Þjónustumiðstöð opnuð í dag

Á íbúafundi sem haldinn var á Kirkjubæjarklaustri í gærkvöldi vegna ástandsins sem gosaskan úr Grímsvötnum hefur valdið, kom fram að þeir sem væru brunabótatryggðir fengju tjón sitt bætt. Neyðarstigi hefur verið aflétt og nú er einungis svonefnt hættustig í gildi. Í dag ætla svo Almannavarnir að opna þjónustumiðstöð í grunnskólanum en þangað á til dæmis að beina óskum um þrif og annað. Víðtækt hreinsunarstarf heldur áfram í dag.
Fyrstu niðurstöður úr rannsókn á neysluvatni á öskufallssvæðinu á Suðausturlandi benda til að leiðni og sýrustig séu innan eðlilegra marka.

Ljóst er að þó nokkuð tjón hefur orðið á túnum bænda á gossvæðinu. Sums staðar er óvíst um slátt í sumar og allt að tíu sentimetra öskulag á túnunum. Hins vegar þarf að meta ástandið og sjá aðeins til. Tún gætu jafnað sig á næstu vikum en vera má að þau þurfi að plægja og þá mun koma til kasta Bjargráðasjóðs.

Ráðunautar Búnaðarsambandsins munu halda áfram heimsóknum til bænda í dag og meta og gera sér grein fyrir ástandinu og til hvaða aðgerða þurfi að grípa.


back to top