Stjórn LK lýsir óánægju með frystingu kvótaviðskipta til 1. des.

Stjórn Landssambands kúabænda samþykkti í síðustu viku bókun um nýja reglugerð sjávarútvegs- og landbúnaðrráðherra um mjólkurkvótamarkað. Þar kemur fram ánægja með uppsetningu miðlægs markaðar með mjólkurkvóta en óánægja með frystingu á viðskiptum með mjólkurkvóta fram til 1. des. n.k. Stjórn LK vill flýta fyrsta markaði til 15. september n.k. Þessi óánægja er mjög í takt við raddir kúabænda víðs vegar um land.
Bókunin fer hér á eftir:

„Stjórn LK lýsir ánægju sinni með að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hafi komið til móts við óskir aðalfundar Landssambands kúabænda varðandi uppsetningu á miðlægum markaði með greiðslumark í mjólk. Með tilkomu markaðarins hafa tengslin milli kaupenda og seljenda verða rofin, en það mun að öllum líkindum auka sýnileika og jafnræði í þessum viðskiptum. Jafnframt væntir stjórnin þess að tilkoma útreiknings á jafnvægisverði í þessum viðskiptum stuðli að eðlilegri verðmyndun en verið hefur.


Stjórn LK telur þó ámælisvert að með setningu reglugerðar vegna markaðarins séu öll viðskipti með greiðslumark í mjólk á yfirstandandi verðlagsári stöðvuð. Ljóst er að nokkur hópur aðila hugsaði sér til hreyfings í þessum viðskiptum á seinni hluta verðlagsársins eins og heimilt var samkvæmt gildandi reglum.  Verði ekki heimilt að stunda greiðslumarksviðskipti fyrr en 1. desember getur það valdið þessum aðilum verulegum fjárhagslegum skaða, þar sem þau viðskipti gilda einungis vegna komandi verðlagsárs. Eins er sú hætta fyrir hendi að viðskiptabannið leiði til þess að of lítil mjólk berist til vinnslu á síðustu mánuðum ársins. Stjórnin leggur því þunga áherslu á að fyrsta uppboð kvótamarkaðarins verði ekki seinna en 15. september n.k. og telur því ekkert til fyrirstöðu hvað framkvæmdina varðar. Ákvörðun um slíkt þarf þó að liggja fyrir hið allra fyrsta.


Stjórn LK bendir á að uppsetning kvótamarkaðarins mun hafa verulegar breytingar í för með sér í þessum viðskiptum og því brýnt að þar náist strax upp trúverðug viðskipti. Í ljósi þess er afar mikilvægt að allt það greiðslumark sem flyst milli lögbýla í þessum viðskiptum fari í gegn um markaðinn og að ekki verði um frekari ígrip að ræða.

Í fréttatilkynningu ráðuneytisins þar sem umrædd reglugerð var kynnt, er ítrekað vísað til ályktanna aðalfundar LK. Var þar bæði um að ræða ályktun fundarins varðandi uppsetningu kvótamarkaðarins, sem og lítinn hluta annarar sem snéri að öðru máli. Það vekur undrun stjórnar að ráðuneytið skuli vitna í ályktanir aðalfundar samtakanna án þess að forsvarmenn þeirra hafi fengið tækifæri til að kynna ráðherra hvað að baki þeim liggur, þrátt fyrir ítrekaðar óskir þar um.


Stjórn LK leggur ríka áherslu á að eiga gott samstarf við ráðuneytið um þetta mál í framhaldinu sem og önnur þau mál er greinina varðar.“


 


back to top