Nýi Framsóknarflokkurinn vill standa vörð um íslenskan landbúnað

Algjör endurnýjun varð í forystusveit Framsóknarflokksins á flokksþingi hans helgina 16. til 18. janúar. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson var þar kjörinn nýr formaður flokksins, Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður og Eygló Harðardóttir velti Sæunni Stefánsdóttur úr stól ritara. Fyrir þinginu lá gríðarlegur fjöldi ályktanadraga til samþykktar en mesta athygli hlýtur að vekja samþykkt ályktunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið. Í ályktuninni kemur fram að hefja skuli aðildarviðræður við sambandið á grundvelli samningsumboðs frá Alþingi og að í þeim samningum skuli hagsmunir almennings og atvinnulífs tryggðir. Sérstaklega er tekið fram að tryggja skuli hagsmuni sjávarútvegs og landbúnaðar.

All ítarlega er fjallað um íslenskan landbúnað í ályktuninni og þar tekið fram að uppfylla verði ýmis skilyrði í samningunum við Evrópusambandið. Þau helstu eru að viðurkennt verði að íslenskur landbúnaður sé heimskautalandbúnaður á sama hátt og landbúnaður í norðurhluta Finnlands. Sömuleiðis að framleiðsla og úrvinnsla íslenskra búfjárstofna verði tryggð ásamt sérstöðu og hreinleika íslenskra landbúnaðarstofna. Ekki er frekar tekið fram hvernig unnið skuli að þeim markmiðum. Í ályktuninni kemur fram að tryggja þurfi fæðuöryggi þjóðarinnar og að viðurkennd verði nauðsyn á sérstökum ákvæðum vegna fámennis þjóðarinnar. Ekki er útskýrt frekar hvernig tryggja skuli fæðuöryggi né hvaða sérstöku ákvæði átt er við. Þá er kveðið á um að vegna fámennis íslensku þjóðarinnar og vegna aðstæðna hér á landi sé það krafa að Íslendingar fá varanlegan rétt til að setja lög um forgangsrétt manna með lögheimili og fasta búsetu á Íslandi til að eiga ráðandi hlut í jarðeignum, lóðum, fasteignum og atvinnufyrirtækjum, enda styðjast slík ákvæði við núgildandi reglur á Álandseyjum, Möltu, Azoreyjum og víðar innan ESB.


Ströng skilyrði til að verja íslenska hagsmuni
Eygló Harðardóttir sem kjörin var ritari flokksins segist mjög hreykin vegna þess trausts sem að henni var sýnt. Hún segist telja að niðurstaða flokksþingsins sýni að Framsóknarmenn hafi viljað umbyltingu á flokksforystunni. „Ég held að flokksmenn hafi litið á þetta flokksþing sem ákveðið nýtt upphaf fyrir flokkinn.“


Eygló segir að vissulega séu sett ströng skilyrði fyrir samningum um inngöngu í Evrópusambandið. „Umræðan á þinginu sýndi að við erum ekki tilbúin til að fórna hagsmunum landbúnaðar og sjávarútvegs eða annnarra auðlinda okkar fyrir Evrópusambandsaðild. Menn lýstu almennt þeirri skoðun sinni að það væri algjört forgangsmál að tryggja stöðu landbúnaðarins ef við gengjum þarna inn. Við erum ekki tilbúin að fórna hverju sem er fyrir inngöngu.“


Eygló segist bjartsýn á framtíð Framsóknarflokksins til framtíðar. „Ég tel að stefnumál flokksins eigi mikinn og breiðan hljómgrunn hjá kjósendum um allt land.“


Nýrri forystu takist að rífa flokkinn upp úr lægð
Birkir Jón Jónsson nýr varaformaður flokksins segist mjög sáttur við niðurstöðu flokksþingsins. Hann segist telja að krafan um endurnýjun í flokksforystunni hafi augsýnilega verið mjög sterk en kosning hans sjálfs hafi auðvitað líka verið hluti af vilja flokksfélaga til að halda í heiðri ákveðnu jafnvægi milli landsbyggðar og höfuðborgarsvæðis. „Ég bind miklar vonir við að nýrri forystu takist að rífa Framsóknarflokkinn upp úr þeirri lægð sem að hann hefur óneitanlega verið í á undanförnum árum. Mér sýnist upptakturinn að því lofa mjög góðu.“


