Matarbúrið getur verið fyrirmynd annarra bænda

Í Kastljósinu í gærkvöldi (15. júní) voru bændur að Hálsi í Kjós heimsóttir en þar hefur nú verið opnuð verslun í sveit sem ber nafnið Matarbúrið. Á Hálsi er m.a. búið með holdagripi og má í versluninni kaupa afurðir þeirra, niðursagaða og vacumpakkaða líkt og í öðrum verslunum. Í Matarbúrinu er einnig að finna heimagerðar sultur og fleiri árstíðarbundnar vörur frá þeim sjálfum sem og bændunum í kring.

Á Hálsi í Kjós hafa bændurnir farið þá leið að láta slátra fyrir sig gripunum í afurðastöð SS á Selfossi en þeir taka síðan kjötið heim og sjá sjálfir um alla úrvinnslu þess, þ.e. úrbeiningu, hreinsun, pökkun og loks sölu.  Fullkomin og heilbrigðisvottuð kjötvinnsla hefur verið sett upp inn af versluninni sjálfri þar sem bændurnir vinna vöruna. Með þessum hætti verður framlegð vörunnar eftir heima á bænum, vinna skapast heima við úrvinnslu og sölu vörunnar og bóndinn nýtur afrakstursins með beinum hætti. Bændurnir geta einnig reynt sjálfir einhverjar nýjungar í framleiðslunni, búið til sína eigin sérstöðu ef þeir hafa hugmyndaflug til þess. Að sjálfsögðu er ekkert því til fyrirstöðu að fleiri bændur sameinist um litla verslun á stað þar sem aðstæður liggja hvað best við.


Í Kastljósviðtalinu kom fram hjá Þórarni bónda á Hálsi að hann hefði síður en svo lent í „vandræðum með kerfið“ eins og það er orðað. Eðlilega hefðu heilbrigðisyfirvöld sett ákveðnar kröfur varðandi aðstöðu og hreinlæti en að því uppfylltu væru vandamálin úr sögunni.


Fyrir neytendur skapast einnig jákvæð stemming fyrir íslenskum landbúnaðarvörum. Hann veit nákvæmlega hvaðan varan kemur, við hvaða aðstæður hún hefur orðið til og við hvaða aðila á að hafa samband ef einhverjar athugasemdir eru vegna vörunnar – nú eða til að panta meira…


Fullvíst má telja að fyrir verslun af þessu tagi sé mikill velvilji í þjóðfélaginu. Ákveðinn hópur neytenda vill geta keypt matvörur sínar sem næst upprunastað, þekkja forsögu matvörunnar og aðstæður allar. Þessir neytendur eru ekki að hugsa um lægsta kílóverðið fyrst og fremst eins og þeir sem versla í stórmörkuðunum heldur persónulega upplifun við sína fæðu.


Bændur sem búa nærri þjóðbraut ættu því að huga að þessum möguleika af alvöru og bjóða vörur sínar og þjónustu til sölu með snyrtilegri auglýsingu við þjóðveginn. Að sjálfsögðu er mikilvægast af öllu að bjóða persónulega þjónustu, jafnvel upplifun sem ekki er hægt að finna á hraðferð í gegnum stórmarkaðina. Snyrtilegt umhverfi viðkomandi býlis skiptir þar einnig höfuðatriði svo upplifunin og ímyndin sem fylgir gestum úr hlaði tryggi komu þeirra aftur og verði íslenskum landbúnaði til vegsauka og virðingar.

Kastljósviðtal 15. júní 2009 – viðtalið er undir lok þáttarins…











back to top