Kýrin Unnsteina 295 hefur eignast 4 kvígur á innan við ári

Oft ber margt skemmtilegt við í nautgriparæktinni og kúabúskapnum. Eitt af því verður að teljast sú staðreynd að kýrin Unnsteina 295 í Sólheimum í Hrunamannahreppi hefur á síðustu 12 mánuðum borið tvisvar sinnum og eignast fjórar sprelllifandi kvígur. Þann 27. júní 2011 bar Unnsteina fjórða sinni og átti tvær kvígur undan Síríusi 02032 og 2. maí í ár endurtók hún leikinn og átti tvær kvígur undan Tópasi 03027. Hún hefur því samtals eignast fimm kvígur á sinni ævi og tvö naut.
Unnsteina sjálf er fædd 24. október 2006, dóttir Hræsings 98046 og Trillu 289 Soldánsdóttur 95010. Trilla þessi var fædd í Langholtskoti í Hrunamannahreppi. Unnsteina er prýðisgóð mjólkurkýr, mjólkaði 7.959 kg í fyrra með 3,74% fitu og 3,54% próteini.
Myndina af Unnsteinu og dætrunum fjórum tók Esther Guðjónsdóttir í Sólheimum.


back to top