Niðurfelling mykju

Nú á vormánuðum keypti einkahlutafélagið Skarni ehf. 20 tonna haugtank af gerðinni Samson. Dreifarinn getur hvort heldur sem er fellt niður búfjáráburð eða lagt hann á jörðina með slöngubúnaði. Um gríðarlega afkastamikið tæki er að ræða, niðurfellingarbúnaðurinn hefur 8 metra vinnslubreidd en slöngubúnaðurinn hefur 16 metra vinnslubreidd. Skarni ehf. er í eigu verktakafyrirtækisins Túnfangs ehf., Jötunn-Véla á Selfossi, sem jafnframt flutti tækið til landsins, og fjögurra búnaðarfélaga í Árnessýslu, Bf. Skeiðahrepps, Bf. Villingaholtshrepps, Bf. Hraungerðishrepps og Bf. Stokkseyrarhrepps. Eigendur Túnfangs ehf., verktakarnir Sigurður Ágústsson og Davíð Ingvason sjá alfarið um haugkeyrsluna og taka jafnframt við pöntunum í símum 894-1130 (Sigurður) og 898-9154 (Davíð). Til verksins nota þeir dráttarvél af gerðinni Fendt Vario, 360 hestöfl.

Í síðustu viku var Skarni ehf. að keyra út mykju á Tilraunabúinu á Stóra-Ármóti. Alls var verktakinn notaður í 15 klst og á þessum tíma fór hann 45 ferðir og keyrði út 900 tonnum. Þetta þýðir að meðaltali 3 ferðir á klst. eða 60 tonn á klst. Mykjan var í þessu tilviki öll felld niður með niðurfellingarbúnaðinum og sett 25 tonn á hektara. Alls var mykja því felld niður á 36 hektara af túni. Áður hafði Höskuldur bústjóri keyrt út 440 tonnum á 12 klst með 12 tonna dreifara með hefðbundinni yfirbreiðslu.

Haugtankurinn hefur talsvert verið notaður hjá viðkomandi búnaðarfélögum í vor en stendur jafnframt öðrum til boða. Til að mynda hefur skólabúið á Hvanneyri ásamt fleiri vestlenskum bændum pantað haugkeyrslu og fer verktakinn þangað væntanlega í næstu viku.

Kostnaður við haugkeyrsluna er 20.000 kr./klst. ef niðurfellingarbúnaðurinn er notaður en en 18.000 kr/klst. ef slöngubúnaðurinn er notaður. Þessar tölur eru fyrir utan vsk. Slöngudreifingin er talsvert afkastameiri en niðurfellingin þar sem hún hefur meiri vinnslubreidd og er síður orkukræf.

Kostir niðurfellingar og slöngudreifingar eru þeir helstir að lyktar“mengun“ af haugkeyrslunni er mun minni en þegar borið á með yfirbreiðslu eins og algengast er. Þá eru veðuráhrif, s.s. af völdum sólar og vinds hverfandi og af þeim sökum má vænta mjög góðrar nýtingar á næringarefnum mykjunar. Saurmengun í heyi ætti einnig að vera í lágmarki við niðurfellingu og er það mikill kostur t.d. ef mykja er sett á tún milli slátta. Einnig gefur niðurfelling möguleika á að nýta aðra áburðargjafa s.s. fiskislóg sem krafa er gerð um að sé niðurfelld til að varna ágangi fugla, s.s. máva, sem seint verða taldir æskilegir gestir.

Ókostir niðurfellingarinnar eru hins vegar þeir helstir að búnaðurinn ristir sundur svörðinn með jöfnu millibili sem getur leitt til minnkandi rótarstarfsemi, þjöppunaráhrif af völdum umferðar með þungt æki (ekki bundið við þessa aðferð) og svo kostnaður sem óhjákvæmlega er allnokkur þegar dýr tæki eru notuð. Þess ber að geta að slöngudreifingin ristir ekki svörðinn, aðeins niðurfellingarbúnaðurinn.

Engar formlegar rannsóknir hafa verið gerðar hér á landi með þennan búnað en Landbúnaðarháskóli Íslands á Hvanneyri gerði sk. búreyndarathugun með þessum búnaði síðasta sumar þar sem fram kom að tækið væri afar afkastamikið, traustlega smíðað og virkaði í alla staði eins og til var ætlast. Þrátt fyrir töluverðan þunga dreifarans, sem og dráttavélarinnar sem fyrir honum fór, mátti ekki merkja veruleg frávik í sporun umfram það sem gerist og gengur með hefðbundna dreifara. Áburðaráhrif voru hins vegar varla könnuð með nægilega vísindalegum hætti að af því megi draga miklar ályktanir. Á aðalfundi Búnaðarsambands Suðurlands sem haldinn var þann 17. apríl sl. var samþykkt ályktun þar sem skorað var á Landbúnaðarháskólann að hefja formlega rannsókn á áburðaráhrifum niðurfellingar/slöngudreifingar í samanburði við hefðbundna yfirbreiðslu. Vonir standa til að slík rannsókn verði gerð.

Myndirnar sem hér fylgja með er frá dreifingu á Hvanneyri á liðnu sumri þegar búreyndarathugunin var gerð. Þær tvær efri sýna tankinn með niðurfellingarbúnaðinum en sú neðsta slöngudreifingu.






back to top