Sigurgeir Sindri gefur kost á sér sem formaður BÍ

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Stafholtstungum, hefur ákveðið að gefa kost á sér sem formaður Bændasamtaka Íslands en nýr formaður verður kosinn á komandi búnaðarþingi í byrjun mars. Þá mun Haraldur Benediktsson láta af formennsku eftir níu ára setu. Sindri er fyrrum formaður Landssamtaka sauðfjárbænda og hefur setið á búnaðarþingi síðustu tólf ár.
Að sögn Sigurgeirs Sindra er ákvörðunin tekin vegna þess að hann hafi mikla trú á íslenskum landbúnaði og möguleikum hans. „Það hafa margir haft samband við mig og hvatt mig til framboðs, eftir að í ljós kom að Haraldur hygðist láta af formennsku. Það eru bændur alls staðar af landinu, úr mörgum búgreinum. Ég er þakklátur fyrir þann stuðning og með hann í farteskinu ákvað ég að láta slag standa. Íslenskur landbúnaður býr yfir geysilegum möguleikum og ég hef mikla trú á honum. Þetta er bara spurning um að nýta tækifærin, sem hafa kannski aldrei verið jafn mörg. Það er ljóst að það þarf að auka matvælaframleiðslu á heimsvísu og við höfum mikla möguleika á því.“, er haft eftir Sigurgeiri Sindra á bbl.is.

Sigurgeir Sindri segir jafnframt að talsverð breyting verði á Bændasamtökunum á næstu misserum, með breytingu á ráðgjafarstarfsemi í landbúnaði. „Það eru spennandi tímar framundan og mikilvægt að þétta raðir bænda í hagsmunagæslu fyrir íslenskan landbúnað, hvar á landinu sem þeir kunna að búa og hvaða búgrein sem þeir stunda. Haraldur Benediktsson hefur í sinni formannstíð, ásamt samstarfsfólki sínu, lyft grettistaki í þeim efnum og mikilvægt að halda því góða starfi áfram. Það mun ég gera nái ég kjöri.“
Sigurgeir Sindri er fæddur í Reykjavík 5. apríl 1974. Hann er giftur Kristínu Kristjánsdóttur og hafa þau búið í Bakkakoti frá árinu 1994. Þau eiga tvö börn, Lilju Rannveigu og Kristján Franklín. Sigurgeir Sindri er búfræðingur frá Hvanneyri þar sem hann lauk námi 1995. Hann hefur frá árinu 2006 stundað viðskiptafræðinám við Háskólann á Bifröst og tók hluta þess í skiptinámi við Manitobaháskóla í Winnipeg í Kanada. Hann hefur sömuleiðis starfað við stundakennslu við Landbúnaðarháskólann á Hvanneyri síðustu ár samhliða búskap. Þá hefur Sigurgeir Sindri mikla reynslu af félagsmálum eins og áður segir en auk starfa á vettvangi landbúnaðarins hefur hann verið virkur í Framsóknarflokknum og er varaþingmaður flokksins í Norðvesturkjördæmi.


back to top