Stjórnarfundur HS 3/2012

Fundargerð
Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands

Stjórnarfundur Hrossaræktarsamtaka Suðurlands var haldinn í fundarsal Búnaðarsambands Suðurlands, þann 27. ágúst 2012, kl. 17:30. Fundinn sátu: Sveinn Steinarsson, María Þórarinsdóttir, Sigríkur Jónsson, Birgir Leó Ólafsson, Ólafur Þórisson, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Halla Eygló Sveinsdóttir.

Dagskrá:
1. Fundarsetning
2. Stjórn skiptir með sér verkum
3. Haustfundur
4. Önnur mál

1. Fundarsetning
Sveinn Steinarsson setti fundinn og bauð menn velkomna. Höllu Eygló falið að rita fundargerð.

2. Stjórn skiptir með sér verkum
Birgir Leó Ólafsson varaformaður, Sigríkur Jónsson ritari, María Þórarinsdóttir gjaldkeri, Ólafur Þórisson meðstjórnandi. Varastjórn skipa Katrín Ólína Sigurðardóttir, Þórdís Erla Gunnarsdóttir og Eysteinn Leifsson.
Aðalfundurinn var 28. mars og var fámennur. Stjórn sammála um flýta næsta aðalfundi og halda hann síðasta lagi í febrúarlok í þeirri von að fundurinn verði betur sóttur en síðasti aðalfundur.

3. Haustfundur
Stefna að haustfundi miðvikudaginn 17. október. Formanni falið að ræða við Sigurbjörgu Þorsteinsdóttur og óska eftir kynningu á stöðu mála varðandi rannsóknina á sumarexemi. Formanni einnig falið að hafa samband við Guðlaug Antonsson varðandi erindi um hans framtíðarsýn á ræktun íslenska hestsins. Starfshópurinn sem skipaður var á síðasta aðalfundi, til að fjalla um aðkomu kynbótahrossa að  landsmótum, getur vonandi komið með einhverjar niðurstöður. Sveinn hvatti fundarmenn til að koma með hugmyndir um það sem fjalla mætti um á haustfundi samtakanna.

4. Önnur mál
Stjórnin ræddi um hvernig tiltekist hefði með LM2012. Almennt voru menn á því að það hefði að mörgu leyti tekist vel. Áhyggjuefni að miklu færra fólk mætti á mótið en reiknað var með. Getur verið að það sé neikvætt að vera með beina útsendingu í sjónvarpi? Kynningin á hrossum sem ekki náðu verðlaunasætum á mótinu var misheppnuð, alltof fáir mættu með hross og því kom heilmikil eyða í dagskrána á besta tíma dagsins. Hugmyndin engu að síður góð en þarf að útfæra á annan hátt. Spurning hvort það á að auðvelda klárhrossum að komast inn á landsmót með einhverjum hætti? Nú á eftir kl. 18:30 mun starfshópurinn funda og verður fróðlegt að heyra hljóðið í honum.

Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 18:30.
/Halla Eygló Sveinsdóttir


back to top