Sæðistökuvertíð lokið

Í dag 21. desember lauk 53 sæðistökuvertíðinni hjá Sauðfjársæðingastöð/Kynbótastöð ehf. Þátttaka er meiri en í fyrra og veðurfar hefur verið hagstætt fyrir utan hvassviðri við suðurströndina  fyrstu dagana. Ekki er vitað til að sending hafi misfarist vegna veðurs.   Heildarútsending var 18200 skammtar af hrútasæði og miðað við nýtingu síðustu ára gætu verið að 12.000 til 12.500 ær hafi verið sæddar með sæði frá stöðinni þetta haustið . Sæðistakan gekk nokkuð vel en sæðisgæði eru misjöfn og óvenju margir hrútar tæpir í þeim. Ásókn í hrútana var óvenju jöfn. Mest af sæði var sent úr Blossa 16-837 frá Teigi í 1695 ær, Amori 17-831 frá Snartarstöðum í 1395 ær, Berki 17-842 frá Kjalvarastöðum í 1245 ær og Heimakletti 16-826 frá Hriflu í  1235 ær.  Af kollóttum hrútum var mest sent úr Fálka 17-825 frá Bassastöðum í 1075 ær og svo Þristi 18-856 frá Stað í Steingrímsfirði í 900 ær. Að lokum þakkar starfsfólk Sauðfjársæðingastöðvar fjárbændum um allt land ánægjulegt samstarf. Myndin er af Blossa frá Teigi.


back to top