KS býður skagfirskum sauðfjárbændum vaxtalaust lán

Kaupfélag Skagfirðinga í samstarfi við Leiðbeiningamiðstöðina hefur ákveðið að bjóða sauðfjárbændum í Skagafirði hagstæð lán til til fjölgunar sauðfjár með aukinni framleiðslu og bættri afkomu að leiðarljósi með svo kölluðu Bústofnsláni KS að því er fram kemur á feykir.is.
Sauðfjárbændur fengu bréf þess efnis nú í vikunni en það gengur út á það að lánað verður á ásetta gimbur umfram það sem þarf til að viðhalda fjárstofni sem er um 15-20%. Miðað er við að fjölgun sauðfjár hjá lántakenda verði að lágmarki miðað við 30 lífgimbrar og nemur upphæðin kr. 9.000 á hverja lífgimbur. Lánað verður til 5 ára og er lánið vaxtalaust en verðtryggt.

Í bréfinu segir að aðstæður á erlendum mörkuðum varðandi sölu og söluhorfur á sauðfjárafurðum hafi gjörbreyst frá því sem var fyrir örfáum árum auk þess sem gengisskráning krónunar hafi breyst til bóta fyrir útflutningsgreinar landsmanna og sé því orðið raunhæft að auka framleiðslu sauðfjárafurða með útflutning í huga.


Víða er húsakostur, ræktun og annað til staðar hjá bændum til að auka framleiðslu án teljandi fjárfestinga og með aukinni framleiðslu er því víða hægt að bæta fjárhagsafkomu. Enn fremur er bent á að flest bendi til þess að framleiðslusamdráttur sauðfjárafurða á Nýjasjálandi og í Ástralíu sé varanlegur sem gæfi útflutningi íslenska lambakjötsins aukin tækifærin .


Ágúst Andrésson forstöðumaður Kjötafurðastöðvar KS segir að tölverður áhugi sé fyrir þessum lánum hjá bændum og ef vel tekst til sé hugsanlegt að þetta verði útvíkkað til sauðfjárbænda utan héraðs í framhaldinu.


back to top