Nýjar tillögur um dýravernd

Verði nýjar tillögur um dýravernd að lögum fær Matvælastofnun stórauknar heimildir þvingunaraðgerða gegn bændum. Nefnd á vegum ráðuneytanna telur núgildandi fyrirkomulag allt of þunglamalegt, löngu sé tímabært að endurskoða lög um búfé og gæludýr. Tillögurnar fela í sér gagngera endurskoðun á lagaumhverfinu sem snýr að velferð dýra. Í stað tvennra laga um búfjárhald annars vegar og dýravernd hinsvegar, verða samkvæmt tillögunum ein heildstæð lög um flest það sem snýr að velferð dýra.

Sigurborg Daðadóttir, dýralæknir og fulltrúi Dýraverndarráðs í nefndinni, segir þetta verða miklu einfaldara í stjórnsýslunni, aukin úrræði, þannig að hægt verði að grípa fyrr inn í mál.
Sigurborg segir núgildandi kerfi allt of þunglamalegt. Sérstaklega hafi skort á skilvirkni og markvissar aðgerðir þegar kemur að velferð búfjár. Varðandi dýraverndarmál, þá þurfi í rauninni að kæra allt til lögreglu. Matvælastofnun geti ekki gripið til neinna þvingunarúrræða nema með fara í gegnum lögreglu eða dómskerfið.
Nefndin leggur til að málaflokkurinn heyri allur undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið. Matvælastofnun fengi fengi síðan fjölbreytt úrræði til að framfylgja eftirliti og aðhaldi. Hún mætti til dæmis láta gera úrbætur á kostnað eiganda, beita dagsektum og stjórnvaldssektum, auk þess sem heimilt yrði að skerða opinbera styrki til bænda sem brjóta lögin og bæta ekki úr sínum málum.
Sigurborg segir það vægast sagt óeðlilegt að ríkið styrki bændur með annarri hendinni, en krefji þá svo um úrbætur fyrir illa meðferð á dýrum með hinni.
En lögin myndu ekki bara ná yfir búfé. Gæludýraeigiendur þyftu líka að hafa sín mál á hreinu. Týni maður til dæmis hundinum mínum, er eins gott að dýrið sé merkt – ef ekki þá missi maður sinn rétt til að fá dýrið sitt aftur. Sveitarfélagið hafi þá rétt til að ráðstafa þessu dýri innan tveggja sólarhringa.


back to top