga sæti ásamt fulltrúum Búnaðarsambandsins. Nokkrir nemendur Búvísindadeildar munu vinna að námsverkefnum sínum á Stóra-Ármóti. Fram kom að á næstu dögum verður prófaður á Stóra-Ármóti sambyggður vagn með múgsaxara til hirðingar í útistæðu.

8. Önnur mál.
Rætt um tryggingar og ákveðið að leita til vátryggingamiðlara til að annast útboð allra trygginga Búnaðarsambandsins, áskilin verði réttur til að taka hvaða tilboði sem er.
Sveinn ræddi starfsmannahald, Þórey Bjarnadóttir hefur verið ráðin tímabundið í stað Fanneyjar Ólafar sem fer fer í barnsburðarleyfi. Þórey mun hafa starfsaðstöðu á Klaustri og á Höfn. Ennfremur skýrði Sveinn stöðu bændabókahaldsins.


Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt og fundi slitið.


Guðmundur Stefánsson, fundarritari


back to top