Vill fá erlenda kúakynið til landsins

„Ég reikna með að við munum láta reyna á innflutning í vetur þó að við séum ekki búin að taka formlega ákvörðun um það,“ sagði Jón Gíslason, bóndi á Lundi í Lundarreykjadal og formaður Nautgriparæktarfélags Íslands, þegar leitað var eftir viðbrögðum hans við skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands sem sýnir að verulegur fjárhagslegur ávinningur er að því að flytja inn fósturvísa til að kynbæta íslenskt kúakyn að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.

Nautgriparæktarfélagið var á sínum tíma stofnað til að gera samanburðarrannsókn á íslensku og erlendu kúakyni, en hætt var við tilraunina.


„Það hefur lengi staðið til hjá félaginu að gera aðra tilraun og þessi skýrsla hvetur mann áfram,“ sagði Jón.


Jón sagði að talsverð vinna væri að undirbúa umsókn og síðan færi hún til meðferðar í landbúnaðarráðuneytinu. „Maður er vanastur því að þar gerist hlutirnir á hraða snigilsins. Umsögn þarf að fara til yfirdýralæknis og fleiri aðila. Þetta er því ekki handan við hornið.“


Ef umsókn frá Nautgriparæktarfélaginu verður samþykkt verða fluttir inn 10-15 fósturvísar (frjóvguð egg). Kýr sem ganga með fósturvísana þurfa að vera í einangrunarstöð. Jón segir að síðan yrði flutt í land sæði úr nautum sem yrðu til úr þessum fósturvísum.


Jón sagði að menn hefðu farið talsvert langt fram úr sér í umræðu um nýtt kúakyn. „Í fyrsta lagi tekur nokkur ár að koma þessu inn í landið. Í öðru lagi held ég að þessi innflutningur yrði aldrei svo mikill að það væri ekki hægt að snúa við blaðinu ef reynslan af þessu yrði ekki góð. Allt tal um að menn séu að fara að skipta um kúakyn er bara tal út í loftið,“ sagði Jón og bætti við að bændur hefðu að sjálfsögðu val um hvort þeir vildu nota erfðaefni úr innfluttu kúakyni.

Morgunblaðið 25. október 2007
Egill Ólafsson,
egol@mbl.is


back to top