Markaðsmál íslenska hestsins

Niðurstöður starfshóps sem settur var saman að frumkvæði Hrossaræktarsamtaka Suðurlands. Hópurinn fékk það hlutverk að leita leiða til kynningar og útbreiðslu á íslenska hestinum og hestamennskunni með það fyrir augum að fjölga iðkendum bæði hérlendis sem erlendis.

Hópinn skipuðu: Eysteinn Leifsson (formaður), Hjörný Snorradóttir (ritari), Bergljót Rist, Ingimar Baldvinsson, Katrín Sigurðardóttir, Kristbjörg Eyvindsdóttir, Rúnar Þór Guðbrandsson og Sigríkur Jónsson. Fundað var á skrifsofu Búnaðarsambands Suðurlands sumarið og fram á haust 2013.
Hópurinn var mjög áhugasamur um verkefnið og mikið rætt enda mál sem þarf að skoða út frá nokkrum sviðum hestamennskunnar og því var það niðurstaða hópsins að skipta verkefninu upp í eftirfarandi þætti sem síðan yrðu unnir áfram af viðkomandi hagsmunaaðilum:

• Innanlandsmarkaður
• Æskulýðsstarf
• Söluvefur / kerfi
• Menntakerfið
• Nýliðun
• Hestatengd ferðaþjónusta
• Hesturinn og heilbrigði
• Markaðssetning erlendis
• Félagskerfið / Hagsmunaaðilar
• Hrossaafurðir

1. Innanlandsmarkaður

Markmið: Að viðhalda því sem vel er gert og reyna að fá fleiri iðkendur í hestamennsku.

Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Komið verði á Markaðsstofu íslenska hestsins sem kæmi fram sem sameiginlegur málsvari greinarinnar t.d. gagnvart hinu opinbera og fjölmiðlum.
• Auka jákvæðni og upplýsingaflæði til hestamanna og almennings, fá fjölmiðla í lið með okkur.
• Halda opinn dag á hrossaræktarbúum, svipað og „bændur bjóða heim“.
• Reiðskólar starfi allt árið bæði fyrir byrjendur og lengra komna.
• Almenn upplýsingasíða um íslenska hestinn.
• Ræktunarmarkmiðin þurfa að samræmast betur markaðsþörfum.
• Auðvelda aðgengi að hestamennsku fyrir þá sem ekki hafa tengsl í hestamennskuna, vantar reiðskóla allt árið eða félagshesthús.

2. Æskulýðsstarf

Markmið: Að auka áhuga yngri knapa á íslenska hestinum og auka samvinnu æskulýðsfélaga innanlands og erlendis.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Æskulýðsstarf er mjög misjafnt milli hestamannafélaga og gæti meiri samvinna milli félaga breytt miklu varðandi uppbyggingu á starfinu. Hestamannafélögin þurfa einnig að vera með fjölbreytt námskeið sem höfða ekki bara til keppnisknapa.
• Auka samvinnu milli æskulýðsfulltrúa félaganna, vera með sameiginlega fundi reglulega þar sem hægt væri að bera saman bækur sínar, skiptast á hugmyndum, reynslu, ofl.
• Komið verði á vinafélögum milli hestamannafélaga.
• Nýta samfélagsmiðla eins og facebook til að búa til æskulýðshópa, auglýsa þar námskeið, ferðir, útreiðartúra og fleira sem væri opið fyrir alla.
• Vekja athygli á forvarnargildi sem felst í því að hugsa um hest.
• Efla æskulýðssamstarf við FEIF. Þar eru tengiliðir við æskulýðsfulltrúa frá öllum löndum.
• Skoða þau hestamannafélög sem eru með öflugt æskulýðsstarf – hvað eru þau að gera sem hinir eru ekki að gera?
• Auðvelda innkomu nýliða í hestamennsku með því að bjóða uppá að leigja hest eða taka hest í fóstur.
• Bjóða uppá fjölskyldunámskeið.

3. Sölukerfi / vefur

Markmið: Auðvelda aðgengi kaupenda að söluhestum í samhæfðum gagnagrunni.
Byggja upp sölukerfi/vef sem tengist Worldfeng. Vefurinn væri tæki til að ná til nýrra kaupenda og byggja upp traust milli kaupenda og seljenda.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Koma á fót vef sem væri tengdur gagnagrunni Worldfengs, þar væri að finna staðlaðar upplýsingar um hesta sem eru til sölu líkt og bílasöluvefir.
• Á vefnum væru gagnlegar upplýsingar um frágang sölu, eigendaskipta, útflutnings og fleira.
• Bjóða uppá námskeið fyrir þá sem eru að selja hesta á vefnum.
• Þróa gæðavottun á seljendum og/eða hestum.
o Mikilvægt að þetta sé unnið í samvinnu við önnur lönd.

