Tímarammi stuðnings við bændur á hamfarasvæðum lengdur

Alþingi hefur samþykkt breytingu til bráðabirgða á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum. Breytingin felur í sér framlengingu á þeim tíma sem kúabændur á hamfarasvæðum geta notið stuðnings af beingreiðslum þótt framleiðsla þeirra raskist eða liggi niðri um tíma. Lögin kveða á um að það ákvæði gildi nú til ársloka 2014. Einnig er ráðherra veitt heimild til að víkja frá ásetningshlutfalli sauðfjár á lögbýlum þar sem framleiðsluskilyrði hafa raskast tímabundið vegna náttúruhamfara, jafnframt því sem sauðfjárframleiðendur geta notið óbreyttra greiðslna á grundvelli gæðastýringar þrátt fyrir að framleiðsla minnki eða falli niður um tíma á meðan framleiðsluskilyrði á býlum þeirra eru úr skorðum.

Þá er jafnframt heimild í lögunum til þess að þessi ákvæði nái einnig til framleiðenda á lögbýlum þar sem afurðasala hefur verið bönnuð „af ástæðum sem hlutaðeigandi framleiðandi gat ekki haft áhrif á“. Þetta gerir mögulegt að bregðast við þeim sérstöku aðstæðum sem uppi voru t.d. í Skutulsfirði vegna díoxínmengunar og/eða í öðrum sambærilegum tilvikum sem upp kunna að koma.


Lög um breytingu á lögum nr. 99/1993, um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum, með síðari breytingum.


back to top