1. fundur 2007

Stjórnarfundur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, haldinn 19. janúar 2007.
Mættir voru stjórnarmennirnir Þorfinnur Þórarinsson, Ragnar Lárusson, Guðni Einarsson,  Egill Sigurðsson, Guðmundur Stefánsson sem ritaði fundargerð og Sveinn Sigurmundsson.


1. Þorfinnur skýrði frá formannafundi Búnaðarsambandanna. Þar var skýrt frá starfi nefndar til að skoða félagsaðild bænda að grunneiningum félagskerfisins. Þar var einnig rætt um hvort stefna ætti að samræmdri gjaldskrá allra búnaðarsambandana fyrir útselda vinnu, hvort ráðunautar einstakra búnaðarsambanda ættu að fara með fyrirlestra á önnur svæði og hvort jafna eigi kostnað við kúasæðingar. Stjórn Bssl hafnar hugmyndum um samræmda gjaldskrá og samstjórn á kúasæðingum. Nokkrar umræður urðu um frásögn Þorfinns og í framhaldi af því urðu umræður um rekstrargreiningar og uppsöfnun þess fjár sem til þeirra átti að ganga. Síðar á fundinum kom Runólfur Sigursveinsson ráðunautur og skýrði stöðu og þróunarmöguleika Sunnu-verkefnisins. Ákveðið var að skrifa stjórn Bændasamtakana um viðhorf Bsssl til málsins og óska eftir fundi með stjórn þeirra.

2. Ritnefnd 100 ára afmælisrits Bssl kom á fundinn, þeir Páll Lýðsson, Eggert Pálsson og Guðmundur Jóhannesson. Páll skýrði frá gangi verksins og lögð voru á ráð um framhaldið. Guðmundur Stefánsson var tilnefndur af hálfu stjórnar til samráðs með ritnefnd. Ritnefnd vék af fundi. Rætt var um útgáfu dagatals á afmælisárinu.

3. Rætt um byggingu flatgryfju eða útiplans á Stóra-Ármóti. Fyrir lágu áætlaðar kostnaðartölur við flatgryfju frá Magnúsi Sigsteinssyni. Ákveðið að fá kostnaðaráætlun um malbikað útiplan fyrir næsta fund.

4. Sveinn skýrði frá endurskipulagningu Bændabókhaldsins, en áhersla er lögð á að það standi undir sér fjárhagslega. Nokkur truflun er á starfsmönnum vegna símafyrirspurna um forritið Búbót.

5. Metþátttaka var í sauðfjársæðingum í vetur. Aukningin var mest utanhéraðs. Nokkur umræða varð um riðumál í Flóa með tilliti til staðsetnigar Sauðfjársæðingastöðvarinnar.

6.  Á fundinn kom Petra Mazette og kynnti nýtt fyrirkomulag við fóðrun og hirðingu hrossa.

7. Kynnt var erindi frá Impru nýsköpunarmiðstöð um verkefni til hvatningar til fjölbreyttrar atvinnusköpunar í sveitum. Samþykkt að leggja til fundaraðstöðu komi til námskeiðs á svæðinu.

8. Bréf sem borist hafa. Kynnt var bréf frá gulrófnabændum um aðgerðir til heftingar útbreiðslu kálæxlaveiki.         

Fleira ekki gert, fundargerð upplesin og samþykkt    

Guðmundur Stefánsson, ritari.


back to top