Vinna á framtíðarstefnu fyrir Landsmót hestamanna

Stefnt er að því að móta stefnu um mótsstaði Landsmóts hestamanna til framtíðar á landsþingi Landssambands hestamannafélaga (LH) á Akureyri í haust. Skipa á svokallaða milliþinganefnd sem á að vinna að stefnumótun í þá veru og skila niðurstöðum í haust. Þetta var ákveðið á formannafundi LH 26. mars síðastliðinn.

Boðað var til formannafundarins einkum vegna óánægju fjölda hestamannafélaga með val á landsmótsstað fyrir árið 2012 en skrifað hefur verið undir samning um að landsmót fari þá fram í Reykjavík á vegum Hestamannafélagsins Fáks. Jónína Stefánsdóttir formaður Stíganda í Skagafirði var ein af forsvarmönnun þeirra félaga sem stóðu að undirskriftasöfnun þar sem þeirri ákvörðun var mótmælt en alls skrifuðu stjórnir 26 hestamannafélaga undir mótmælaskjalið auk þess sem tvö félög önnur sendu mótmæli með tölvupósti að sögn Jónínu. Jónína segir að mikil óánægja hafi verið á fundinum með vinnubrögð stjórnar LH en hins vegar hafi fulltrúar gert sér grein fyrir því að það myndi skaða hreyfinguna enn frekar að halda málinu til streitu. Því hafi verið ákveðið að skipa áður nefnda milliþinganefnd og reyna að koma málum fyrir til framtíðar á landsþingi komandi haust og ná ásættanlegri sátt þar um.


back to top