Sauðfé úr umsjá ábúenda á Stórhóli

Matvælastofnun hefur tekið sjötíu kindur úr umsjá ábúenda á bænum Stórhóli í Álftafirði að því er RÚV hefur greint frá. Féð geymdu bændurnir á bæ í Lóni. Þeir hafa frest til morguns til að andmæla vörslusviptingunni.
Á undanförnum árum hafa ítrekað verið gerðar athugasemdir við umhirðu og ástand sauðfjár á Stórhóli í Djúpavogshreppi en allar tilraunir til úrbóta hafa mistekist. Við eftirlit hefur sauðféð reynst alvarlega vanfóðrað og öll umhirða á bænum talist langt frá því ásættanleg.

Matvælastofnun hefur kært ábúendur á Stórhóli fyrir slæman aðbúnað og vanfóðrun sauðfjár og var bóndinn í kjölfarið dæmdur til greiðslu sektar. Þá hefur sveitastjórn Djúpavogshrepps reynt að svipta ábúendur leyfi til búfjárhalds.


Allt að 1300 kindur voru á Stórhóli þegar flest var. Samkvæmt samkomulagi við sveitarfélagið var fé á bænum fækkað og kindur fluttar á aðra bæi. Þannig hefur það verið í vetur og samkvæmt heimildum RÚV hafa ábúendur á Stórhóli meðal annars haft 70 kindur á bæ í Lóni sem tilheyrir Sveitarfélaginu Hornafirði.


Á föstudag tók Matvælastofnun þessar kindur úr vörslu ábúenda Stórhóls vegna þess hve slæmur aðbúnaður fjárins var. Þegar framkvæma átti vörslusviptinguna var verið að flytja féð heim að Stórhóli en þeim flutningum var snúið við og vörslusvipting fór fram.


Féð er nú geymt á bæ í Lóni og hafa ábúendur á Stórhóli frest til morguns til að koma andmælum á framfæri. Í framhaldi af því tekur lögregla ákvörðun um ráðstöfun á fénu í samráði við Matvælastofnun og sveitarfélagið Hornafjörð.


Steinþór Arnarson, lögfræðingur hjá Matvælastofnun, staðfesti í samtali við RÚV í dag að stofnunin hafi á síðustu dögum fengist við dýraverndunarmál á Austurlandi og tekið umræddar kindur úr vörslu umráðamanns þegar hann reyndri að flytja þær á milli bæja. Hann vildi þó ekki staðfesta að um væri að ræða ábúendur á Stórhóli né að féð hafi verið geymt á bæ í Lóni.


back to top