2. fundur 2013 – haldinn 25. febrúar

Stjórnarfundur BSSL 2/2013

Á fundinn sem haldinn var í fundarsal Búnaðarsambandsins mættu Guðbjörg Jónsdóttir, Erlendur Ingvarsson, og Ragnar Lárussonar og Jón Jónsson. Gunnar Kr. Eiríksson tilkynnti veikindi. Þá sat Sveinn Sigurmundsson fundinn.
1. Sveinn fór yfir samninga við RML og tillögu um skiptingu fjármuna milli búnaðarsambanda og RML. Heilt yfir er um minni fjármunir og þá verkefni til búnaðarsambanda en um var rætt í desember. Starfsmannahlutfall hér á Suðurlandi gagnvart þeim tekjum sem fara af svæðinu til RML er heldur óhagstætt og í framhaldi af því kynnti Sveinn útreikninga sem sýna að launa- og starfsmannakostnaður þess starfsfólks sem fer yfir til RML er mun lægri en þær tekjur sem fara af svæðinu til nýja fyrirtækisins. Stjórn BSSL fer þess á leit við stjórn RML að samnræmi sé milli verkefna og fjármuna. Vegna þess hafa staðið viðræður um að túnkortagerð fari yfir til RML og þá um leið eitt stöðugildi sem færi af BSSL. Þá var rætt um þann kostnað sem hlýst af yfirfærslu verkefna til RML en fyrst um sinn sitja búnaðarsamböndin uppi með verulegan kostnað sem tekur tíma að ná niður. Í ljósi þess óskar stjórn Búnaðarsambandsins eftir því að búnaðarsamböndin fái hlutdeild í þeim 30 milljónum sem í nýgerðum búnaðarlagasamningi er ætlaður til að mæta kostnaði við yfirfærsluna næstu 2 árin. Sveini var falið að koma þessum ábendingum til stjórnar RML og stjórnin bendir jafnframt á þá góðu starfsaðstöðu og starfsumhverfi sem er hér á Selfossi og komi til nýráðningar á starfsfólki er ónýtt aðstaða til staðar.
2. Nýgerðir kjarasamningar frjótækna voru kynntir, en þar kemur fram að þeir hafa hækkað um 2 launaflokka og hálft fæðisfé 6 daga í mánuði vegna fjarveru frá heimili í hádeginu. Þá var um 90 þúsund króna eingreiðslu að ræða vegna þess hve samningarnir hafa dregist. Útreiknað þýðir þetta hækkun á launakostnaði um 2,5 milljónir á ársgrunni
3. Á síðasta ári var um 600 þúsund króna tap á rekstri klaufskurðarbásins. Í ljósi þess var ákveðið að hækka tímagjald fyrir klaufskurð í 5.000 kr og komugjald í 15.000 kr. frá og með 1. mars
4. Sveinn greindi frá störfum laganefndar en í ljósi breytinga hjá Búnaðarsambandinu er þörf á að endurskoða lögin
5. Rætt var um aðalfundinn sem er fyrirhugaður 12. apríl og nú í Vestur-Skaftafellssýslu. Ársrit verður ekki gefið út með sama sniði og áður en reikningum og skýrslum verður dreift á aðalfundi.
6. Fram kom tillaga um að stjórnarfundir yrðu frekar haldnir fyrri hluta vikunnar.
Fleira ekki og fundi slitið
Sveinn Sigurmundsson

 

 

 

 

 

 

 

 

 


back to top