Rekstur síðasta árs gekk vel

Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands var haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31.ágúst síðastliðinn. Halda átti aðalfundinn í apríl síðastliðnum en honum var frestað vegna eldsumbrotanna í Eyjafjallajökli. Í skýrslum formanns, Guðbjargar Jónsdóttur og framkvæmdastjóra, Sveins Sigurmundssonar kom m.a. fram að störf síðastliðins árs mótuðust að töluverðu leyti af þeirri efnahagslegu kreppu sem íslenskt samfélag hefur búið við. Þá fjölluðu þau um þær aðgerðir sem ráðist var í af hálfu Búnaðarsambandsins og annarra aðila í kjölfar eldgossins í Eyjafjallajökli.

Fram kom í máli Sveins Sigurmundssonar að starfsemin hefði gengið vel á árinu 2009 og skilaði sambandið hagnaði upp á um 24,5 milljónir króna en rekstrartekjur allra fyrirtækja Búnaðarsambandsins fyrir utan Stóra-Ármót var um 220 milljónir króna.


Haraldur Benediktsson formaður BÍ og Eiríkur Blöndal framkvæmdastjóri BÍ fluttu ávörp á fundinum.


Kosið var um fulltrúa í stjórn. Að þessu sinni var kosið um fulltrúa V-Skaftfellinga en undanfarin 9 ár hefur Guðni Einarsson í Þórisholti verið í aðalstjórn en hann gaf ekki kost á sér til áframhaldandi stjórnarsetu. Í hans stað var kosinn Jón Jónsson á Prestbakka í aðalstjórn og í varastjórn var kosinn Sigurjón Eyjólfsson í E-Pétursey.
Fjölmargar ályktanir voru samþykktar á aðalfundinum og fara þær hér á eftir:


Tillaga 1
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á stjórnvöld og Bændasamtök Íslands að tryggja innlendri kornrækt eðlilegt starfsumhverfi. Íslenskum landbúnaði verði þannig gert kleift að nýta betur sóknarfæri með aukinni kornrækt og gjaldeyrissparnaði fyrir þjóðarbúið.


Greinargerð
Á undanförnum árum hafa orðið stórstígar framfarir í innlendri kornrækt. Með aukinni þekkingu og reynslu bænda af kornrækt hafa myndast sóknarfæri fyrir íslenskan landbúnað, sem mikilvægt er að hlúa að. Þannig liggur fyrir að hægt er að auka notkun byggs við mjólkurframleiðslu og stórefla hlutdeild  byggs  í fóðri svína. Einnig er hægt að nota umtalsvert magn af byggi í loðdýrarækt og við kjúklingaeldi.
Bændur hafa lagt áherslu á þá stefnumótun að akuryrkja þróist samhliða annarri búvöruframleiðslu, með það að markmiði að stuðla að hagkvæmari framleiðslu í landinu á grundvelli innlendrar fóðuröflunar og landnýtingar. Með því skapast augljóst sóknarfæri sem skylt er að nýta eins og kostur er, ekki síst m.t.t. fæðuöryggis þjóðarinnar, gjaldeyrissparnaðar og nýtingar landgæða.
Tryggja þarf að innlend kornframleiðsla njóti sambærilegra styrkja og innflutt korn.
Á Suðurlandi hefur umfang kornræktar á afmörkuðum svæðum aukist verulega. Reynslan af því  sýnir að hægt er að auka kornrækt á Suðurlandi, þar sem verulegt landrými er til staðar.


Tillaga 2
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að hlutast til um að ekki sé settar á markað kjötafurðir langt undir framleiðsluverði.


Greinargerð
Veruleg röskun á kjötmarkaðnum hefur orðið vegna offramboðs á svínakjöti sem er vegna tilstuðlans fjármálastofnana. Þetta hefur haft áhrif á allan kjötmarkaðinn. Það eru liðin rúm sjö ár síðan svipað ástand á kjötmarkaðinum kom upp og þá einnig vegna óeðlilegrar afskipta fjármálastofnunar  af framleiðslu á kjötafurðum.