4. Menntakerfið

Markmið: Að efla vitund þjóðarinnar um sögu hestsins og hvaða hlutverki hann hefur gengt í gegnum tíðina. Gefa æskunni tækifæri til þess að komast í snertingu við náttúruna og hestinn. Nýta hestinn til kennslu á sem víðustum grunni.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Auka samvinnu skóla-menntakerfis-reiðkennara-reiðskóla og hestamannafélaga.
• Auka tengingu við grunnskólanna með kynningu á knapamerkjanámi í gegnum til dæmis þemadaga.
• Vekja athygli á því að hestamennska er skemmtilegt sport.
• Semja námsefni sem höfðar til yngri kynslóðarinnar.
• Halda hestatengda daga með samvinnu hestamannafélaga og skóla.
• Setja af stað verkefni þar sem hestamenn leigja út hesta til almennings og bjóða uppá leiðsögn, þeim sem vilja kynnast hestamennsku án þess að leggja út í mikinn kostnað.
• Leggja áherslu á hestur í lífi þjóðar – arfleifð sem ekki má gleymast, sögusafn, skráning sagna af hestum og afrekum þeirra, merking mynda, vera stolt af okkar menningu (söguþjóðin), nýta þekkingu þeirra sem enn eru á lífi og muna gamla tíð.
• Stofna heimasíðu eða facebooksíðu þar sem kallað er eftir sögum frá gamalli tíð. Gamlar myndir eru birtar og það fólk sem þekkir til hjálpar til við að segja sögu þeirra og merkja inn hverjir eru á myndum. T.d. myndasafn Sigurðar Sigmundssonar ljósmyndara sem að stórum hluta er ómerkt. Dæmi um slíkt verkefni er „Heimaklettur“ þar sem Vestmannaeyingar hjálpast að við að skrá sögu sína og allir hafa gaman af.
• Vinna að því að gerður verði sjónvarpsþáttur um sögu hestsins á Íslandi.
• Efla tómstundarstarf tengt hestum í skólum landsins, en hér áður var öflugt samstarf Íþrótta og Tómstundaráðs Reykjavíkur (ÍTR), sem gafst frábærlega vel.

5. Nýliðun

Markmið: Fjölga iðkendum í hestamennsku og efla byrjendur.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Að hestamannafélögin bjóði upp á fjölbreytt námskeiðahald.
• Koma upp úrræðum fyrir byrjendur varðandi hesthúspláss, hestakost (lánshesta) og reiðtygi.
• Að kynna hestinn betur á viðburðum og hátíðum t.d. 17.júní í samráði við skipuleggjendur, til að mynda með því að teyma undir börnum.
• Virkja sveitafélögin til samstarfs þannig að aðgengi að hestamennsku verði sjálfsagður hluti af afþreyingu sem víðast t.d. með frístundaávísun, börn geti stundað/æft hestamennsku til jafns við aðrar íþróttir eins og t.d. fótbolta. Það er aldrei að vita hvenær fræ fellur í frjóan jarðveg.

6. Hestatengd ferðaþjónusta

Markmið: Koma hestinum svo ofarlega á blað að gestum sem heimsækja landið þyki það tilheyra heimsókn til Íslands að kynnast hestinum. „Ísland – land hestsins“. Sýna fram á órjúfanleg tengsl hestsins við land og þjóð og um leið sérstöðu íslenska hestsins.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Stuðla að aukinni samvinnu greinarinnar við ferðaþjónustuaðila.
• Gera menninguna, söguna, arfleifðina að stærri þætti í kynningu hestsins og sem þátt í ferðaþjónustunni.
• Tryggja nægt viðhald og aðgengi reiðvega, áningarhólfa og skála.
• Standa vörð um aðgengi hestamanna að landinu.
• Upplýsa þarf ferðamenn betur um smithættu hrossasjúkdóma. Þessu þarf að koma betur til skila áður en gestir koma til landsins, t.d. um leið og þeir kaupa flugmiða.
• Vanda val á hestum, „hestaleigu hestur“ þarf að vera gæðingur sem gestinn langar að setjast á aftur og aftur.
• Leggja áherslu á upplifun, frekar en fjölda.
• Leggja áherslu á fagmenntun starfsfólks.

o Gæði þjónustunnar aukast og þá um leið gæði upplifunarinnar og slíkt hefur þýðingu fyrir markaðssetningu Íslands sem ferðamannalands og markaðssetningu og kynningu íslenska hestsins.
Ef við vöndum okkur og setjum það ofar skyndigróða þá eru tækifærin í hestatengdri ferðaþjónustu óendaleg.

7. Hesturinn og heilbrigði

Markmið: Vekja athygli á heilbrigði íslenska hestsins og efla vitund um mikilvægi sóttvarna.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Vekja athygli á hreinleika stofnsins, þ.m.t. að hesturinn er ekki bólusettur.
• Vegna hreinleikans má nýta hestinn enn frekar til rannsókna á hestasjúkdómum erlendis eins og gert er í rannsóknum á sumarexemi.
• Styðja áfram við rannsóknir á sumarexemi.
• Efla sóttvarnir og kynningu á þeim.