Birkir segir að það sé frumskilyrði fyrir inngöngu Íslands í Evrópusambandið að staðinn verði vörður um íslenskan landbúnað og sjávarútveg. „Landbúnaðurinn er mikilvægur bæði út frá fæðuöryggi þjóðarinnar og líka út frá byggðasjónarmiðum. Ég kem auðvitað úr kjördæmi sem að byggir nær allt sitt á landbúnaði og sjávarútvegi. Það kæmi ekki til greina af minni hálfu að leggja samning í dóm þjóðarinnar sem að myndi vega að starfskilyrðum þessara atvinnugreina. Ég var því mjög sáttur við þau skilyrði sem að sett voru fram í ályktuninni.“


Birkir segir ómögulegt að spá fyrir um það hvort að þessi skilyrði fengjust samþykkt í samningaviðræðum við Evrópusambandið. „Það er auðvitað okkar markmið að láta á þetta reyna en hvað Framsóknarflokkinn varðar kemur það einfaldlega ekki til greina að fara út í þessar viðræður né að leggja í dóm kjósenda niðurstöðu þar sem vegið yrði að þessum undirstöðuatvinnuvegum.“


Framsóknarflokkurinn verði félagshyggjusinnaður miðjuflokkur
„Ég held að menn hafi viljað sýna með áþreifanlegum hætti að stjórnmálastarf innan flokksins snerist ekki um neit annað en gildi og stefnu flokksins en grasrótin í flokknum hefur að ýmsu leit verið mjög svekkt með þróun flokksins á undanförnum árum. Ég held að þessi niðurstaða snúist um það í enn meira mæli en mína persónu. Þess vegna var valin þessi óvenjulega leið sem er alveg ný í íslenskum stjórnmálum, að valinn er formaður sem situr eingöngu í skjóli grasrótar flokksins,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson nýr formaður Framsóknarflokksins.


Sigmundur segist telja að það séu mjög margt sem að liggi mun meira á að framkvæma heldur en að fara í aðildarviðræður við Evrópusambandið eins og staðan er nú í íslensku þjóðfélagi. „Ég tel engu að síður að samþykkt þessarar ályktunar hafi verið mjög þörf og skapi frið innan flokksins. Inn í hana voru sett mjög stíf skilyrði fyrir aðildarviðræðum og ekki síst varðandi íslenskan landbúnað. Á þinginu talaði ég sérstaklega um það að ástæðan fyrir þessum skilyrðum væri sú að menn óttuðust sérstaklega að gefið yrði eftir varðandi stöðu íslensks landbúnaðar í aðildarviðræðum. Í mínum huga má það alls ekki gerast.“


Sigmundur segir að sér hafi fundist sem Evrópusambandsumræðan hafi að mjög miklu leiti verið knúin áfram til að draga athyglina frá þeim vanda sem að íslenskt samfélag stendur frammi fyrir við núverandi efnahagsaðstæður. „Þau mál leysast ekkert með umsókn í Evrópusambandið, við verðum að byrja á því að taka á þessum málum hér heima fyrir. Gjaldmiðilsmálin munu heldur ekki leysast með Evrópusambandsaðild því að slíkt myndi taka mjög langan tíma. Eðlileg röð á hlutunum er að byrja á að leysa málin hér heima fyrir, síðan má huga að umsókn í Evrópusambandið.“
 
Sigmundur segist vilja færa flokkinn frá hægri ás íslenskra stjórnmála inn á miðjuna og gera flokkinn aftur að miðsæknum félagshyggjuflokki. Hann segist greina það hjá Framsóknarfólki að það sé talsverður vilji til að vinna til vinstri eftir næstu kosningar, hvenær sem þær muni fara fram. „Ég held að það sé ríkjandi vilji í flokknum til þess að Sjálfstæðisflokknum verði gefið frí frá stjórnarsetu eftir næstu kosningar. Ég mun samt ekki setja nein slík skilyrði fyrir kosningar heldur meta stöðuna að þeim loknum. Framsóknarflokkurinn á að vera á miðjunni, flokkur sem að metur hvert mál út frá rökum og skynsemi í staðinn fyrir einhverjum fyrirframgefnum pólitískum kreddum. Frjálshyggjan verður ekki höfð í fyrirrúmi innan Framsóknarflokksins í framtíðinni.“
 
Bændablaðið hyggst fjalla ítarlega um flokksþing Framsóknarflokksins í næsta blaði.


back to top