Tillaga 3
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 hvetur Búnaðarsamband Suðurlands til að veita bændum nú sem hingað til upplýsingar og ráðgjöf í samskiptum við fjármálastofnanir í lánamálum sínum eftir því sem kostur er.


Greinargerð
Ráðunautar Búnaðarsambands Suðurlands hafa unnið gott starf síðan hrunið varð, lögð verði áhersla á að þeirri vinnu og stuðningi sé haldið áfram. Það virðist vera að langt sé í land með niðurstöðu á gengistryggðum lánum bænda sem og annarra. Einnig er fyrirgreiðsla banka mjög misvísandi.


Tillaga 4
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 styður eindregið þá breytingu á búvörulögum sem liggur nú fyrir Alþingi og að sú breyting verði samþykkt sem fyrst á komandi haustþingi.


Tillaga 5
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 skorar á Bændasamtök Íslands að beita sér með markvissari hætti til að standa vörð um réttindi bænda í samningum við ríkisvaldið á næstu mánuðum. Jafnframt að halda úti markvissari kynningu á stöðu bænda og kjörum þeirra. Fundurinn mótmælir skerðingu á mótframlagi til Lífeyrissjóðs bænda á núverandi fjárlögum, sem og hugsanlegri skerðingu á öðrum samningum við bændur.


Tillaga 6
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun BSSL fyrir árið 2010.


Tillaga 7
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 leggur til að við gerð fjárhagsáætlunar Kynbótastöðvar Suðurlands fyrir árið 2010 verði sæðingagjöld, kr 1.000,- á kú.


Tillaga 8
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir óbreytt árgjald til BSSL, alls kr. 1.000,- á félagsmann.


Tillaga 9
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að þóknun aðalfundarfulltrúa miðist við dagpeninga ríkisstarfsmanna. Miða skal við fæðispeninga heilan dag og minnst 10 tíma ferðalag (nú kr 8.750,-) x 2. (þ.e. nú 17.500,-).


Tillaga 10
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn að Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að laun stjórnarmanna verði kr. 10.000,- fyrir hvern stjórnarfund auk dagpeninga og aksturs samkvæmt ríkistaxta og framreiknað með vísitölubreytingum samkvæmt grunni í launavísitölu frá apríl 2005. Formaður fái tvöföld laun og dagpeninga á við aðra stjórnarmenn auk aksturs. Formaður fái að auki eingreiðslu sem nemur kr. 150.000,- miðað við árið 2003 sem framreiknast með launavísitölu.


Tillaga 11
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 lýsir yfir ánægju sinni með skjót viðbrögð almannavarna, fagaðila og sjálfboðaliða vegna eldgoss í Eyjafjallajökli. Fundurinn þakkar fyrir alla þá miklu vinnu og aðstoð sem íbúar fengu hjá þessum aðilum á áhrifasvæði gossins í Eyjafjallajökli.


Tillaga 12
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 sendir kærar kveðjur til norskra bænda með innilegu þakklæti fyrir þann samhug og stuðning sem þeir hafa sýnt bændum við Eyjafjallajökul, m.a. með myndarlegri fjársöfnun í Noregi vegna eldgossins 2010.


Tillaga 13
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 beinir því til Matvælastofnunar að rannsökuð verði áhrif ösku og flúors á búfénað vegna eldgossins í Eyjafjallajökli, sérstaklega m.t.t. lungna, meltingarfæra og beina ungviðis.


Tillaga 14
Aðalfundur Búnaðarsambands Suðurlands haldinn á Kirkjubæjarklaustri 31. ágúst 2010 samþykkir að stjórn BSSL beiti sér fyrir því að farið verið yfir stöðu mála vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Mætti þar nefna það sem betur mætti fara í viðbrögðum og upplýsingaöflun. Auk þess verði könnuð langtímaáhrif á búfénað, vélar og fleira. Leitað verði eftir áliti bænda á áhrifasvæði gossins.


back to top