LK og ráðherra vilja kvótamarkað og stærðarmörk á greiðslumark

Landssamband kúabænda (LK) vill að öll viðskipti með greiðslumark í mjólk fari fram á sameiginlegum uppboðsmarkaði og jafnframt verði íhugað að setja takmörk við því hversu mikið greiðslumark geti verið í eigu sama aðila. Þetta er meðal þess sem ályktað var um á aðalfundi LK sem haldin var dagana 26. og 27. mars síðastliðna.
Jón Bjarnason sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ávarpaði fundinn og komu fram í máli hans hugmyndir af sama meiði. Lýsti ráðherra verulegum áhyggjum sínum af stöðu fjölda kúabænda í því erfiða efnahagsástandi sem nú ríkir.

„Ég get ekki leynt því, að ég óttast að í ákveðnum tilfellum komi þær aðstæður upp, að einhverjir kúabændur lendi í þroti.  Ef slíkt kæmi til hefði það að sjálfsögðu í för með sér mikla röskun á högum þessara bænda og fjölskyldna þeirra.“ Jón velti í framhaldi af þessum orðum upp þeirri stöðu sem að gæti komið upp við þessar aðstæður. Mörg álitamál kæmu þá fram varðandi greiðslumark þessara búa og ef það yrði selt burt af jörðum eða úr byggðarlögum gæti það leitt til mjög óheppilegrar röskunar eða samþjöppunar greiðslumarks á landinu. „Ég hef svo sannarlega því velt því fyrir mér hvort rétt sé og þá hvernig  stjórnvöld geti grípið inn  í þessa atburðarás. Ef það yrði gert mætti hugsa sér að lögbinda ákvæði þess efnis að binda framsal greiðslumarks að minnsta kosti tímabundið ákveðnum skilyrðum og til dæmis ákveða að óheimilt væri að framselja eða ráðstafa með öðrum hætti greiðslumarki mjólkur úr einstökum sveitarfélögum eða byggðalögum, sem tilheyra gjaldþroti einstaklinga eða fyrirtækja sem hafa fengið heimild til greiðslustöðvunar,“ sagði Jón í ræðu sinni. Þá nefndi hann einnig að kanna þyrfti grundvöll þess að koma upp miðlægum kvótamarkaði.


Í ályktunum aðalfundarins er að sumu leyti tekið undir orð ráðherra. Í ályktun um breytingar á rekstrarumhverfi greinarinnar er lagt til að staðfastlega verði unnið að því að lækka framleiðslukostnað um 35 prósent á næsta áratug. Til að ná því markmiði þurfi að huga að mörgum atriðum en meðal þeirra sé að draga verulega úr kostnaði vegna viðskipta með greiðslumark. Í því ljósi sé eðlilegt að öll viðskipti með kvóta fari fram á kvótamarkaði og þá þurfi að fara fram umræða um stærðarþróun í greininni, meðal annars með tilliti til þess hvaða áhrif hún hafi haft á verð á kvóta.


back to top