Nýjar reglur um gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt

Nýjar reglur um greiðslur vegna kynbótaverkefna í nautgriparækt tóku gildi 1. janúar sl. og gilda út árið. Hér er um að ræða greiðslur fyrir gæðastýrt skýrsluhald í nautgriparækt en eins og menn þekkja orðið eru skilyrðin þau að mjólkurskýrslum sé skilað fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð og að a.m.k. eitt sýni úr hverri mjólkandi kú liggi fyrir í hverjum ársfjórðungi. Engar breytingar verða á þessu á árinu 2012. Reglurnar fara hér á eftir:

Reglur um greiðslur vegna kynbótaverkefna í nautgriparækt, frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2012.


Með vísan til 11. gr. reglugerðar nr. 1278/2011 um greiðslumark mjólkur á lögbýlum og greiðslur til bænda frá 1. janúar 2012 til 31. desember 2012 og gr. 6.4. í samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslu dags. 10. maí 2004, setja Bændasamtök Ísland eftirfarandi reglur um fyrirkomulag greiðslna vegna kynbótaverkefna, á tímabilinu:


1. gr.
Rétt á álagsgreiðslum vegna kynbótaverkefna í nautgriparækt eiga handhafar bein-/gripagreiðslna á búum sem uppfylla kröfur Bændasamtaka Íslands um gæðastýrt skýrsluhald.
Handhafi greiðslna skv. 1. mgr. skal vera sá sami og er handhafi beingreiðslna og/eða gripagreiðslna á búinu, nema annað verði ákveðið.


2. gr.
Sú fjárhæð sem kemur til ráðstöfunar samkvæmt reglum þessum er ákveðin í ofangreindum samningi, reglugerð nr. 1278/2011 og lögum nr. 99/1993 um framleiðslu, verðlagningu og sölu á búvörum. Sú upphæð sem verður til ráðstöfunar á árinu 2012 verður ákveðin á grundvelli 11. gr. reglugerðar 1278/2011. Fjárhæðin verður greidd til þeirra sem rétt eiga á greiðslunum sbr. 1. gr. með þeim hætti sem hér segir:
a. Flöt greiðsla sem nema skal 20% af fjárhæð skv. 1. mgr., greiðist til handhafa greiðslna á búum sem uppfylla kröfur um gæðastýrt skýrsluhald.
b. Hlutfallsgreiðsla sem nema skal 80% af fjárhæð skv. 1. mgr., greiðist í réttu hlutfalli við árskúafjölda í þeim mánuði sem greitt er út.


3. gr.
Greiðslutilhögun og skilyrði greiðslna eru sem hér segir:
Upphæðin greiðist með þrem jöfnum greiðslum í maí og september 2012 og janúar 2013. Til grundvallar hverri greiðslu liggja skýrsluskil síðustu fjóra mánuði fyrir greiðslumánuð ásamt því að skýrsluhaldari þarf að standast kröfur um kýrsýnatökur fyrir allt yfirstandandi verðlagsár. Skýrsluskil þurfa að vera regluleg, þ.e. að skýrslu sé skilað fyrir 11. næsta mánaðar eftir mælingarmánuð. Skal vera ein niðurstaða, þ.e. eitt sýni úr hverri mjólkandi kú á búinu af hverjum ársfjórðungi ársins 2012. Niðurstöður kýrsýna þurfa að hafa borist innan 15 daga frá því að ársfjórðungi lýkur. Ef ekki tekst af tæknilegum ástæðum hjá RM að greina niðurstöður fyrir einstaka gripi skal taka tillit til þess. Ný skýrsluhaldsbú skulu hafa skráð sig í skýrsluhald og skilað skýrslu reglulega og kýrsýnum fyrir undangengin ársfjórðung. ásamt því að standast almennar ofangreindar kröfur.


4. gr.
Bú telst skýrsluhaldsbú hafi það verið skráð í skýrsluhald á verðlagsárinu 2010-2011. Með nýjum skýrsluhaldsbúum er átt við bú sem ekki voru skráð í skýrsluhald á verðlagsárinu 2010-2011, eða hafa haft eigendaskipti á verðlagsárinu 2010-2011 eða seinna.


5. gr.
Greiðslur deilast niður miðað við fjölda þeirra sem standast kröfur þess tímabils sem er til viðmiðunar.


Reykjavík 30. desember 2011.
F.h. Bændasamtaka Íslands,
Eiríkur Blöndal


back to top