Tap vegna hóstapestarinnar gæti numið um milljarði króna

Tjón vegna hóstapestar í hrossum sem upp kom í fyrra gæti numið um miljjarði króna. Samdráttur í útflutningi einn og sér olli tapi upp á 260 milljónir ef horft er til meðalverðs og útflutnings árið 2009. Tap vegna samdráttar í ferðaþjónustu var einnig gífurlegt þó ekki sé hægt að ná utan um umfang þess en Samtök ferðaþjónustunnar hafa giskað á að tap ferðaþjónustunnar hafi getað numið allt að 800 millj. kr. Þetta kom fram í svari Jóns Bjarnasonar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar þingmanns Framsóknarflokksins á Alþingi í vikunni.

Hóstapestin lamaði rekstur fjölda tamningastöðva, sýningar voru felldar niður og þeim frestað, járningamenn misstu tekjur og umtalsverður kostnaður hlaust af dýralæknaþjónustu.
Í svari ráðherra kemur fram að líkur séu til þess að þau hross sem tekið hafa veikina hafi öðlast ónæmi. Þó hafi eitthvað verið um vægar endursýkingar. Því sé líklegt að veikin muni fyrst og fremst leggjast á unghross í framtíðinni og þurfi hrossabændur að vera á verði þess vegna. Gripið hafi verið til margþættra aðgerða til að koma í veg fyrir að faraldur af þessu tagi komi upp aftur og einnig til að bregðast við ef svo verði.

Svar sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra við fyrirspurn Sigurðar Inga Jóhannessonar um smitandi hóstapest í hestum


back to top