Tillögur frá aðalfundi

Á aðalfundi Bssl sem haldinn var í Smáratúni 13. apríl sl. voru eftirfarandi tillögur samþykktar.
Tillaga nr.1 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018 verði kr. 4.000 á hvern félagsmann.
Jóhann Nikuásson vildi halda sig við tillögu stjórnar þar sem gert var ráð fyrir að árgjald yrði 5.000 kr fyrir hvern félagsmann og gerði það að tillögu sinni.
Var sú breytingartillaga borin upp og samþykkt með 17 atkvæðum gegn 14.

Svohljóðandi tillaga var síðan samþykkt samhljóða:
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að árgjald til Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018 verði kr. 5.000 á hvern félagsmann.

Tillaga nr. 2 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við sem svarar einföldum dagpeningum ríkisstarfsmanna þ.e. kr.11.200.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga nr. 3 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000 fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga samkvæmt ríkistaxta og aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs kr. 80 pr.km. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 300.000 á ári.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.

Tillaga nr. 4 – frá fjárhagsnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Búnaðarsambands Suðurlands fyrir árið 2018.
Tillagan borin upp og samþykkt án umræðu með einu mótatkvæði.

Jóhann Nikulásson mælt fyrir tillögum allsherjarnefndar.
Tillaga nr. 5 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands, haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 skorar á Landbúnaðarháskóla Íslands að efla og standa betur að rannsóknum í nautgriparækt á Stóra Ármóti og nýta þá aðstöðu sem þar er til staðar, landbúnaði til hagsbóta og framfara.
Tillagan borin upp og samþykkt samhljóða án umræðu.
Tillagan barst til fundarins frá Búnaðarfélagi Villingaholtshrepps eins og hún var samþykkt.

Tillaga nr. 6 – frá allsherjarnefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 krefst þess að sú starfsemi sem unnin er í Búnaðarstofu Matvælastofnunar verði færð í sjálfstæða stofnun undir stjórn Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis til að styrkja stjórnsýslu í landbúnaði.

Greinargerð með tillögu:
Stjórnsýsla sem um ræðir er m.a. að sjá um framkvæmd búvörusamninga og hagtölusöfnun í landbúnaði. Þar geta starfsmenn búnaðarsambanda nýtt sína staðbundnu þekkingu með því að vinna að verkefnum fyrir slíka stofnun. Einnig má hugsa að allir miðlægir gagnagrunnar sem eru í eigu bænda í dag færist undir stofnunina sem sæi þá um viðhald þeirra og þróun í samstarfi við fagráð viðkomandi búgreina. Ennfremur gætu fleiri verkefni sem unnin eru í ANR átt þarna heima og má í því sambandi nefna umsjón með tollamálum. Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands telur mjög brýnt að styrkja stjórnsýsluna í landbúnaði svo hún þjóni betur hagsmunum atvinnugreinarinnar svo fæðuöryggi landsmanna sé tryggt til langs tíma.
Nokkrar orðalagsbreytingar voru gerðar á tillögunni í meðförum fundarins en hún síðan samþykkt samhljóða eins og hún er rituð hér.

Jón Vilmundarson mælti fyrir tillögum fagmálanefndar.
Á fundinum hafði komið fram ábending um að auka þyrfti sýnileika RML á meðal bænda og því lagði fagmálanefnd fram eftirfarandi tillögu:

Tillaga nr. 7 – frá fagmálanefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 hvetur RML til að kynna starfsemi, þekkingu og vöruframboð fyrirtækisins á meðal bænda með markvissari og sýnilegri hætti en verið hefur.
Tillagan var samþykkt samhljóða án umræðu.

Í umræðum á fundinum hafði komið fram að í stjórn RML ættu sauðfjárbændur þrjá fulltrúa en kúabændur engan. Nefndin lagði því fram eftirfarandi tillögu.

Tillaga nr. 8 – frá fagmálanefnd
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn í Smáratúni í Fljótshlíð 13. apríl 2018 hvetur stjórn Bændasamtaka Íslands til að gæta að sjónarmiðum sem flestra búgreina við tilnefningu til stjórnar RML.

Gunnar á Túnsbergi, stjórnarmaður í BÍ, gerði grein fyrir því að stjórn BÍ skipi í stjórn RML en frekar illa hafi gengið að fá fólk til að sinna stjórnarstörfum.
Eftir nokkrar orðalagsbreytingar var tillagan samþykkt samhljóða eins og að ofan greinir.


back to top