Sigurður Loftsson endurkjörinn formaður LK

Aðalfundi Landssambands kúabænda á Selfossi lauk í dag. Sigurður Loftsson var endurkjörinn formaður á afgerandi hátt. Aðrir stjórnarmenn voru einnig endurkjörnir nema hvað Trausti Þórisson frá Hofsá var kjörin í stað Sveinbjarnar Þórs Sigurðssonar frá Búvöllum sem gaf ekki kost á sér til endurkjörs. Meðal ályktana sem samþykttar voru á fundinum var ályktun um eflingu ræktunarstarfs íslenska kúastofnsins og aukna virkni bænda í því starfi. Í ályktuninni segir eftirfarandi: „Í því sambandi bendir fundurinn á eftirfarandi:

· Auka þarf gerð sæðingaáætlana þar sem valin eru saman reynd naut og kýr, án þess þó að draga úr notkun óreyndra nauta.


· Flýta þarf hönnun á pörunarforriti í Huppu til að efla framfarir í stofninum og lágmarka skyldleikaræktaraukningu.
 
· Ræða þarf hvort stuðningsgreiðslur eigi í auknum mæli að tengjast virkni í ræktunarstarfi.
 
· Auka þarf áhuga bænda á ræktunarstarfi í nautgriparækt m.a. með reglulegri útgáfu Nautaskrárinnar og ungnautaspjalda.
 
· Hvetja þarf bændur til að sæða bestu kýrnar og álitlegar kvígur með nautsfeðrum og láta ráðunauta vita þegar nautkálfur fæðist.
 
· Bændur fái upplýsingar um hvaða ungnaut eru hverju sinni í kútunum hjá sæðingamönnunum á hverju svæði.
 
· Vefmiðlar verði nýttir til að koma fjölbreyttari niðurstöðum skýrsluhalds á framfæri og á líflegan hátt.


Jafnframt felur fundurinn stjórn LK í samstarfi við BÍ að vinna sem fyrst áætlun um innskot annars erfðaefnis í íslenska kúastofninn til að hraða erfðaframförum í þeim eiginleikum sem hafa lágt arfgengi og litlar framfarir hafa náðst í, en skipta þó kúabændur verulegu máli.
 
Þess má geta að sú leið sem aðalfundurinn hefur nú falið stjórn LK í samstarfi við BÍ að vinna að, þ.e. innskot erlends erfðaefnis, er þekkt aðferð til þess að hraða erfðaframförum í smáum og einangruðum stofnum líkt og hér á landi er og um leið forða þeim þannig frá því að úreldast.“


back to top