Norðlægur stuðningur er sjónhverfing

„Tal um stuðning ESB við svokallaðan norðlægan landbúnað er sjónhverfing. Við teljum að ekkert sé þar á bak við“ segir Haraldur Benediktsson, formaður Bændasamtaka Íslands. Samtökin hafa unnið að athugun á afleiðingum þess fyrir íslenskan landbúnað ef Ísland gengur í Evrópusambandið, meðal annars með fundum með samningamönnum Finna.
Haraldur segir að Finnar hafi fengið heimild til þess, með samningunum við ESB, að skilgreina hluta landbúnaðarins sem norðlægan og styrkja hann sérstaklega, þar til Evrópusambandið ákvæði annað. Stuðningurinn sé alfarið á kostnað finnskra skattgreiðenda. „Samkvæmt öllum reglum ESB stenst það ekki að einhver hluti landsvæðis þess fái sérmeðferð, það eiga allir að vera jafnir.“

„Mér hefur sjaldan brugðið jafn mikið og þegar þetta kom fram,“ segir Haraldur og vísar þá til funda með finnsku samningamönnunum og vinnu með íslenskum fræðimönnum á þessu sviði. »Maður verður sífellt meira undrandi á fullyrðingum um að hinu og þessu sé hægt að ná í samningum. Staðreyndin er sú að við erum í aðildarferli, ekki samningum, og nokkuð ljóst að ESB lagar sig ekki að okkur,« segir Haraldur.


„Það er tímabært að menn fari að átta sig á staðreyndum málsins. Við getum ekki byggt aðildarviðræður á því sem við vonum eða væntum, heldur ísköldum staðreyndum, og verðum umfram allt að segja fólki rétt frá,“ segir Haraldur.


Skýrsla um athugun Bændasamtaka Íslands á afleiðingum aðildar að ESB verður lögð fyrir Búnaðarþing í lok febrúar og væntanlega mun Búnaðarþing endurskoða stefnu sína.

Morgunblaðið 9. febrúar 2010, Helgi Bjarnason hegli@mbl.is


back to top