Niðurstöður heysýna

Nú er lokið efnagreiningum á tæplega 200 heysýnum á uppskeru sumarsins 2009 af Suðurlandi. Um er að ræða hirðingarsýni. Þær niðurstöður sem komnar eru benda til mun meiri breytileika en oft áður í fóðurgildi heysins. Ef litið er á einfalt meðaltal úr 1. slætti (170 sýni) kemur í ljós að orkugildi þessara sýna er að meðaltali um 0,8 FEm/kg þurrefnis og heildarprótein um 141 gramm/kg þurrefnis en var eftir sumarið 2008 um 160 grömm í kílói þurrefnis.

Að sama skapi virðast steinefnatölur almennt heldur lægri en í fyrra. Þá er meðalþurrefni um 47% sem er heldur lægra en árið á undan. Að hluta er það vegna hærra hlutfalls heys sem verkað er sem stæðuvothey en var árið á undan. Sjá má á dagsetningum sýnanna að mjög margir hafa byrjað hirðingu á sjálfan þjóðhátíðardaginn eða þann 17. júní. Mjög margir hafa líka staðið í hirðingu dagana 24.–26. júní.

Nánar má sjá breytileikann í orkugildi og próteini í eftirfarandi gröfum:Eins og sjá má á myndritunum er breytileikinn mikill, þ.e. punktasvermurinn dreifist talsvert. Þó má sjá að leitnin (trend) sem línan sýnir er í þá átt að orkugildið að jafnaði hafi farið niður fyrir 0,8 FEm/kg þe í kringum 25. júní en próteinið farið niður fyrir 150 g/kg þe nokkru fyrr, eða strax um 20 júní. Því virðist sem svo að krafturinn í grösunum hafi verið minni í vor en oft áður og fallið heldur fyrr en áðurgengin sumur. Ef leitað er skýringa á þessum aukna breytileika þá er nokkuð af sýnum í þessu gagnasafni tekið í fyrri hluta júlí og ætlað sem geldstöðufóður og þá með mun lægra orku- og próteingildi en fóður sem tekið er sem framleiðslufóður. Þá er meiri breytileiki en áður milli bæja. Mögulega getur það stafað af þeirri ástæðu að í sumum tilvikum hafa menn dregið úr áburðarkaupum á liðnu vori og í sumum tilvikum hafa menn gengið of langt í sparnaði þannig að það kemur niður á gæðum fóðursins.


back to top