Tekist á um innflutning lifandi dýra

Þessa dagana gætir vaxandi titrings vegna mótunar á samningsafstöðu Íslands gagnvart ESB varðandi landbúnað og matvælaöryggi. Utanríkismálanefnd hefur ekki náð samstöðu um að setja fram kröfu gagnvart Evrópusambandinu um að ekki verði heimilað að flytja inn lifandi dýr til landsins. Bændur óttast líka að ekki verði gerð krafa um tollvernd í aðildarviðræðunum við ESB. Stjórnvöld vinna nú mótun afstöðu um hvernig þau ætla að halda á landbúnaðarmálum gagnvart ESB. Forystumenn bænda finna vel fyrir því að það styttist í að menn þurfi að taka alvarlegar ákvarðanir. „Þetta er ekki lengur einhver samkvæmisleikur Samfylkingarinnar heldur standa menn frammi fyrir alvörunni,“ sagði Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtakanna, á haustfundi Landssambands kúabænda á Hvanneyri.

Tekist á um matvælaöryggi í utanríkismálanefnd
Eiginlegar samningaviðræður um landbúnaðarmál við ESB eru ekki hafnar, en ESB sendi íslenskum stjórnvöldum bréf á síðasta ári þar sem kom fram að þeir teldu Ísland ekki tilbúið til viðræðna um landbúnaðarmál. Gerð var krafa um að Ísland setti fram tímasetta áætlun um hvernig stjórnvöld ætluðu að standa við skuldbindingarnar sem aðildarsamningur fæli í sér. Þeirri áætlun var skilað í sumar og í haust samþykkti ESB áætlunina.
 
Áætlunin felur í sér að Ísland þarf ekki að gera breytingar á stofnunum eða löggjöf áður en samningaviðræðum við ESB er lokið, en stjórnvöld verða hins vegar að segja hvernig þau ætla að standa að breytingum sem samningurinn felur í sér og hvenær þær taka gildi.
 
Nú er komið að næsta skrefi sem er að móta samningsafstöðu Íslands varðandi þá kafla viðræðnanna sem snúa að landbúnaðinum en það eru kafli 11 um landbúnað og kafli 12 um matvælaöryggi o.fl.
 
Haraldur segir að drög að samningsafstöðu um matvælaöryggi hafi verið lögð fyrir utanríkismálanefnd í júní og hefðu þau ekki enn verið afgreidd. Hann sagði að upphafleg drög hefðu verið „handónýtt plagg“, en það hefði lagast mikið síðan. Enn vantaði þó inn í skjalið grundvallaratriði um að ekki mætti flytja lifandi dýr til Íslands. Haraldur sagði að þarna væri varnarlína sem ekki mætti stíga yfir. Ef íslensk stjórnvöld treystu sér ekki til þess að gera þessa kröfu gagnvart ESB, hvers væri þá að vænta í öðrum málum, t.d. varðandi sjávarútveg.
 
Haraldur sagði að formaður samninganefndar Íslands hefði sagt að krafan varðandi bann við innflutningi dýra væri skrifuð inn í kröfugerð Íslands með öðrum hætti, en greinilegt var á Haraldi að hann treysti því ekki. Hann sagðist fagna því að stjórnmálamenn í utanríkismálanefnd hefðu ekki gefið eftir í þessu máli. Þegar væri nú búið „að tosa þetta út fyrir varnarlínur Bændasamtakanna“ eins og þær voru kynntar í fyrravetur.
 
Ekki gerð krafa um tollvernd?
Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, sagðist telja að vinna við mótun samningsafstöðu Íslands í landbúnaðarmálum væri „fálmkennd í meira lagi“.  Formaður samningahópsins hefði talað um að leggja upp með opna samningsafstöðu. Ekki væri gert ráð fyrir að gerð yrði krafa um tollvernd fyrir íslenskan landbúnað sem er meginkrafa Bændasamtakanna í aðildarviðræðunum.
 
Haraldur gagnrýndi Steingrím J. Sigfússon, atvinnuvegaráðherra, á fundinum. Hann hefði komið sér hjá því að svara því hvort gerð yrði krafa um tollvernd í viðræðunum. Forveri hans í landbúnaðarráðuneytinu, Jón Bjarnason, hefði hins vegar lýst yfir afdráttarlausum stuðningi við kröfu Bændasamtakanna um tollvernd.
 
Það eru mörg mál sem tekist er á um þegar verið er að móta samningsafstöðu Íslands. Eitt mikilvægt atriði er að ESB hefur tekið ákvörðun um að afnema kvótakerfi í mjólkurframleiðslu, en hér á landi er kvótakerfið grundvallaratriði í skipulagi framleiðslunnar. Annað atriði er hversu mikla áherslu íslensk stjórnvöld eigi að leggja á að styrkja atvinnugreinar eins og svínarækt og kjúklingaframleiðslu.
 
Tollverndin er að veikjast
Þó að bændur hafi mikla áhyggjur af viðræðunum við Evrópusambandið hafa þeir ekki síður áhyggjur af því að tollverndin sé að veikjast, óháð því hvort Ísland gengur inn í ESB eða ekki. Ástæðan er sú að tollar á innfluttar landbúnaðarvörur miðast við tilteknar krónutölur sem ekkert hafa breyst í mörg ár. Verðbólga liðinna ára hefur því rýrt þessar tölur. Ef gengi krónunnar styrkist verður innflutningur á landbúnaðarvörum hagkvæmari og reikna má með að áhugi á honum glæðist.
 
Haraldur segir að það sé orðið þannig að það geti t.d. borgað sig fyrir pitsuframleiðanda að flytja inn ost ofan á pitsurnar á fullum tollum. Það sé ekki langt í að þessi innflutningur á unnum mjólkurvörum verði ráðandi í verðlagningu á mjólkurvörum. Þar með skipti ákvarðanir verðlagsnefnda engu máli lengur. Um 60% af markaði fyrir mjólkurvörur eru ostar, smjör og aðrar unnar vörur sem hafa langt geymsluþol.
 
Náðu ekki fram hækkun á tollvernd
Haraldur sagði að Norðmenn væru með sama tollvernadrkerfi og Íslendingar. Tollverndin hefði verið að veikjast þar eins og á Íslandi vegna breytinga á verðlagi og gengi. Norsk stjórnvöld hefðu tekið ákvörðun um að hækka krónutölur í tollalögum. Í tengslum við gerð búvörusamninga í haust hefði verið þrýst á stjórnvöld að hækka krónutölurnar og þar með tollverndina. Hann sagði að Steingrímur J. hefði stutt þetta en Samfylkingin hefði ekki mátt heyra á það minnst.
 
Búvörusamningarnir voru framlengdir og gilda nú til ársloka 2016. Haraldur sagði að stjórnvöld hefðu krafist þess að í samningana yrði sett ákvæði um að ef Ísland gengi í ESB myndu þeir falla úr gildi. Á það hefðu bændur orðið að fallast.


Heimild: mbl.is 21. október 2012, Egill Ólafsson egol@mbl.is


back to top