Ráðherra leitar leiða til að hamla á móti þróuninni

Landbúnaðarráðherra reyndi að koma í veg fyrir það að Arion banki seldi tvö svínabú sem hann eignaðist í byrjun ársins enda telur hann að bankinn og forverar hans beri mikla ábyrgð á alvarlegri stöðu svínaræktarinnar. Hann íhugar aðgerðir til að hamla á móti þessari þróun í samvinnu við aðra ráðherra ríkisstjórnarinnar, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.
Arion banki yfirtók rekstur svínabúanna á Hýrumel í Borgarfirði og Brautarholti á Kjalarnesi vegna fjárhagserfiðleika og hefur nú selt þau til stærsta svínakjötsframleiðanda landsins, Stjörnugríss á Kjalarnesi. „Mér finnst ábyrgðarhluti að Arion banki sé að selja þessi bú til eins aðila í þeirri offramleiðslu sem er í greininni,“ segir Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra. Hann segist hafa bent bankanum á ábyrgð sína á stöðunni og beðið um að ábyrgari leiðir yrðu kannaðar.


back to top