Landbúnaðarráðherra fagnar stækkun íslenskra búa

Í fyrirspurnatíma á Alþingi í gær beindi Jón Björn Hákonarson, varaþingm. Framsóknarflokksins í NA-kjördæmi, fyrirspurn til sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um afstöðu hans til þeirrar þróunar sem er við það að hefjast í landbúnaði, þ.e. verksmiðjubú í mjólkurframleiðslu.

Jón Björn sagði það ekkert vafamál að sjá hefði mátt eðlilega stækkun búa á síðustu árum og þá sérstaklega í mjólkurframleiðslu. Nú mætti hins vegar kannski í fyrsta skipti sjá að upp væru að rísa bú sem við gætum kallað verksmiðjubú á Flatey á Mýrum í Austur-Skaftafellssýslu þar sem gert væri ráð fyrir allt að 5–10% af heildarmjólkurframleiðslu hérlendis. Þingmaðurinn velti jafnframt fyrir sér að við höfum gagnrýnt þessi bú víða erlendis, í bæði Bandaríkjunum og Evrópu. Þá veltir maður fyrir sér þeirri ímynd sem við höfum reynt að skapa okkur í íslenskum landbúnaði sem er vistvænn og hreinn landbúnaður. Er þetta það sem við viljum sjá fyrir okkur?, sagði þingmaðurinn.


Hann sagði jafnframt að þekkt væri að að þessum búum kæmu fjársterkir aðilar og spurði hvort við sæjum fyrir að þessi bú myndu njóta beingreiðslna eða framleiða utan kvóta? Hann sagði sig óa við þessari umræðu og þessari þróun á sama tíma og við vildum styrkja landbúnað okkar með vistvænni framleiðslu og auðvelda það að landið væri sem víðast í byggð. Þess vegna sagðist hann beina þessari fyrirspurn sinni til ráðherra.


Einar K. Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, sagðist almennt talað fagna þeirri þróun sem orðið hefði í íslenskum landbúnaði. Búin hefðu verið að stækka og þess vegna hefði þeim tekist að takast á við ýmis þau verkefni og viðfangsefni sem við þeim blöstu.


Ráðherra sagði að til þess að við næðum hámarksafrakstri og gætum þannig lækkað framleiðslukostnað í landbúnaði þyrfti að eiga sér stað hagræðing og þá þyrftu m.a. búin að stækka. Gríðarlega mikil tæknibreyting hefði orðið í íslenskum landbúnaði og hún kallaði einfaldlega á það að búin yrðu stærri vegna þess að til þess að standa undir þeirri fjárfestingu sem er nauðsynleg til að glíma við það viðfangsefni að reyna að lækka framleiðslukostnað þarf tiltekna stærð af búum, sagði ráðherra.


Hann sagðist fagna því að íslensk bú færu stækkandi og þessi þróun væri jákvæð. Hann sagði jafnframt að stór bú ættu auðvitað sama rétt til beingreiðslna og önnur bú í landinu og erfitt í sjálfu sér að setja einhverjar reglur sem kæmu í veg fyrir það að bú af tiltekinni stærð nytu beingreiðslna eins og önnur bú í landinu.


Þá vakti ráðherra athygli á því að sum þessara búa byggja á því m.a. að þar eru núna setnar jarðir sem áður voru í eyði. Það er í sjálfu sér jákvæð þróun.


Að lokum kom fram hjá ráðherra að hann vildi að hér væri stundaður vistvænn og hreinn landbúnaður og um það væri enginn ágreiningur.


back to top