Sömu tekjur þó búið sé helmingi stærra

Finnski kornbóndinn Anders Winqvist hefur sömu tekjur og fyrir inngöngu landsins í Evrópusambandið, þrátt fyrir að 70 hektara býli hans sé 50 prósent stærra en fyrir inngönguna. Áður voru 10 bændur í nágrenninu, nú eru þeir aðeins þrír.
Að sögn Winqvist er skýringin einföld. Framlög Evróusambandsins til landbúnaðarins eru svo miklu lægri en opinberu styrkirnir áður að nauðsynlegt var að stækka býlin og helst að tvöfalda framleiðsluna til að fá sömu framlög og áður var.

Hlutur styrkja frá sambandinu í innkomu Winqvist, sem ræktar hveiti og malt, er á bilinu 50 til 60 prósent og þarf hann að gera grein fyrir hektarafjöldanum og hvað verið sé að rækta á landi hans. Að auki fari fulltrúar sambandsins yfir býlin á fimm ára fresti. Finni eftirlitsmenn misfellu í rekstrinum sé bændum refsað á þann hátt að næsta ár eru þeir ýmist aðvaraðir eða gengið svo langt að draga úr framlaginu til þeirra um einhver prósentustig.


Eins og gefur að skilja hefur þróunin leitt til fækkun bænda, hvort sem þeir hafa búfénað eða ekki, og segir Winqvist eina afleiðinguna þá að dregið hafi úr samtakamættinum. Það dragi úr hópeflinu þegar færri geti beit sér í réttindamálum bænda.


„Markaðirnir sem kaupa vörurnar af bændunum fá mestan hluta hagnaðarins af framleiðslunni. Markaðsmennirnir geta sagt við bændurna að ef þeir eru ekki ánægðir geti þeir allt eins keypt vörur frá Danmörku eða Þýskalandi,“ segir Winqvist.


Óvissa um framtíðina
Aðspurður um hvernig það sé að stunda búskap í þessu umhverfi segir Winqvist óvissu ríkja um landbúnað í heiminum, ekki aðeins innan ESB. Að sama skapi sé óvíst hver staða finnsks landbúnaðar væri ef landið hefði staðið utan við sambandið.


„Þegar finnskir bændur greiddu atkvæði um inngönguna í ESB mátti greina áhyggjur og ótta í þeirra röðum það hvert framhaldið yrði. Staðan er nú þannig að finnskir bændur geta ekki gert öruggar fjárfestingaráætlanir fyrir framtíðina,“ segir Winqvist og bendir á að nú sé aðeins ljóst hvert framhaldið verði fram að 2013, þegar núverandi landbúnaðartímabili ESB lýkur. Til að auka á óvissuna þá sé óvíst hversu lengi hvert tímabil vari og hvort og þá hvaðabreytingar verði gerðar á landbúnaðarstefnu sambandsins.


Inntur eftir afstöðu sinni til styrkjakerfis sambandsins kveðst Winqvist telja að færa megi rök fyrir því að miða eigi greiðslur í samræmi við framleiðni bænda, enda sé ljóst að í núverandi umhverfi fái síður duglegir bændur sömu styrki og aðrir miklu iðnari og vinnusamari.


Hitt beri að hafa í huga að ESB sé bandalag sem nái suður til Miðjarðarhafsins. Því sé ósanngjarnt að bera saman framleiðni í suður- og norðurhluta álfunnar. Framleiðnin sé minni í Finnlandi en á heitari svæðum Evrópu. Uppskerubrestur geti valdið þungum búsifjum í Finnlandi og segir Winqvist að framlagið frá ESB mildi höggið ef hart er í ári. Framlagið sé einskonar trygging.


Spurður um skoðun sína á þeirri þróun að framleiðslueiningarnar fari stækkandi segir Winqvist takmörk fyrir því hvað einn bóndi komist yfir mikla vinnu þegar einingarnar eru komnar í þennan stærðarflokk.


Stærri jarðir kalli á afkastameiri vélbúnað og aðstoðarfólk. Þróunin sé að hans mati ekki alslæm.


Skrifræðið til trafala í fyrstu
Hvað snertir skrifræðið sem fylgt hafi inngöngunni segir Winqvist það aðeins hafa verið vandamál til að byrja með þegar bændur voru ekki vissir um hvernig þeim bæri að bera sig að við útfyllingu eyðublaða.


Þetta hafi síðan komist upp í vana og bændur aðeins þurft að setja inn upplýsingar á kort og önnur skráningargögn í upphafi. Að því loknu hafi verið nóg að uppfæra gögn og tölur í tölvureiknum.


Starfsumhverfið líkist því um margt hlutabréfamarkaði, þar sem fylgjast þurfi með verðbreytingum á hverjum degi á tölvuskjánum. Landbúnaðurinn hafi því færst í þá átt að svipa til annarra greina viðskipta.


Winqvist dregur sýn sína á framtíð finnsks landbúnaðar innan ESB á þann veg að hvernig sem veröldin velti sér og snúi þurfi „á endanum allir að borða“.


back to top