Skýrsla um eflingu kornræktar kynnt á opnum fundi 15. mars

Opinn kynningarfundur um skýrslu um eflingu kornræktar verður haldinn á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík miðvikudaginn 15. mars kl. 11. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun setja fundinn.

Mikilvægi innlendrar kornræktar hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggis síðustu misseri og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að unnin verði aðgerðaáætlun um eflingu kornræktar á kjörtímabilinu. Matvælaráðherra ákvað því síðastliðið sumar að semja við Landbúnaðarháskóla Íslands um að vinna drög að slíkri áætlun.

Markmið verkefnisins var einnig að kanna fýsileika kornsamlags og skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu. Við vinnslu áætlunarinnar voru tekin viðtöl við nokkra tugi sérfræðinga og bænda á Íslandi og í nágrannalöndunum og samráð haft við alla helstu kaupendur á korni auk þess sem haldnir voru opnir bændafundir.

 


back to top