KÝR 2011 verður haldin í lok ágúst

Búnaðarsamband Suðurlands og Félag kúabænda á Suðurlandi hyggjast standa fyrir kúasýningu í lok ágúst í sumar. Sýningin verður að öllum líkindum haldin í Rangárhöllinni á Gaddstaðaflötum. Að venju verða sýndir kálfar og kýr að tilskyldu að þátttaka verði næg.
Innan skamms verða kúabændum sent bréf þar sem óskað verður eftir ákveðnum kúm til sýningar. Mörkin verða sett við að viðkomandi gripir hafi fengið a.m.k. 87 stig í útlitsmati en þó verður engum gripum vísað frá sem vilji er fyrir að sýna.
Kálfum verður skipt í tvo flokka þar sem um verður að ræða sýnendur 11 ára og yngri og sýnendur 12-15 ára. Æskilegt er að ekki sé komið með mjög unga kálfa til sýningar þar sem þeir þurfa að hafa lágmarksholdfyllingu til að þeir sýnist sem best.
Við biðjum bændur og búalið því að fara að huga að gripum til sýningar en gera verður kröfu um að þeir gripir sem sýndir verða séu leiðitamir, geti numið staðar og standi kyrrir.

Nánari upplýsingar gefur Guðmundur Jóhannesson í síma 480 1800, netfang mundi@bssl.is.


back to top