Standi vörð um bann við innflutningi hrossa

Búnaðarþing skorar á stjórnvöld að standa vörð um bann við innflutningi á lifandi hrossum og erfðaefni þeirra, í aðildarviðræðum við Evrópusambandið.
„Hrossaræktin hefur þá sérstöðu í íslenskum landbúnaði að byggja afkomu sína að miklu leyti á útflutningi lifandi dýra. Mikilvæg forsenda þess er heilbrigði íslenska hrossastofnsins. Vegna langrar einangrunar er stofninn afar móttækilegur fyrir nýjum smitefnum. Því er nauðsynlegt að viðhafa mun strangari sjúkdómavarnir en gert er ráð fyrir í reglum Evrópusambandsins,“ segir í greinargerð sem fylgir ályktuninni.

Í ályktun Búnaðarþings sem samþykkt var í dag segir að undanþága frá þessari grundvallarreglu Evrópusambandsins verði byggð á ítarlegu og rökstuddu áhættumati á þeirri heilsufarslegu ógn sem hlytist af slíkum innflutningi.


Vísað er til nýlegra dæma um að væg smitefni geta valdið faraldri í hrossum hér á landi, ógnað hefðbundnu hestahaldi og allri atvinnustarfsemi sem tengist hrossum. Ætla megi að alvarlegustu þekktu hrossasjúkdómarnir geti valdið umtalsverðum afföllum og höggvið óbætanleg skörð í hrossastofninn. Þá yrði kostnaður vegna nauðsynlegra bólusetninga afar þungbær fyrir hrossaræktina.


back to top