8. Markaðssetning erlendis

Markmið: Auka sölu á erlendum mörkuðum.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Ræktunarmarkmiðin þurfa að samræmast betur markaðsþörfum.
• Leita leiða til að samræma dóma á kynbótahrossum milli landa.
• Efla kynninga- og auglýsingastarf og leggja áherslu á markvissari fjölmiðlaumfjöllun.
• Gera Ísland sýnilegra sem upprunaland íslenska hestsins.
• Af hverju að kaupa hest á Íslandi? Færa rök fyrir því.
• Gera allar upplýsingar um íslenska hestinn aðgengilegar á sameiginlegri vefsíðu t.d. upplýsingar um ræktendur, söluaðila, þjónustuaðila, viðburði og svo framvegis. Öflugur söluvefur gæti verið tengdur þessum vef. Þar væri einnig að finna upplýsingar um meðhöndlun á sumarexemi.
• Efla þátttöku í sýningahaldi erlendis, jafnvel í samvinnu við hestatengda ferðaþjónustu. Sýna þarf fjölbreytileika og heilbrigði íslenska hestsins og færa rök fyrir því að kaupa hest frá Íslandi.
• Gera kynningarmyndband um íslenska hestinn sem hægt væri að sjá í flugvélum Icelandair eða sækja það sem (app) um leið og erlendir ferðamenn lenda á Keflavíkurflugvelli (slóðin á auglýsingaspjöldum í stöðinni)
• Leggja áherslu á einkenni íslenska hestsins og kosti hans:

o Ganghæfileika
o Lundarfar
o Heilbrigði

 Vekja athygli á að hestar á Íslandi eru ekki bólusettir.
 Sóttvarnir – gera meira úr mikilvægi sóttvarna.

• Styðja áfram við rannsóknir á sumarexemi, því það er ein helsta hindrunin í sölu á hrossum frá Íslandi.
• Gera kynningarmyndband um sumarexsem og varnir gegn því.
• Efla samvinnu við erlend íslandshestafélög með samræmdum markaðsátökum og með þvi að koma á vinafélögum.
• Markaðsstofa íslenska hestsins fari í sameiginlegt markaðsátak með öðrum í greininni. Með þessu væri hægt að samræma aðgerðir og halda uppi faglegri og uppbyggilegri umræðu.

o Mikilvægt er að greina markaðinn, gera markaðsáætlun og stilla upp öflugu markaðsátaki í framhaldi.
o Nota ýmsar tegundir miðla til að koma skilaboðunum á framfæri eins og samfélagsmiðla, kynningarmyndbönd, vefsíður, umfjöllun í erlendum miðlum og svo framvegis.
o Kanna þarf leiðir til að greiða fyrir flutningi á hrossum á erlenda markaði sérstaklega á Norðurlönd.

9. Félagskerfi / Hagsmunaaðilar

Markmið: Auka samvinnu félagasamtaka í markaðssetningu og nýliðun í hestamennsku til þessa að markaðsstarfið geti orðið heildstæðara og markvissara og um leið líklegra til að skila árangri.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Stofna samstarfsklasann “Markaðsstofa íslenska hestsins”.
Til frekari útskýringar þá er klasi samkvæmt skilgreiningu Porters landfræðileg þyrping tengdra fyrirtækja, birgja, þjónustuaðila, fyrirtækja í tengdum atvinnugreinum og stofnana á sérhæfðum sviðum sem eiga í samkeppni en einnig í samvinnu.
• Allir sem hafa hag af markaðssetningu og nýliðun svo sem félagasamtök, söluaðilar og útflytjendur leggi sitt af mörkum til klasans. Þar væri unnið að þeim verkefnum sem allir þessir aðilar hafa sameiginlega hagsmuni.

o Greining á markaði – draga fram hverjar hindranirnar eru og leita leiða til að draga úr þeim
o Markaðsáætlun –markaðsátak og fylgja því eftir.
o Umsjón með almennri upplýsingasíðu um íslenska hestinn og notkun samfélagsmiðla í markaðssetningunni.
o Hafa umsjón með verkefnum tengdum nýliðun.
o Umsjón með söluvef.
o Umsjón með gerð kynningarefnis, bæklinga, myndbanda og dreifingu þeirra.
o Umsjón með auglýsingum, sýningum og kynningarbásum erlendis.
o Hafa umsjón með opnum degi hestamennskunnar og Hestadögum í Reykjavík.
o Tengsl við fjölmiðla – tengja hestamennsku inn í fjölmiðla.
o Koma íslenska hestinum betur að í almennri landkynningu.
o Greiða leiðir til að koma vöru á markað fljótt og örugglega.
o Sækja um styrki til ýmissa þátta er varða markaðsstarfið.

10. Hrossaafurðir

Markmið: Auka sölu á hrossaafurðum.
Hópurinn var samstíga um eftirfarandi leiðir að markmiðinu:

• Kannaðir verði nýir markaðir erlendis
• Hrossakjöt/folaldakjöt verði markaðssett hér á landi og erlendis sem hollt gæðakjöt.
• Efla ímynd hrossakjöts í gegnum auglýsingaherferðir og matreiðsluþætti/bækur.

 


back to top