Staðið verður við búvörusamninga

Flest bendir til að búvörusamningar bænda verði ekki skertir frekar á komandi fjárlögum en verulegs niðurskurðar sé að vænta í nýjum búnaðarlagasamningi. Með því er eftir megni reynt að komast hjá frekari skerðingu á kjörum bænda. Þetta kemur fram á vef Bændablaðsins og er að sögn haft eftir heimildum innan úr stjórnkerfinu.

Þá stendur sú ætlun stjórnvalda að skera frekar niður framlag til Lífeyrissjóðs bænda í samhengi við þá stefnu að verja skuli búvörusamninga. Ljóst má þó vera að sú breyting mun rýra kjör bænda.


Verður búnaðarlagasamningur skorinn niður?
Búnaðarlagasamningurinn rennur út um næstu áramót en hann er gerður milli stjórnvalda og Bændasamtakanna um verkefni á vegum bænda. Innan búnaðarlagasamnings fellur  ráðgjafarþjónustu og verkefni í búfjárrækt, jarðabótaverkefni og nýsköpunarverkefni. Ef búnaðarlagasamningur verður skorinn verulega niður mun það hafa víðtæk áhrif á þróunarverkefni bænda og rágjafarstarf.


Bændasamtökin leggja áherslu á að búvörusamningar verði varðir
Haraldur Benediktsson formaður Bændasamtakanna sagði í samtali við blaðið að hann gæti ekkert staðfest um efnislegar breytingar á búvörusamningum. „Bændasamtökin hafa alltaf lagt áherslu á að það sé forgangsmál að verja búvörusamningana og vonandi tekst það. Það vita allir að búnaðarlagasamningurinn er opinn og að viðræður standa yfir. Meira er ekki hægt að segja um málið á þessum tímapunkti“.


 


back to top