Staða landbúnaðar aldrei sterkari

Staða landbúnaðarins meðal þjóðarinnar hefur sjaldan eða aldrei verið sterkari, segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Hann kynnti nýja könnun um afstöðu þjóðarinnar til landbúnaðarins og til Evrópusambandsaðildar við setningu Búnaðarþings í dag.

Haraldur segir Bændasamtökin fylgjast vel með straumum í samfélaginu og liður í því sé Gallup-könnun sú sem nú var kynnt. Hún sýni að nærri 96 prósent þjóðarinnar hafi jákvæða afstöðu til landbúnaðarins og yfirgnæfandi meirihluti vill áfram tryggja innlenda matvælaframleiðslu landbúnaðarins. Þá sýni könnunin að afgerandi meirihluti þjóðarinnar sé andvígur aðild að Evrópusambandinu. Haraldur segir niðurstöðurnar staðfesta það sem bændur hafi rækilega fundið hjá þjóðinni. Hún kunni mjög vel að meta sinn landbúnað og staða hans meðal þjóðarinnar hafi sjaldan eða aldrei verið sterkari. Könnunin hefur ekki síður gildi í efnahagsþrengingum, sem allmargir bændur glíma nú við. Hún segir okkur að það skipti máli að það sé til dæmis greitt úr málum bænda eins og heimilanna, segir Haraldur. Fólki finnist það skipta máli að vera ekki öðrum háð um matvæli og finnist mikilvægt að verja störf landbúnaðarins. Landbúnaðurinn skapi mikil verðmæti, framleiði matvæli sem ella þyrfti að greiða fyrir að flytja inn, 35 til 40 milljarða króna á ári.


Bændur geta verið tiltölulega bjartsýnir, segir Haraldur, aftur komi vor í dal, eins og yfirskrift þingsins segir, vandamál séu að mestu heimatilbúin. Þau séu komin til vegna aðildarumsóknar að Evrópusambandinu, meðal annars. Hugur þjóðarinnar standi til þess að vera áfram sjálfstæð og hafa öflugan íslenskan landbúnað.

Skoðanakönnun Capacent


back to top