Sundríða öll sunnlensk vatnsföll

Hópur hestamanna er nú á leið ríðandi frá Höfn í Hornafirði á Selfoss. Væri það vart í frásögur færandi nema fyrir þær sakir að ætlunin er að fara yfir öll vatnsföll á leiðinni með gamla laginu, þ.e. á vaði eða sundríðandi ef þarf. Hermann Árnason frá Stóru-Heiði í Mýrdal, frjótæknir hjá Kynbótastöð Suðurlands fer fyrir hópnum en með honum í för eru sex ferðafélagar sem vanir eru löngum dagleiðum.

Hópurinn lagði af stað frá Höfn síðastliðið þriðjudagskvöld og komu sjö reiðmenn með 44 hesta að Svínafelli í Öræfum í gær. „Við riðum Hornafjarðarfljót fyrst, svo Kolgrímu og síðan Breiðamerkurósinn og Fjallsá,“ sagði Hermann. Í dag á að ríða Skeiðará, Gígju og Núpsvötn. Síðan Skaftá, Kúðafljót og Múlakvísl. Þá verður áð í nokkra daga á Heiði í Mýrdal. Stefnt er að því að ljúka reiðinni um hvítasunnuhelgina.

Hermann sagði reiðmennina alla duglega ferðamenn og vana löngum dagleiðum. Fjórir þeirra eru ættaðir frá Pétursey í Mýrdal. Þeir eru yfirleitt í hefðbundum reiðfatnaði en tveir prófuðu í gær blautbúning og þurrbúningsbuxur. Nestið í ferðinni er þjóðlegt. „Allt grænmeti er bannað. Við erum með hangikjöt, svið, kjötsúpu, baunasúpu, súrt slátur, lifrarpylsu og hrátt hangikjöt – verulega kjarngott fæði,“ sagði Hermann.

Meðfylgjandi myndir tók Jónas Erlendsson í Fagradal klukkan fjögur í fyrrinótt þegar hópurinn var á leið yfir Jökulsá á Breiðamerkursandi, við útfallið neðan við Breiðamerkurlón. Að sögn heimamanna mun það vera í fyrsta skiptið sem þarna er sundriðið en þjóðleiðin var á jökli fyrir innan lónið einmitt til að forðast þann farartálma sem Jökulsáin er – eða kannski var – talin vera.




Byggt á frásögn Morgunblaðsins þann 22. maí 2009


back to top