Upplýsingaöflun um ágang álfta og gæsa

Í Bændablaðinu í dag er viðtal við Jón Geir Pétursson skrifstofustjóra, á skrifstofu landgæða í Umhverfis- og Auðlindaráðuneytinu, þess efnis að á næstu vikum á að hefja söfnun á upplýsingum frá bændum um ágang áflta og gæsa á ræktarlönd. Ætlunin er að nýta gagnagrunn Bændasamtakan Bændatorgið í gagnaöflun, en þar er framsetning góð og auðvelt að ná út þeim upplýsingum sem þarf.  Í dag er erfitt að meta tjónið þar sem engin skráning hefur verið til staðar. 

Nánar má lesa fréttina í Bændablaðinu bbl.is.

Meira um ágang álfta og gæsa en Búnaðarþing 2014 ályktaði meðal annars um tjón sem álftir og gæsir valda á ræktarlöndum bænda. Í ályktuninni er m.a. farið fram á að safnað verði frekari upplýsingum um tjónið og á grundvelli þeirra gagna verði ákveðið hvort heimildarákvæði verði sett í lög um tímabundna skotveiði á álft og gæs í tilraunaskyni á ræktarlöndum bænda.

Þetta mál sem ítrekað hefur verið til umræðu á búnaðarþingi er nú komið í fastari farveg en áður og samráðshópur Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis, Umhverfisráðuneytis, Umhverfisstofnunar og Bændasamtaka Íslands hefur ákveðið að þegar í vor skuli safnað með skipulegum hætti upplýsingum frá bændum um tjón af völdum þessara fugla. Samstaða hefur náðst um að nýta Bændatorgið, rafræna upplýsingagátt bænda til þess að safna þessum upplýsingum og að þær verði greinanlegar með sama hætti og aðrar upplýsingar um ræktun og tjón. Bændatorgið mun sækja upplýsingar í Jörð.is, skýrsluhaldskerfið í jarðrækt, um ræktað land.
Nú er afar mikilvægt að bændur skrái skipulega hjá sér það tjón sem þeir verða fyrir og komi þeim upplýsingum inn á Bændatorgið þegar opnað hefur verið fyrir skráningu þar í næsta mánuði. Skráning bænda á þessu tjóni er alger forsenda fyrir þeim aðgerðum sem stjórnvöld kynnu að ráðast í, í framhaldinu, hugsanlegum bótum, eða sérstöku leyfi til fælingar. Þátttaka bænda í skráningu á Bændatorginu skiptir þess vegna sköpum fyrir verkefnið.


back to top