1. fundur 2009 – haldinn 23. janúar

Stjórnarfundur haldinn 23.01.2009.

Fundinn sem haldinn var á Hvolsvelli sátu, Guðbjörg Jónsdóttir formaður, Guðni Einarsson, Ragnar Lárusson, Egill Sigurðsson, Gunnar Eiríksson og Sveinn Sigurmundsson framkvæmdastjóri.

1. Aðalfundur BSSL, staður og stund.
Ákveðið að halda aðalfund föstudaginn 17. apríl að Árhúsum Rangárþingi ytra.

2. Búnaðarþingskosningar.
Eftirfarandi var bókað. Stjórn BSSL hefur ákveðið að kosningar til búnaðarþings sem fram eiga að fara árið 2009 fari fram á aðalfundi BSSL sem haldinn verður að Árhúsum 17. apríl nk.  Þó vill stjórn BSSL benda á að í samþykktum BÍ um kosningu til Búnaðarþings ll. Kafli 13.gr. 3 lið kemur fram eftirfarandi:

Þingfulltrúar skulu kosnir í almennri kosningu. Þó getur stjórn Búnaðarsambands ákveðið og tilkynnt í auglýsingu um aðalfund að kosning þingfulltrúa muni fara fram á fundinum nema fram komi krafa um almenna kosningu ekki síðar en 6 vikum fyrir aðalfund. Þurfa þá að lágmarki annað hvort 10% eða 20 félagsmenn, sem atkvæðisrétt hafa í búnaðarsambandi, að bera fram slíka kröfu þar sem kosnir eru einn eða tveir fulltrúar. Í þeim búnaðarsamböndum, sem kjósa fleiri en tvo fulltrúa, þurfa annað hvort 10% eða 40 félagsmenn, sem atkvæðisrétt hafa, að bera fram slíka kröfu. Komi krafa um almenna kosningu fram í tæka tíð skal stjórn búnaðarsambands auglýsa það.

3. Fréttabréfið.
Samþykkt að dreifa fréttabréfinu með fjölpósti, þannig að því verður dreift á hvert heimili í dreifbýli á svæði BSSL.

4. Staða BSSL og fyrirtækja þess.
Sveinn fór yfir stöðu sjóða og fyrirtækja BSSL um áramót.

5. Nýjungar í starfseminni.
Pétur Halldórsson mætti á fundinn og fór yfir þær nýjungar sem starfsmenn BSSL eru með hugmyndir um í kjölfar þess samdráttar sem fyrir höndum er. Hefur átakið hlotið nafnið Búdrýgindin.  Einnig fór Pétur yfir þá þjónustu sem BSSL bíður uppá varðandi  túnkortagerð.

6. Starfsmannahald.
Margrét Ósk Ingjaldsdóttir ráðunautur  fer í fæðingarorlof til eins árs.  Frá 1. febrúar er búið í samvinnu við Bændasamtök Íslands að ráða Eggert Þröst Þórarinsson í eitt ár í vinnu við rekstrargreiningu og fjármálaráðgjöf.  Fanney Ólöf Lárusdóttir kemur aftur til starfa 9. febrúar.  María Karen Ólafsdóttir kemur til starfa tímabundið við bændabókhaldið þegar kemur að skattframtalsgerð.

7. Lífeyrisskuldbindingar starfsmanna.
Sveinn lagði fram minnisblað varðandi lífeyrisskuldbindingar búnaðarsambandanna og skiptingu þeirra

8. Önnur mál.
Gunnar spurði um gangmáladagatal Kynbótastöðvarinnar en margir kúabændur eru óánægðir með þróun þess.  Sveinn gerði grein fyrir því að  í skoðun væri að Búnaðarsambandið mundi sjá um útgáfu þess á næsta ári.

Fleira ekki gert og fundi slitið.

Guðni Einarsson, fundarritari


back to top