Skuldir í íslenskum krónum eða erlendum myntum

Það var trúlega árið árið 2003 sem það opnaðist sá möguleiki hér á landi að almenningur gæti tekið lán í erlendri mynt í viðskiptabönkum sínum. Í upphafi buðu viðskiptabankarnir aðeins upp á ákveðnar myntkörfur þar sem alla jafna var blandað saman 4-5 gjaldmiðlum en síðar var viðskiptavinunum sjálfum gefinn kostur á að velja hvaða mynt eða myntir væru að baki láninu. Vaxtakjör erlendra lána lána voru mun betri en á íslensku láni og mjög freistandi fyrir marga að taka slík lán fremur en íslensk verðtryggð lán, jafnvel þó einhver gengisáhætta væri til staðar.

Mesti vaxtamunurinn var ef tekið var lán eingöngu í japönskum yenum en í töluverðan tíma hafa LIBOR vextir á yenum verið um eða innan við 1%. Flestir tóku þó a.m.k. tvær myntir til að minka gengisáhættuna og trúlega var algengast að menn tækju saman japönsk yen og svissneska franka, enda lægstu vextirnir á þessum myntum.

Töluverð aukning var í að bændur tækju erlend lán þegar samsetning erlendu lánanna var gefinn frjáls. Á síðari hluta ársins 2006 varð allnokkur aukning í að bændur tækju slík lán og nánast allir bændur sem þurftu á lánsfé að halda tóku erlend lán á árinu 2007 og allt fram á þetta ár eða þar til bankarnir fóru að draga í land.  Ýmist voru menn að fjármagna nýframkvæmdir eða vélakaup með slíkum lánum en einnig var þónokkuð um að bændur breyttu íslenskum verðtryggðum lánum enda munurinn á greiðslubyrði verulegur.

Við gengishrun íslensku krónunnar nú á haustmánuðum hækkuðu erlendu lánin að sjálfsögðu verulega. Þó menn hafi vitað að gengi krónunnar hafi verið óeðlilega sterkt á liðnum árum er þó óhætt að fullyrða að enginn bjóst við þvílíku hruni gengisvísitölunnar.

Var rangt að taka erlend lán?
Þetta er trúlega sú spurning sem margir eru að spyrja sig að þessa dagana. Til að reyna að svara spurningunni er trúlega best að taka raunverulegt dæmi:

Ónefndur rekstraraðili tók samtímis tvö lán í febrúar 2008 bæði til 20 ára. Annað lánið er hefðbundið  íslenskt verðtryggt lán en hitt lánið er í erlentum myntum, að megninu til í svissneskum frönkum og japönskum yenum en evrur að litlum hluta.  Hvort lán um sig var að upphæð 20 milljónir króna.  Gengisvísitalan þegar erlenda lánið var tekið var 126 stig. Greiðslubyrði íslenska lánsins var  á fyrsta greiðsluseðlinum í mars 228 þúsund krónur en erlenda lánið hljóðaði upp á 138 þúsund krónur. Þann 20. október sl. hljóðaði greiðslubyrði íslenska lánsins upp á 238 þúsund krónur en erlenda lánið var komið í 225 þúsund krónur. Höfuðstóll íslenska lánsins var á sama tíma 21,8 milljónir króna en höfuðstóll erlenda lánsins stóð í 33 milljónum króna.

Niðurstaðan er því einfaldlega sú að þrátt fyrir að höfuðstóll erlenda lánsins hafi hækkað verulega er greiðslubyrði þess núna fyrst að jafnast á við greiðslubyrði þess íslenska. Það getur því varla hafið verið rangt að velja það lán sem hafði léttari greiðslubyrði en það var örugglega rangt að gera ekki ráð fyrir talsverðum sveiflum á höfuðstól og þar með á greiðslubyrði erlendra lána. Aðalatriðið við erlent lán er að þola sveiflurnar upp á við og njóta þeirra þegar þær eru niður á við. Sniðugir lántakendur reyndu því að jafna sveiflurnar með því að greiða meira en þurfti þegar gengið var sterkt til að hafa borð fyrir báru þegar gengið væri veikt – eins og núna… Gallinn er hins vegar augljóslega sá að þegar höfuðstóll erlenda lánsins hækkar svona mikið getur það farið yfir þau veð sem sett voru fyrir viðkomandi láni eða lánum.

Menn skulu þó muna að höfuðstóll erlendra lána lækkar þegar gengið styrkist á ný en verðbætur vísitölutryggrða lána ekki nema verðhjöðnun verði í stað verðbólgu. Slíkt er afar ólíklegt að gerist á næstunni…


back to top